Stærðarinnar, heljarinnar – og heljarins

Í gær var á Vísi frétt með fyrirsögninni „Stærðarinnar tré féll á Tjarnargötu.“ Þessi fyrirsögn varð tilefni fyrirspurnar hér í dag um notkun orðsins stærðarinnar í þessu samhengi – og vissulega er það verðugt athugunarefni sem ég hef aldrei leitt hugann að. Þetta er augljóslega eignarfall eintölu með greini af nafnorðinu stærð, en hefur þarna setningafræðilega stöðu og merkingarlegt hlutverk lýsingarorðs – lýsir nafnorðinu sem það stendur með. Merkinguna í stærðarinnar X má e.t.v. orða sem 'í stærri kantinum miðað við það sem X er vant að vera'. Það er hægt að tala um stærðarinnar kónguló, stærðarinnar frekjuskarð, stærðarinnar glóðarauga, stærðarinnar randaflugu o.s.frv. þótt ekkert af þessu sé sérlega stórt.

Í umræðum kom fram að áður hefði eignarfall eintölu án greinis af stærð, stærðar, verið notað í sama hlutverki. Sú notkun er gömul og vel þekkt allt frá 19. öld a.m.k. Þannig segir t.d. í Austra 1884: „Stærðar foss steyptist niður fyrir neðan þá.“ Í Austra 1900 segir: „Hitt skipið sem hér steytti var franska spítalaskipið „St. Paul,“ stærðar skip.“ Í Þjóðviljanum 1901 segir: „Etazráðið hafði meðferðis stærðar blómsveig úr lárberjalaufum.“ Oft er stærðar- tengt eftirfarandi nafnorði með bandstriki og má þá stundum líta svo á að um samsett orð sé að ræða. Í Fjallkonunni 1893 segir: „þá fauk stærðar-uppskipunarbátr á Papósi.“ Í Ísafold 1893 segir: „hjer eru engin stærðar-gistihús með afarverði á öllum lífsnauðsynjum.“

Notkun myndarinnar stærðarinnar með greini er miklu yngri. Elsta dæmi sem ég finn um hana er í frásögn eftir Kristin R. Ólafsson í Morgunblaðinu 1972: „Hjá honum höfðum við lagt undir okkur stærðarinnar verelsi.“ Annað dæmi er í Morgunblaðinu 1976: „Á gólfinu fyrir framan var stærðarinnar bjarnarskinn.“ En árið 1977 koma nokkur dæmi, þ. á m. þessi: Í Morgunblaðinu segir: „Stærðarinnar kvenmaður situr við skrifborðið.“ Í Þjóðviljanum segir: „Í hverju blaðinu á fætur öðru blasa við stærðarinnar auglýsingar á viðbjóði kapitalismans og neysluþjóöfélagsins.“ Í Dagblaðinu segir: „Þetta er hún Aníta litla frá Esbjerg í Danmörku sem er ekki nema 20 ára að aldri, nýkomin á þetta stærðarinnar Honda mótorhjól.“

Upp úr þessu eykst tíðni þessarar notkunar jafnt og þétt og hún er nú mjög algeng. Jafnframt fækkar dæmum um að greinislausa myndin stærðar sé notuð í þessu hlutverki og það virðist nú orðið frekar sjaldgæft. Þannig eru u.þ.b. fjórum sinnum fleiri dæmi um stærðarinnar en stærðar í þessu hlutverki frá árunum 2020-2022 á tímarit.is. En þótt stærðarinnar hafi þannig að miklu leyti komið í stað stærðar þýðir það ekki að myndirnar séu jafngildar. Mér finnst stærðarinnar vera óformlegra en stærðar og leggja meiri áherslu á stærðina. Þar að auki er oft hægt að líta svo á að stærðar + nafnorð sé í raun samsett orð eins og áður segir, óháð því hvort það er skrifað í einu eða tvennu lagi, en sá möguleiki er ekki fyrir hendi með stærðarinnar.

Óljóst er hvernig þessi notkun stærðar er til komin – eða hvers vegna stærðarinnar hefur komið í staðinn. Ég veit ekki til að önnur merkingarlega sambærileg orð séu notuð á þennan hátt, svo sem smæð, hæð, lengd o.s.frv. Helsta hliðstæðan sem ég man eftir er heljar sem hefur verið notað sem áhersluorð a.m.k. síðan á 19. öld – „þvílík heljar vitleysa“ segir í Bónda 1851. Myndin heljarinnar sést fyrst í Hamri 1956: „Guðbjartur bjó til heljarinnar mikið deig.“ Þar stendur orðið reyndar í stöðu atviksorðs, þ.e. sem ákvæðisorð með lýsingarorði, en fljótlega fór heljarinnar að koma í stað lýsingarorðsins og yfirtaka merkingu þess – „Þessi nýi frelsisher hefur líka sett upp einn heljarinnar pott með hinni gömlu áletrun“ segir í Frjálsri þjóð 1960.

En um svipað leyti og farið er að nota heljarinnar kemur einnig til myndin heljarins, bæði í stöðu atviksorðs og lýsingarorðs – „Eftir dálítinn tíma kom hann svo aftur og þá sem heljarins mikil svertingjakerling“ segir í Skátablaðinu 1952; „átti þar að fara fram heljarins bardagi“ segir í Alþýðublaðinu 1975. Myndin heljarins lítur út eins og karlkynsorð með greini, þótt hel sé vitanlega kvenkynsorð. En e.t.v. er ekki augljóst fyrir öllum að heljar sé eignarfall af hel, heldur er það skilið sem karlkynsorð og þess vegna bætt við það karlkyns greini. Þessi mynd var talsvert notuð upp úr 1980 en virðist nú orðin frekar sjaldgæf. Aftur á móti hefur heljarinnar verið mjög algeng mynd frá 1980 og sérstaklega frá aldamótum.