Eflum jákvæða umræðu
Undanfarið hafa oft verið settar inn í Málspjallshópinn myndir sem sýna enskunotkun í almannarými – verslunum, veitingastöðum og víðar. Vegna fjölda ferðafólks og fólks af erlendum uppruna sem býr hér en skilur ekki íslensku til fulls er vissulega ástæða til að hafa ýmislegt af þessu tagi á ensku. En ekki bara á ensku – það er eins og stundum gleymist að hér býr líka fólk sem á íslensku að móðurmáli og á auðveldast með að tjá sig á henni. Sumt af því fólki kann ekki einu sinni ensku sér til gagns. Þess vegna er grundvallaratriði að texti í almannarými sé líka á íslensku – og helst að íslenskan sé á undan enskunni. Það truflar ekki fólk sem ekki kann íslensku þótt hún sé höfð með. Texti sem er eingöngu á ensku truflar hins vegar margt íslenskumælandi fólk.
Það er ekkert óeðlilegt að hneykslast yfir því þegar gengið er fram hjá íslenskunni, en myndbirtingar af þessu tagi þjóna fyrst og fremst þeim tilgangi að koma hneykslun okkar á framfæri. Það er andstætt tilgangi þessa hóps sem er að styrkja íslenskuna með jákvæðri og uppbyggilegri umræðu. Þessar myndbirtingar geta því aðeins gert gagn að þau sem bera ábyrgð á þeirri enskunotkun sem vísað er til frétti af þeim og þess vegna má ekki láta myndirnar duga, heldur þarf einnig að skrifa viðkomandi. Það hef ég oft gert og stundum haft erindi sem erfiði. Um leið er sjálfsagt að birta slík skrif hér í hópnum – fjölmiðlar taka þau stundum upp og það skapar meiri þrýsting. En stillið myndbirtingum í hóf – skrifið frekar þeim sem ábyrgð bera.