Ekki fer saman hljóð og mynd

Ein algengasta klisja í máli fólks sem tekur þátt í opinberri umræðu um þessar mundir er að ekki fari saman hljóð og mynd hjá einhverjum öðrum. Áður hefði verið sagt að ekki færu saman orð og gerðir eða orð og athafnir en líkingin er augljós og auðskilin. Þetta orðasamband hefur verið notað í bókstaflegri merkingu í a.m.k. fimmtíu ár, frá því skömmu eftir að farið var að gera sjónvarpsefni á Íslandi, en yfirfærða merkingin er miklu yngri. Elsta dæmi sem ég finn um hana er á Bland.is 2006: „Einhvervegin bara fer ekki saman hljóð og mynd í þessu öllu.“ Annað dæmi er úr viðtali í fréttum Ríkisútvarpsins 2008: „Því það fer bara hvergi saman og alls ekki saman hljóð og mynd í nokkrum sköpuðum hlut í þessu sko.“

Elsta dæmi á prenti er í DV 2009: „er alls ekki að sjá að saman fari hljóð og mynd hjá annars vegar ráðherrunum og landsfeðrunum […].“ Á næstu árum má finna eitt og eitt dæmi á stangli um þessa líkingu og hún var t.d. notuð í fyrsta skipti í ræðu á Alþingi 2014: „Það var eins og verið væri að útvarpa eða sjónvarpa einhverju efni og hljóð og mynd færu ekki saman.“ En á árunum 2016-2017 verður sprenging í notkun sambandsins og það er notað margoft í flestum fjölmiðlum, og notkunin hefur vaxið ár frá ári síðan. Ólíkt mörgum nýjungum í máli er þetta samband mun algengara í formlegu málsniði en óformlegu og alþingismenn virðast hafa tekið sérstöku ástfóstri við það – alls eru 75 dæmi um það í þingræðum á fimm árum, 2017-2021.

Sambandið ekki fer saman hljóð og mynd er fín líking og skemmtilegt dæmi um það hvernig tækninýjungar verða uppspretta nýjunga í málnotkun. En það er æskilegast að nýjungar auðgi málið, komi til viðbótar því sem fyrir er í stað þess að ryðja því brott. Það er samt það sem virðist vera að gerast – samböndin ekki fara saman orð og athafnir og ekki fara saman orð og gerðir sem áður voru algeng, m.a. í máli alþingismanna, eru á hröðu undanhaldi – á árunum 2017-2021 eru aðeins fjögur dæmi um það fyrrnefnda í þingræðum en ekkert um það síðarnefnda. Þessi sambönd eru þó góð og gild og því væri æskilegt að fólk hugaði að því hvort ekki mætti stundum nota þau í stað þess að þrástagast á ekki fer saman hljóð og mynd.