Erlend áhrif koma ekki bara frá útlendingum sem hér búa
Í endursögn mbl.is á hlaðvarpsviðtali við Kára Stefánsson kemur fram sú skoðun hans að Heiðar Guðjónsson „meini ekkert illt“ í nýlegu viðtali sem ég taldi – og var ekki einn um það – að bæri vott um útlendingaandúð. Það var og er skoðun mín. Hún kann að vera röng, en það var ekki og getur ekki verið óheiðarlegt að setja hana fram. Það getur hafa verið ósmekklegt, óskynsamlegt, óþægilegt, óviðeigandi, ómálefnalegt, óviðurkvæmilegt, ómerkilegt og ó- allt mögulegt – en ekki óheiðarlegt. En nóg um það. Meginatriðið er að Kári hefur alveg rétt fyrir sér um það að Heiðari hafi sést yfir að sá þrýstingur sem nú er á íslenskuna stafar ekki nema að hluta til af fjölda útlendinga á Íslandi, heldur einnig og ekki síður af áhrifum stafrænna miðla og tækni.
Kári segir: „Við lifum að mjög stórum hluta til í netheimum þar sem menn tala að mestu leyti á ensku og við einangrum okkur ekkert uppi á Íslandi. Við verðum á Íslandi fyrir gífurlegum áhrifum og líklega meiri áhrifum af útlendingum í gegnum netið heldur en þeim fáu sem búa á Íslandi.“ Þetta er grundvallaratriði – nauðsynlegt er að átta sig á að erlend áhrif á íslensku eru af tvennum toga. Ég hef margoft skrifað um að bæði þjóðfélagsbreytingar og tæknibreytingar setji íslenskuna í vanda, og ensk áhrif gegnum stafræna miðla voru meginástæðan fyrir því að við Sigríður Sigurjónsdóttir og fleiri stóðum fyrir viðamiklu rannsóknarverkefni undir heitinu „Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis“ á árunum 2016-2019.
Þess vegna losnum við ekkert við erlend áhrif þótt við takmörkum fjölda útlendinga – væntanlega dettur engum í hug að loka netinu. Það má deila um hvort netið eða fjöldi fólks sem ekki talar íslensku sé meiri uppspretta erlendra áhrifa, en óumdeilanlegt er að stafrænir miðlar– netið, snjalltæki, efnis- og streymisveitur, tölvuleikir o.fl. – hafa gífurleg áhrif og eru að því leyti varhugaverðari að þeir ná mun meira til barna á máltökuskeiði, þegar málkerfi þeirra er í mótun og mjög viðkvæmt. Ég held að takmörkun á notkun barna á stafrænum miðlum og tækni yrði áhrifaríkari verndaraðgerð fyrir íslenskuna en takmörkun á fjölda útlendinga í landinu. En það er auðvitað vænlegra til árangurs í pólitík að beina áherslunni að útlendingunum.
Kári segir líka: „En ég er hins vegar mjög opinn fyrir því að við látum okkar daglega líf vera tvítyngt. Það er að segja, við notum íslensku þar sem það á við og notum ensku, nútímaesperantó, þar sem hún á við.“ Þannig er staðan auðvitað nú þegar, hvort sem okkur líkar betur eða verr – og engar líkur til annars en hún verði þannig áfram. En Kári bætir við: „En maður verður samt að draga einhvers staðar víglínu. Mér finnst sjálfsagt að draga víglínu.“ Þetta er hárrétt og ég hef oft skrifað um þetta – kallað eftir því að staða ensku í íslensku málsamfélagi sé viðurkennd og tekin til alvarlegrar umræðu, einmitt með það í huga að marka enskunni bás, draga þessa víglínu. Það er gífurlega mikilvægt að stjórnvöld móti stefnu í þessu máli.