Er verið að úthýsa afa og ömmu?

Nú hafa Samtökin ´78 auglýst þriðju nýyrðasamkeppni sína, Hýryrði 2023, en fyrri keppnir voru haldnar 2015 og 2020. Þær skiluðu ýmsum nýjum nafnorðum eins og eikynhneigð, dulkynja, flæðigerva, kvár og stálp, auk þess sem orðið bur var endurvakið í nýrri merkingu. Fornafnið hán er hins vegar eldra, verður tíu ára á þessu ári. Meðal þeirra orða sem nú er leitað eftir tillögum að er kynhlutlaust nafnorð sem samsvarar amma og afi, svo og kynhlutlaust ábendingarfornafn sem samsvarar og . „Okkur í Samtökunum ´78 er umhugað um að geta talað um veruleika okkar á íslensku“ segir á heimasíðu samtakanna. „Við leitum því aftur til samfélagsins til að aðstoða okkur við að þróa tungumálið.“

Hugmyndir fólks um kyn, kynferði, kynhneigð og kynvitund eru aðrar nú en áður fyrr og mikilvægt að tungumálið endurspegli það eins og aðrar samfélagsbreytingar. „Á átta árum hefur ýmislegt breyst og nýjar aðstæður krefjast nýrra orða“ segir á heimasíðu Samtakanna ´78. Það ætti að vera öllum unnendum íslenskunnar fagnaðarefni að fólk skuli hafa einlægan áhuga á því að geta notað íslensku á öllum sviðum, þar á meðal þessu. En því er ekki að heilsa – þvert á móti. Samfélagsmiðlar og athugasemdakerfi hafa fyllst af fordómafullum og rætnum athugasemdum, rangtúlkunum, útúrsnúningi og misskilningi sem verður því miður ekki túlkað öðruvísi en sem birtingarmynd djúprættra fordóma gagnvart kynsegin fólki.

Meðal þess sem haldið er fram er að nýtt orð eigi að koma í staðinn fyrir orðin afi og amma, þannig að þeim ágætu orðum verði útrýmt úr málinu. Í frétt mbl.is af nýyrðasamkeppninni kemur þó skýrt fram að svo er ekki – þar segir: „Meðal þess sem leitað er eftir er nafnorð sambærilegt orðunum amma og afi sem hægt væri að nota um kynsegin fólk.“ En í athugasemdum við fréttina á Facebook og víðar á samfélagsmiðlum má þrátt fyrir það finna fjölda ummæla á við „Ég ætla sko að halda áfram að vera afi/amma“ eða eitthvað í þeim dúr. Auðvitað stendur ekki til að breyta því. Allir afar og allar ömmur geta verið það áfram. Nýja orðið sem leitað er að yrði eingöngu notað um þá fáu kynsegin einstaklinga sem eiga barnabörn.

Fólk má hafa þá skoðun mín vegna – eins og ég hafði til skamms tíma – að kynin séu aðeins tvö. En það er óskiljanlegt hvers vegna svo mikill æsingur verður yfir því að til standi að bæta nýju orði í málið. Það er ekki verið að hrófla við málkerfinu að neinu leyti og þetta orð á ekki að koma í stað orða sem fyrir eru og mun ekki skerða notkunarsvið þeirra nema að örlitlu leyti. Þau sem þekkja ekki til kynsegin fólks sem á barnabörn munu ekki þurfa að nota nýja orðið og ekki verður séð hvernig það ætti að trufla þau. Þau sem aftur á móti þekkja slíkt fólk vilja kannski – og vonandi – nota það orð sem fólkið vill sjálft að sé notað um sig. Á endanum snýst þetta ekki um tungumálið, heldur um það hvernig við viljum koma fram við annað fólk.