Óheiðarleiki

Snorri Másson vænir mig um óheiðarleik í viðbrögðum mínum við viðtali sem hann og bróðir hans áttu við Heiðar Guðjónsson um daginn, þar sem ég sagði að málflutningur Heiðars væri „útlendingaandúð undir formerkjum málverndar“. Snorri segir: „Ég veit að Ei­rík­ur er mjög menntaður maður og mjög van­ur því að lesa texta. Þannig að ég hugsa bara: Er þetta heiðarlegt mat hans að það sé út­lend­inga­andúð í því að benda á þetta?“ Þarna er verið að gefa í skyn að ég tali gegn betri vitund, og Snorri svarar sér svo sjálfur með því að segja „Mér finnst þetta bara óheiðarlegt“. Mér er fyrirmunað að skilja hvernig hann fær það út.

Reyndar er endursögn Snorra á viðtalinu við Heiðar býsna ónákvæm. „Hann er bara að velta þessu upp. Þetta eru breytingar sem eru að verða. Hvað finnst okkur um það, er hann að segja.“ Því fer auðvitað fjarri að Heiðar sé bara að velta því upp, svona alveg hlutlaust, hvað okkur finnist um þróunina. Það er alveg augljóst að hann er að tala mjög ákveðið gegn þeirri þróun sem um ræðir. Og Snorri segir líka: „Heiðar talar aldrei um útlendingana. Hann er ekkert að tala um þá, þeirra eiginleika eða þeirra menningu eða neitt þannig.“ Jú, hann talar t.d. um „hvernig þetta fjölmenningarsamfélag mun hafa áhrif á okkar samfélag og breyta því varanlega og hugsanlega óafturkræft“.

„Snorri sagði Ei­rík hafa bar­ist öt­ul­lega fyr­ir ís­lenskri tungu í gegn­um tíðina en að hann hafi til­tekn­ar hug­mynd­ir um það hvernig það skuli gert.“ Þetta er alveg rétt. Ég hef ákveðnar hugmyndir um hvernig eigi að berjast fyrir íslenskunni. Þær felast í því að það skuli gert með jákvæðni, umburðarlyndi og virðingu fyrir fólki að leiðarljósi, en ekki með leiðréttingum, umvöndunum, yfirlæti og þjóðrembu. Og Snorri bætir við: „Hann er mikið að passa tón­inn hjá öðrum. Hann er kannski efn­is­lega sam­mála fólki en mikið að passa tón­inn.“ Það má ekki gerast að eðlileg umhyggja fyrir íslenskunni, og áhyggjur af stöðu hennar, snúist upp í andúð gegn útlendingum og ég hef iðulega lagt áherslu á það. Ef þetta er það sem átt er við þegar sagt er að ég sé „að passa tóninn“ skammast ég mín ekkert fyrir það.

Með því að tala um „útlendingaandúð undir formerkjum málverndar“ var ég að lýsa þeirri tilfinningu sem ég fékk við lestur viðtalsins og byggði á ýmsum atriðum í orðalagi og framsetningu. Af viðbrögðum við færslu minni að dæma var ég ekki einn um þá tilfinningu, en vissulega kom líka fram að ýmsum fannst þetta ekki rétt. Ég geri enga athugasemd við það – það er ekkert óeðlilegt við að fólk túlki texta á mismunandi hátt og ég geri enga kröfu til þess að mín túlkun sé talin réttari en aðrar, og það má alveg reyna að sannfæra mig um að ég hafi rangt fyrir mér. Ég ætlast hins vegar til þess að því sé trúað að það sem ég segi sé einlæg tilfinning mín en ekki sett fram gegn betri vitund af einhverjum annarlegum hvötum. Það finnst mér óheiðarleg ásökun.

Það er auðvitað oft álitamál hvort – og þá hvernig og hvenær– eigi að segja skoðun sína á tilteknu umræðuefni. Það getur verið ósmekklegt, óskynsamlegt, óþægilegt, óviðeigandi, ómálefnalegt, óviðurkvæmilegt, ómerkilegt og ó- allt mögulegt. En það getur fjandakornið ekki verið óheiðarlegt.