Einu megin og hinu megin

Ég sá í Málvöndunarþættinum að í fréttum hefði verið notað orðalagið einu(m) megin þar sem venja væri að segja öðru(m) megin. Í fréttinni sem um er að ræða sagði: „Einu(m) megin fer blandaður úrgangur og hinu(m) megin fara matarleifar.“ (Útilokað er að vita hvort sagt var einu megin eða einum megin.) Augljóst var að þeim sem nefndu þetta orðalag þótti það rangt, og vissulega er það ekki algengt í nútímamáli. En það er samt gamalgróið í málinu og kemur iðulega fyrir í fornu máli. Þannig segir t.d. í Grettis sögu: „Þar mátti einum megin að leggja og eigi fleirum en fimm senn.“ Í Sturlungu segir: „Þar gæta gjár þrem megin en virkisgarður einum megin.“ Í Finnboga sögu ramma segir: „Hann var stórlega hár og mátti einum megin að sækja.“

Fornmálsdæmin eru vissulega frábrugðin dæminu í fréttinni að því leyti að í þeim er um fleiri en einn kost að ræða. Þegar kostirnir eru aðeins tveir hefur yfirleitt verið talað um öðru(m) megin og hinu(m) megin. Þó má finna nokkur 19. aldar dæmi um að einu(m) megin sé notað um annan tveggja kosta. Þannig segir t.d. í Þjóðólfi 1871: „Í Michigan er breitt nes eitt skógi vaxið, er gengr út í Huronvatnið milli Saginawfjarðarins einu megin og árinnar St. Clair hinu megin.“ Í Norðlingi 1877 segir: „Nú er skriðið til skara á þingi Dana, og þingi slitið með fullum fjandskap á milli stjórnarinnar og landþingsins einu megin, en þjóðþingsins á hina hliðina.“ Í Austra 1898 segir: „Einu megin er fámenni og strjálbyggð, og hins vegar er fátækt landsmanna.“

Dæmi af þessu tagi, þar sem einu(m) megin er andstæða við hinu(m) megin, eru hins vegar sárafá á 20. öld, en fara að sjást aftur upp úr síðustu aldamótum – fyrst á samfélagsmiðlum en síðar einnig í fjölmiðlum. Í Morgunblaðinu 2005 segir: „meginkjarni þorpsins var einum megin við hraðbrautina og hinum megin við hraðbrautina var svo skólinn.“ Í DV 2013 segir: „Áhugavert var t.d. í Silfri Egils um helgina að sjá Evrópuflokkana BF og Samfylkingu sitja einum megin við Egil og Evrópuandstæðingana VG og sjalla hinum megin.“ Á mbl.is 2017 segir: „Á seðlinum má sjá andlit Assad einu megin en sýrlenska þingið hinu megin.“ Í Vísi 2018 segir: „Að lokinni sókn einum megin geystist hitt liðið í aðra sókn hinum megin á vellinum.“

Dæmi í Risamálheildinni benda til að þessi notkun á einu(m) megin fari vaxandi og sé orðin nokkuð algeng, einkum í óformlegu málsniði, og nógu langt er frá endurvakningu hennar til að trúlegt er að sá sem flutti fréttina sem varð kveikjan að þessum pistli hafi alist upp við hana. Það er auðvitað ljóst að einu(m) megin er í sjálfu sér gott og gilt orðalag sem á sér langa hefð þótt vissulega geti skoðanir verið skiptar um hvort eðlilegt sé að nota það sem andstæðu við hinu(m) megin eins og gert var í fréttinni. En í ljósi þess að slík notkun tíðkaðist á 19. öld, og kom upp aftur (hafi hún einhvern tíma horfið alveg) fyrir a.m.k. tuttugu árum, sé ég ekki sérstaka ástæðu til að amast við henni. Þetta virðist orðið málvenja margra, og þar með rétt mál.

Eins og hér hefur komið fram er ýmist ritað m eða ekki í enda orða sem standa með meginbáðu(m) megin, einu(m) megin, hinu(m) megin, hvoru(m) megin, öðru(m) megin o.s.frv. Samkvæmt íslenskum ritreglum á að rita þessi orð með m vegna þess að uppruninn er báðum vegum, öðrum vegum o.s.frv. þar sem fornafnið sambeygist nafnorðinu. Í Íslenskri orðsifjabók segir að -megin sé „blendingsmynd úr -(v)eginn og vegum“ en m-ið er komið til vegna samlögunar við lokahljóð orðsins á undan (m-v > m-m). En úr því að vegum má breytast í megin sé ég ekki hvers vegna báðum og öðrum má ekki breytast í báðu og öðru. Það er ljóst að megin hefur fyrir löngu slitið tengslin við uppruna sinn og fráleitt að láta hann ráða mynd fornafnanna.