Húsgerska og lóðarmál

Ég hugsa að við þekkjum öll einhver dæmi um orð eða orðasambönd sem eru eingöngu notuð innan ákveðinnar fjölskyldu, vinahóps eða vinnustaðar. Þetta geta verið hnyttin orð úr barnamáli, oft byggð á misskilningi barna sem eru að tileinka sér málið; skemmtileg mismæli; vísvitandi afbakanir; óvænt, sérkennileg eða fyndin tilsvör; erlendar slettur o.fl., sem eru þá notuð í tíma og ótíma innan viðkomandi hóps en eru óþekkt og oft óskiljanleg utan hans. Stöku sinnum komast slík orð og orðasambönd inn í almennt mál, sérstaklega ef þau þjóna einhverju hlutverki sem almenna málið sinnir ekki sem skyldi. En oftast hverfa þau samt og skilja ekki eftir sig neinar menjar þegar hópurinn sem notar þau líður undir lok af einhverjum ástæðum.

Orðið húsgerska sem er leitt af húsagarður hefur verið notað um mál af þessu tagi – ég held að það sé komið frá Baldri Jónssyni prófessor. Það var líka kallað lóðarmál í bókarkafla sem Halldór Halldórsson prófessor skrifaði um sérstakt málfar í tengdafjölskyldu sinni og er eitt af því fáa sem til er á prenti um þetta. Það væri mjög forvitnilegt að vita meira um málnotkun af þessu tagi en henni hefur sáralítið verið sinnt af málfræðingum. Þetta er hluti tungumálsins sem þykir líklega léttvægur og ekki málfræðilega áhugaverður – en þannig var líka litið á barnamál og mismæli áður fyrr þótt nú sé vitað að hvort tveggja getur fært okkur ómetanlega vitneskju um eðli tungumálsins. En fyrir skorti á lýsingum á þessu málfari eru eflaust ýmsar ástæður.

Ein er sú að þetta er óformlegt mál og hefur þótt léttvægt, og íslenskar mállýsingar hafa byggst að miklu leyti á fremur formlegu málsniði. Önnur ástæða er sú að þetta er undantekningarlítið eingöngu talmál sem ekki kemst á prent, og því litlar heimildir um það að hafa nema vera beinlínis þátttakandi í þeim hópi þar sem þetta er notað. Þriðja ástæðan er sú að vegna þess að þetta málfar er yfirleitt bundið við litla hópa er engin almenn lýsing möguleg, heldur verður að lýsa orðanotkun innan hvers hóps sérstaklega. Af þessum ástæðum vitum við ákaflega lítið um slíkt málfar og getum ekkert sagt um almenn einkenni þess – hvað sé sameiginlegt og hvað ólíkt. Það væri sannarlega verðugt viðfangsefni málfræðinga að bæta eitthvað úr því.