Kynjahlutföll nafnorða í íslensku að fornu og nýju
Fyrir tæpum fjórum árum svaraði ég eftirfarandi spurningu á Vísindavefnum: „Hver eru kynjahlutföll orða í íslensku? Þ.e.a.s. hversu hátt hlutfall orða er í karlkyni, kvenkyni og hvorugkyni? […] Hefur þetta breyst í gegnum tíðina? […]“ Að gefnu tilefni birti ég hér hluta af svari mínu, nokkuð aukinn og breyttan. En í upphafi er rétt að leggja áherslu á að spurningu um kynjahlutföll má skilja á tvo vegu. Annars vegar getur verið átt við fjölda mismunandi orða í hverju kyni sem til eru í málinu (flettiorð), en hins vegar getur verið átt við hlutfall dæma um orð af hverju kyni í texta (lesmálsorð). Tölur um hið fyrrnefnda liggja ekki fyrir en trúlegt er að kynjahlutföllin séu svipuð þar og í flettiorðunum þótt það þyrfti að kanna nánar.
Spurningu um hlutfall dæma af hverju kyni í texta má svara með vísun til Risamálheildarinnar sem er textasafn úr íslensku nútímamáli og hefur að geyma u.þ.b. 2,7 milljarða lesmálsorða. Þar er hlutfall dæma um karlkynsorð tæp 34% af heildinni, dæmi um kvenkynsorð tæp 32%, og dæmi um hvorugkynsorð rúm 34%. Í Íslenskri orðtíðnibók frá 1991 eru hlutföllin svipuð – karlkyn tæp 35%, kvenkyn tæp 33%, hvorugkyn rúm 32%. Þessar tölur miðast við samnöfn en sérnöfnum er sleppt. Séu þau tekin með hækkar hlutfall karlkynsorða í Risamálheildinni upp í tæp 37%, einkum á kostnað hvorugkynsorða. Þetta sýnir vel hvað karlmannsnöfn eru áberandi í textunum og það gerir þá karllæga – ekki fjöldi eða hlutfall karlkynsorða út af fyrir sig.
Í fornu máli eru hlutföllin talsvert ólík. Í safni sem hefur að geyma Íslendingasögur, Sturlungu, Heimskringlu og Landnámabók eru tæplega 1700 þúsund orð. Þar er hlutfall dæma um karlkynsorð rúm 60%, dæmi um kvenkynsorð eru tæp 19%, og dæmi um hvorugkynsorð rúm 21%. Þessir fornu textar eru frásagnartextar sem segja fyrst og fremst frá karlmönnum, athöfnum þeirra og afrekum. Sérnöfn eru því miklu hærra hlutfall textans en í nútímatextunum, og flest þeirra eru karlmannsnöfn – rétt tæpur helmingur allra karlkynsnafnorða í þeim eru sérnöfn en aðeins tæpur fjórðungur kvenkynsnafnorðanna og innan við 10% hvorugkynsnafnorða. Ef sérnöfnin eru dregin frá lækkar hlutfall karlkynsorða niður í rúm 47%.
Eftir standa samt ýmiss konar „starfsheiti“ karlmannanna, s.s. konungur, jarl, bóndi, og ýmis frændsemisorð sem mun oftar vísa til karlmanna – sonur, bróðir, frændi o.fl. Ekki er hægt að átta sig á fjölda slíkra orða í fljótu bragði, en ef þau væru dregin frá er ég ekki viss um að hlutfall dæma um karlkynsorð væri miklu hærra í fornum textum en í nútímamáli. En hvað sem því líður sýna þessar tölur tvennt. Annars vegar að ótrúlega mikið jafnræði ríkir í málinu milli málfræðikynjanna þriggja – hlutfall hvers um sig er u.þ.b. þriðjungur af heildinni. Það er mikilvægt fyrir stöðugleik málsins. Hins vegar sýnir þetta að meint karllægni málsins kemur ekki fram í því að karlkyns samnöfn séu yfirgnæfandi, þótt öðru máli gegni um karlmannsnöfn.