Er ókei ókei?

Örugglega hefur ekkert íslenskt orð verið hrakyrt jafnmikið og ókei. Það hefur verið kallað „orðskrípi“, „átakanlegt dæmi um orðfátækt“, „óyrði“, „„graftrarkýli“ á fögrum líkama máls okkar“, o.s.frv. Orðið er yfirleitt rakið til ol korrekt, framburðarstafsetningar á all correct, í bandarísku slangri kringum 1840, þótt gælunafn Martins van Buren Bandaríkjaforseta, Old Kinderhook, sé talið hafa ýtt undir notkunina og skammstöfunin lifði „because it filled a need for a quick way to write an approval on a document, bill, etc.“, þ.e. uppfyllti þörf fyrir fljótlega aðferð til að staðfesta skjal, samþykkja reikning o.s.frv. Orðið er ritað á ýmsa vegu í íslensku samhengi – OK, O.K., ókey, en ókei hefur alla tíð verið langsamlega algengasti rithátturinn.

Elstu dæmi sem ég finn á prenti eru frá fjórða áratug síðustu aldar. Í þýddri sögu í Alþýðublaðinu 1936 segir: „Það er ókei póli, sagði Minchin.“ Í sama blaði sama ár segir: „Nú svoleiðis! Þá er það O.K.“ Í Morgunblaðinu 1940 er sagt frá titilsögunni í smásagnasafninu Hótelrottur eftir Guðmund K. Eiríksson sem kom út árið áður. „Í þessari stuttu sögu er dregin upp mynd af Reykjavíkuræskunni [...] og vitanlega fylgir málskrúðið „vemmilegt“, „gasalegt body“, „chance“ og ,„ókey“ og fleira því líkt sögunni.“ Í Vísi 1944 segir: „Þá stakk eg upp á að hann kæmi með mér i einn hópinn, en hann afþakkaði og sagðist vera ókei.“ Orðið sást þó ekki mikið á prenti fyrr en eftir 1970 og einkum eftir síðustu aldamót.

Þótt ókei sé stutt orð og láti lítið yfir sér leynir það á sér – kemur fram í ýmsum setningarstöðum og hefur margar mismunandi merkingar. Í Íslenskri orðabók er orðið greint sem upphrópun og merkt „óforml.“. Tvær merkingar orðsins eru gefnar: „(sem svar eða kveðja) allt í lagi“ og „(við útskýringu eða frásögn annars sem samþykki eða boð um skilning, eða sem spurning um skilning annars) þannig já, það er einmitt það, ég skil“ eða „(sem spurning um skilning eða samþykki annars) skilið? allt í lagi?“ Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið greint sem atviksorð og tvær merkingar gefnar: „táknar samþykki, allt í lagi“, dæmi „ókei, ég skal þvo upp“ og „táknar hik eða samþykki, jæja“, dæmi „ókei, þá er þetta tilbúið“.

Oft er nefnt að merking ókei fari „eftir því í hvaða tóntegund menn gubba því út úr sér“ eins og Gísli Jónsson sagði. Að þessu leyti er það svipað jæja. Sum notkun ókei er sérstaklega háð hljómfalli og er algeng í talmáli en líklega sjaldgæf í ritmáli, enda erfitt að tákna hljómfallið í riti. Þetta eru dæmi eins og „Ég er á leið til Ástralíu.“ „Ó-kei!“, og borið fram með spurnar- eða efasemdahreim, þar sem áherslan kemur oftast á seinna atkvæði orðsins. Þarna merkir ókei ýmist 'er það (virkilega)?' eða 'ég trúi þessu ekki'. Einnig má nefna dæmi eins og „Það er eitt sem ég þarf að segja þér.“ „Ó-kei“. Þarna merkir ókei eiginlega 'haltu áfram, sannfærðu mig' og er borið fram með áherslu á seinni hluta og hækkandi tón sem ýtir undir framhald.

Það er þó ekki nóg að flokka ókei sem upphrópun eða atviksorð – orðið hefur líka oft setningarstöðu lýsingarorðs, oftast þá sem sagnfylling með sögninni vera. „Það er líka alltaf gaman að láta hafa eitthvað eftir sér, sem er ókei og smart“ segir í Speglinum 1944. „Kennedy er ókei, Ameríka er all ræght, en Ísland er líka gott land“ segir í Alþýðublaðinu 1962. „Salurinn er ókei“, segir í Þjóðviljanum 1975. Stundum stendur ókei líka hliðstætt með nafnorði þótt það sé kannski ekki mjög algengt – „Það er ókei staður en mér finnst skemmtilegra hérna“ segir í Vísi 1981. „Þetta er ókei hugmynd“ segir í Morgunblaðinu 1984. „Svona skyndibitalitteratúr er ókei spaug en grunnurinn í textanum býður uppá meira“ segir í DV 2004.

En ókei hefur líka eignast afkvæmi í íslensku – sambandið allt í kei(inu) sem er augljóslega samsláttur úr allt í lagi og ókei. Þarna bætir kei við sig greini og því er eðlilegt að greina það sem nafnorð, eins og gert er í dálknum „Slangrið“ í Morgunblaðinu 2007: „Kei: Hvorugkynsorð, samanber allt í keiinu, allt í lagi.“ Elsta dæmi sem ég finn um þetta samband er í Frjálsri verslun 1961: „Allt í keiinu góði, þú ert ekkert klikkaður.“ Í Rétti 1968 segir: Jæja, það skilur þetta enginn, þá er allt í keyinu.“ Í Morgunblaðinu 1972 segir: „Allt er í keiinu hjá okkur ennþá.“ Í Lystræningjanum 1978 segir: „Jájá – allt í keiinu.“ Stöku sinnum er kei(inu) notað sér, án allt í: „Er ekki pústið enn í lagi eða réttara í kei-inu“ segir í Tímanum 1984.

„Títt amast menn við óþjóðlegu orðfæri og sjá í því vísan dauða íslenskrar tungu – gott ef íslensk menning er ekki komin að fótum fram þegar menn segja ókei í stað allt í lagi“ sagði Árni Matthíasson í Morgunblaðinu 2010. Rökin gegn notkun ókei í íslensku eru vissulega ýmis. Það er tekið hrátt úr ensku; það er óþarft því að önnur orð eru til sem þjóna sama tilgangi; það hefur oft óskýra merkingu; það fellur illa að íslensku hljóðkerfi. Allt þetta má til sanns vegar færa. Það breytir því ekki að orðið er gífurlega mikið notað og tíðni þess á prenti, þótt töluverð sé, segir lítið um tíðnina í talmáli. Barátta gegn því hefur litlu skilað og ég held að óhætt sé að segja að meginhluti málnotenda bregði orðinu fyrir sig. Er ekki bara rétt að taka ókei í sátt?