Að stíga til hliðar

Í tilefni af yfirlýsingu bankastjóra Íslandsbanka um daginn um að hún hefði ákveðið að „stíga til hliðar“ má rifja upp orð Víkverja í Morgunblaðinu 2017: „Hverjum datt upphaflega í hug að láta stjórnmálamenn „stíga til hliðar“? Ábyrgð hans eða hennar er mikil enda hafa þeir sem hætta afskiptum af pólitík ekki gert annað síðan, það er að segja annað en að „stíga til hliðar“. Það hættir ekki nokkur maður í pólitík lengur, nemur staðar, dregur sig í hlé, víkur sæti, lætur gott heita, hverfur til annarra starfa eða hvaðeina sem nota má til tilbreytingar eða í staðinn. Það „stíga allir til hliðar“. Menn stíga ekki einu sinni niður, sem væri strax tilbreyting, enda þótt Víkverji sé ekki allskostar hrifinn af því orðalagi. Til þess er það of enskulegt.“

Það er alveg rétt að í ensku er oftast notað orðalagið step down 'stíga niður', þótt step aside 'stíga til hliðar' sé einnig til. Elsta dæmi sem ég finn um stíga til hliðar í merkingunni 'láta af störfum' er í Morgunblaðinu 1981: „Hann og Joan, kona hans, gistu hjá Rosalynn og Jimmy Carter í Hvíta húsinu í nótt, en þau munu öll stíga til hliðar fyrir nýju forystumönnum þjóðarinnar í dag.“ Annað dæmi er úr sama blaði síðar sama ár: „Það eru ávallt bollaleggingar um það í Bretlandi, hvort drottningin, sem er 55 ára, muni stíga til hliðar fyrir Karli, sem nú er 32 ára.“ Þetta eru þýðingar eða endursagnir á fréttatextum á ensku og líklegt að í frumtextunum hafi staðið step aside. Í báðum dæmum er talað um að stíga til hliðar fyrir einhverjum.

En stundum merkir stíga til hliðar ekki 'láta af störfum', heldur 'víkja tímabundið', eins og í Morgunblaðinu 1972: „Á lokatónleikum Listahátíðarinnar gerðist nánast kraftaverk. Einar Vigfússon, sem um árabil hefur unnið gott starf sem fyrsti sellóleikari, sté til hliðar og fól fyrrverandi nemanda sínum, Hafliða Hallgrímssyni, að leika einleikshlutverkið í öðrum þætti Brahms píanókonsertsins.“ Sömu merkingu lagði Sigríður Andersen í orðasambandið eins og fram kom í frétt í Vísi 2019: „Sigríður sagði að persóna hennar kunni að trufla ákvarðanir sem þarf að taka í Landsréttarmálinu og í því ljósi hefur hún ákveðið að stíga til hliðar næstu vikurnar.“ Það er auðvitað óheppilegt að hægt sé að túlka sambandið á tvo vegu.

Það er athyglisvert að fjöldi dæma um orðalagið stíga til hliðar á tímarit.is margfaldast kringum hrun, á árunum 2008-2009 – eftir það eru yfirleitt kringum fimm sinnum fleiri dæmi á ári en voru fyrir hrun. Það er ekki gott að segja hvort það stafar af því að mun oftar sé sagt frá því að fólk láti af störfum en áður var, eða hvort notkun þessa orðalags á kostnað annarra hafi stóraukist – og þá af hverju. Þótt trúlegt sé að uppruna orðalagsins megi rekja til ensku er það í sjálfu sér ekki gild ástæða til að amast við því. Hins vegar er þetta auðvitað einhvers konar skrauthvörf – mildara en ýmislegt annað sem kæmi til greina. Það er samt engin ástæða til að láta þetta alltaf koma í stað beinskeyttara orðalags eins og t.d. segja af sér eða hrökklast frá.