Að heita í höfuðið á

Í dag var hringt í mig og ég spurður hvaða merkingu ég legði í samböndin heita í höfuðið á og skíra í höfuðið á. Ég sagði sem satt er að ég væri vanur að nota þetta bæði með vísun til fólks sem væri á lífi og látið, og teldi mig vera alinn upp við það. Ég segist heita í höfuðið á langafa mínum sem dó sjö árum áður en ég fæddist. Hins vegar sagðist ég vita að sumum fyndist rétt að gera mun á heita/skíra í höfuðið á og heita/skíra eftir, og vildu tala um að heita/skíra í höfuðið á lifandi fólki en heita/skíra eftir látnu fólki. Í Íslenskri orðabók er „láta barn heita í höfuðið á e-m“ skýrt 'gefa barni nafn e-s (einkum lifandi manns)'. Það eru samt greinilega fleiri en ég sem gera ekki þennan mun og nota í höfuðið á bæði um lifandi fólk og látið.

Í Skírni 1886 segir t.d.: „Hún dó eptir nokkra mánuði, og árið á eptir gekk hann að eiga […] Maríe Christine, og við henni hefir hann tvær dætur getið. Hin eldri heitir í höfuðið á fyrri konu hans.“ Hér fær dóttirin nafn í höfuðið á látinni konu. Í Heimskringlu 1891 segir: „Þau hjón höfðu látið heita í höfuðið á Ljósvetningagoðanum, en hann vildi eigi lifa.“ Þarna er barni á 19. öld gefið nafn í höfuðið á sögualdarmanni. Í Þjóðólfi 1911 segir: „»Forseta«fjelagið fær líka einn nýjan, sem á að heita í höfuðið á Skúla fógeta.“ Hér er togara gefið nafn í höfuðið á löngu látnum manni. Í Morgunblaðinu 1980 segir: „Tvær af verksmiðjum Sambands íslenskra samvinnufélaga á Akureyri heita Gefjun og Iðunn í höfuðið á fornum gyðjum.“

En í höfuðið á er líka notað um annað en fólk og sýnir að í huga margra merkir í höfuðið á X einfaldlega 'gefa sama nafn og X' eða 'með nafn X að fyrirmynd'. Þannig segir í Ísafold 1913: „Eldvarpið, sem við sáum, höfum við skýrt Eldgeysi í höfuðið á gamla Geysi.“ Í Lögbergi 1914 segir: „Þeir tilbáðu ekki sólina lengur, en þeir skýrðu fyrsta daginn í vikunni og létu hann heita í höfuðið á sólinni.“ Í Morgunblaðinu 1917 segir: „Er skírt í höfuðið á fossi þeim í Lagarfljóti, sem er rétt hjá Kirkjubæ.“ Í Fréttum 1918 segir: „Hún á nú fjórtán daga afmæli í dag, og köllum við hana ýmsum nöfnum, en eitt þeirra er »Mary Ann« –»í höfuðið« á gamalli skútu.“ Í Tímanum 1920 segir: „Róma, hjartasmyrsl hans, heitin í höfuðið á hans elskuðu borg!“

En þótt í höfuðið á vísi virðist vísa jöfnum höndum til lifandi og látins fólks er svo að sjá sem heita/skíra eftir vísi langoftast til látins fólks. Frá því eru þó undantekningar. Þannig segir í Tímanum 1960: „Hinn ungi Kennedy mun verða skírður eftir föður sínum og nefndur John.“ Í Fálkanum 1961 segir: „Það gerist nú æ tíðara í Bandaríkjunum að vörur séu skírðar eftir frægum kvikmyndastjörnum.“ Rétt eins og með sambandið heita/skíra í höfuðið á er heita/skíra eftir oft notað um annað en fólk. Í Lögbergi 1915 segir: „Florence Nightingale var fædd í Florence á Ítalíu og látin heita eftir borginni.“ Í Fréttum 1916 segir: „eru þar myndir af skipum félagsins og fossunum, sem þeir heita eftir.“ Um þetta eru ótal dæmi frá ýmsum tímum.

Í Dagsbrún 1915 segir: „Það virðist ekki bráðnauðsynlegt að láta drenginn heita í höfuðið á honum afa sínum, ef hann heitir Jón, Jónas eða Jónatan, eða láta telpuna heita eftir ömmu sinni, ef hún heitir Elísabet, Kristjana eða Jóhanna, þó ekkert af þessum nöfnum geti kallast ljótt.“ Hér er greinilegt að heita í höfuðið á og heita eftir er lagt að jöfnu, því að varla er gert ráð fyrir að afinn sé jafnan á lífi en amman látin. Það er auðvitað ekkert að því að þau sem hafa alist upp við þennan mun, eða tileinkað sér hann, haldi áfram að gera hann. En það er ekki heldur neitt að því að nota heita/skíra í höfuðið á í vísun til jafnt lifandi og látins fólks – fyrir því er löng hefð. Að minnsta kosti ætla ég að halda áfram að segjast heita í höfuðið á Eiríki langafa mínum.