Knattspyrnumaðurinn Sara Björk – eða hvað?

Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið knattspyrnumaður skýrt 'maður sem æfir og keppir í fótbolta, fótboltamaður'. Vandinn er sá að ekki kemur fram til hvaða merkingar orðsins maður er verið að vísa, en tvær koma til greina: 'karl eða kona, manneskja' og 'karlmaður'. Í ljósi þess að orðið knattspyrnukona er einnig flettiorð í orðabókinni og skýrt 'kona sem æfir og keppir í knattspyrnu, fótboltakona' mætti e.t.v. búast við að merkingin 'karlmaður' ætti þarna frekar við. Orðin fótboltamaður og fótboltakona eru einnig í orðabókinni og skýrð á hliðstæðan hátt. En hvaða merkingu leggja málnotendur í orðin knattspyrnumaður og fótboltamaður? Eru þau notuð jafnt um karla og konur? Hvað segir notkun þeirra í textum um merkinguna í huga fólks?

Til að átta mig á notkun orðanna skoðaði ég dæmi í Risamálheildinni þar sem lýsingarorð sem vísar til þjóðernis stendur á undan orðinu knattspyrnumaðurinn (í öllum föllum og báðum tölum) og þar á eftir kemur sérnafn – dæmi eins og íslenski knattspyrnumaðurinn Eiður. Leit samkvæmt þessu mynstri skilar 4.921 dæmi og eftir því sem ég fæ best séð vísa þau öll til karla. Dæmin um fótboltamaður í þessu mynstri eru margfalt færri, aðeins 240, og vísa einnig öll til karla. Um knattspyrnukona eru 306 dæmi í þessu mynstri og 30 um fótboltakona. Það er því aðeins vísað til kvenna í rúmlega 6% af heildarfjölda dæma um þessi orð í umræddu mynstri, sem sýnir kynjahallann í knattspyrnuumfjöllun íslenskra fjölmiðla undanfarin 20 ár.

Í stað knattspyrnumaður og fótboltamaður er hægt að grípa til samsvarandi orða sem enda á -kona, knattspyrnukona og fótboltakona – þau orð eiga sér hálfrar aldar hefð í málinu. En hvað á að gera þegar ekki er neitt val – þegar ekki er hefð fyrir orði sem endar á -kona í stað orðs sem endar á -maður? Á þetta reynir t.d. í orðum sem vísa til stöðu eða hlutverks á vellinum eins og varnarmaður, miðjumaður og sóknarmaður því að orðin varnarkona, miðjukona og sóknarkona eru sárasjaldgæf (í þessari merkingu). Ekkert þeirra er að finna í orðabókum, og á tímarit.is eru aðeins fjögur dæmi um varnarkona, ekkert um miðjukona og þrjú um sóknarkona. Í Risamálheildinni eru 12 dæmi um varnarkona, 14 um miðjukona og 47 um sóknarkona.

Þegar leitað er eftir sama mynstri og áður kemur í ljós að dæmi um sóknarkona, eins og danska sóknarkonan Pernille, eru fjögur, en 15 dæmi (af 4.996) eru um að sóknarmaður vísi til konu, eins og franski sóknarmaðurinn Marie. Dæmi um miðjukona eru tvö, en 24 dæmi (af 8.304) eru um að miðjumaður vísi til konu. Eitt dæmi er um varnarkona í þessu mynstri, en 29 dæmi (af 6.050) eru um að varnarmaður vísi til konu. Þótt þarna komi vissulega fram að orðin sóknarmaður, miðjumaður og varnarmaður geta vísað til kvenna er það ákaflega sjaldgæft. Samanlagður dæmafjöldi um vísun til konu með sóknarmaður og sóknarkona er aðeins 0,4% af heildarfjölda dæma um þessi tvö orð. Fyrir hin orðin eru tölurnar 0,3% og 0,5%.

Þetta eru ákaflega athyglisverðar niðurstöður. Að óreyndu hefði mátt búast við að hlutfall dæma þar sem vísað er til kvenna út frá stöðu og hlutverki á vellinum með orðunum sóknarmaður/-kona, miðjumaður/-kona og varnarmaður/-kona væri svipað og hlutfall dæma þar sem orðin knattspyrnumaður/-kona og fótboltamaður/-kona eru notuð til að vísa til kvenna sem spila fótbolta, þ.e. rúm 6% eins og fram kemur hér að ofan. En þessar tölur sýna að því fer fjarri – hlutfall dæma þar sem vísað er til kvenna með síðarnefndu orðunum er tíu til tuttugu sinnum hærra en hlutfall dæma þar sem vísað er til þeirra með þeim fyrrnefndu. Hvernig stendur á því að margfalt sjaldgæfara er að nota stöðu eða hlutverk á vellinum í vísun til kvenna en karla?

Mér sýnist eina eðlilega skýringin vera sú að ekki séu til nein orð sem málnotendur eru sáttir við að nota í þessum tilgangi. Lítil hefð er fyrir orðunum sóknarkona, miðjukona og varnarkona og (margir) málnotendur forðast (væntanlega óafvitandi) að nota orð sem enda á -maður í vísun til kvenna þótt það sé einstöku sinnum gert í þessum tilvikum vegna þess að skárri kostur er ekki fyrir hendi. Niðurstaðan er sem sé sú að vegna tregðu málnotenda til að vísa til kvenna með -maður er miklu sjaldnar vísað til stöðu þeirra og hlutverks á vellinum en gert er hjá körlum. Þetta er mjög áhugavert dæmi um það hvernig margræðni orðsins maður flækist oft fyrir okkur og takmarkar í vissum skilningi tjáningu okkar.