Fríkeypis

Í frétt á Vísi nýlega kom fyrir orðið fríkeypis. Það er ekki að finna í neinum orðabókum en merking þess í umræddri frétt var samt augljós af samhengi – það merkir 'án endurgjalds' og er samsláttur orðanna frí(tt) og ókeypis sem bæði eru notuð í þessari merkingu. Þetta orð er ekki nýtt – elsta dæmi sem ég finn um það er í DV 2001: „Þar sem aðgangur á tónlistarhátíðir er ekki fríkeypis er nauðsynlegt að leita á ódýrari mið þegar ölkneyfingar eru annars vegar.“ Á tímarit.is eru 25 dæmi um orðið, þar af allmörg úr auglýsingum Vodafone, en í Risamálheildinni er rúmlega hálft sjöunda hundrað dæma, langflest af samfélagsmiðlum. Orðið er því fyrst og fremst bundið við óformlegt mál en heldur virðist hafa dregið úr notkun þess.

Árið 2009 bannaði Neytendastofa notkun Vodafone á orðinu fríkeypis „við kynningu á áskriftarleiðinni Vodafone Gull […] þar sem ávallt þurfi að greiða mánaðargjald fyrir þjónustuna. Vísaði stofnunin annars vegar til álits Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og til þess að rök Vodafone fyrir því að orðið hefði merkinguna kaupauki fengi ekki staðist.“ Ekki kemur fram hvað staðið hafi í áliti Árnastofnunar en af vísun til þess má ráða að stofnunin hafi talið að fríkeypis merkti 'án endurgjalds' eins og ég held að það sé alltaf skilið. Þau rök að orðið merki 'kaupauki' ganga gegn almennum málskilningi og bera þess merki að vera sett fram til þess eins að losa fyrirtækið úr þeirri klípu sem villandi auglýsing kom því í.

Orðið ókeypis er leitt með i-hljóðvarpi af stofninum kaup- í sögninni kaupa og nafnorðinu kaup, og neitunarforskeytinu ó- þar framan við og viðskeytinu -is aftan við. Það merkir 'sem ekki er keypt' (eða 'ekki þarf að kaupa'), sbr. fá ókeypis, en það getur einnig merkt 'sem ekki er greitt kaup fyrir', sbr. vinna ókeypis. Í báðum tilvikum má segja að neitunarmerking forskeytisins og grunnmerking stofnsins skili sér. Orðið frír merkir upphaflega 'frjáls, óheftur, laus og liðugur' samkvæmt Íslenskri orðsifjabók, en er nú oftast notað í sömu merkingu og ókeypis, í dæmum eins og frír aðgangur, frítt fæði o.s.frv. Sú merking er líklega runnin frá samböndum eins og frír við kostnað, frír við gjald, þ.e. 'laus við kostnað/gjald' o.þ.h., sbr. líka gjaldfrír.

Ég hef oft bent á að tungumálið er ekki alltaf „rökrétt“ – og þarf ekki að vera það. Hins vegar er ljóst að mörgum finnst eðlilegt að gera þá kröfu til nýrra orða að þau séu „rökrétt“, og það virðist í fljótu bragði eðlilegt að beita þeirri röksemd gegn fríkeypis sem lítur út eins og órökréttur samsláttur úr frí(tt) og ókeypis. En þótt orðið hafi örugglega orðið til við samslátt þýðir það ekki endilega að það sé rökleysa. Samkvæmt framansögðu má nefnilega vel halda því fram að fríkeypis sé rökrétt orð sem merki bókstaflega 'laus við kaup' – og sé því nokkurn veginn hliðstætt við ókeypis. Þetta þýðir ekki að ég sé að mæla sérstaklega með þessu orði – ég nota það ekki og finnst það óþarft. En ég sé samt ekki að sérstök málspjöll séu að því.