Að klessa á

Í dag var hér spurt um notkun sagnarinnar klessa í sambandi við árekstra. Þessi sögn og samhljóða nafnorð hafa lengi verið notuð um það að skemma bíla við akstur. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sambandið keyra bílinn í klessu skýrt 'eyðileggja bílinn í árekstri' en sögnin klessa er m.a. skýrð 'keyra (bíl) þannig að sýnileg skemmd hljótist af'. Í Íslenskri orðabók er sögnin skýrð á svipaðan hátt en bætt við annarri merkingu – 'ónýta bíl við árekstur, klessukeyra'. Þessi skýring er merkt „gam.“ sem merkir „gamallegt mál eða gamaldags, þó ekki horfið úr nútímamáli“. Samkvæmt þessu mætti ætla að sögnin hafi áður vísað til eyðileggingar en vísi nú til skemmda. Erfitt er þó að átta sig á merkingunni í einstökum dæmum.

Elsta dæmi sem ég finn um nafnorðið klessa í þessari merkingu er í Þjóðviljanum 1945: „Það er þá ekki hundrað í hættunni, þó hann keyri í klessu.“ Í Vikunni 1946 segir í myndatexta: „Bíllinn sá arna ók á staur og fór í klessu.“ Í sögninni klessa virðist þessi merking aðeins yngri. Í Vísi 1950 segir: „Það er þó skárra, að þrengja svolítið að fótgangandi fólki á stéttunum, en eiga á hættu, að einhver klaufi „klessi“ bílinn, meðan maður víkur sér frá.“ Þarna er klessa innan gæsalappa sem bendir til þess að þarna sé um að ræða nýjung sem ekki sé fyllilega viðurkennd. Einnig er til sögnin klessukeyra sem áður var nefnd. Elsta dæmi um hana er í Þjóðviljanum 1960: „Verst er, ef frúin er ekki góður ökumaður og álpast til að klessukeyra bílinn.“

Nafnorðið klessa er skýrt 'lítil, klísturkennd þúst' í Íslenskri nútímamálsorðabók en 'sletta' eða 'ólöguleg hrúga' í Íslenskri orðabók, og notkunardæmi við síðarnefndu merkinguna er bíllinn fór í klessu við áreksturinn. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að orðið klessa sé notað um bíl sem aflagast verulega og eyðileggst, og hliðstæð merking sagnarinnar klessa er svo líklega leidd af þessari notkun nafnorðins frekar en af öðrum merkingum sagnarinnar. Slík afleiðsla rímar líka við það að þessi merking virðist vera eitthvað yngri í sögninni en í nafnorðinu eins og áður segir. Lýsingarorðið klesstur er einnig notað í þessari merkingu: „Fordbifreiðin var mikið klesst hægra megin að framan“ segir í Morgunblaðinu 1960. En svo bættist við sambandið klessa á.

Elsta dæmi sem ég finn um það er í Morgunblaðinu 1972: „En munurinn er bara sá, að þegar þessi stóru börn, sem kallast ökumenn „klessa“ á, þá eru þeir ekki eins borubrattir og þegar þeir ösla vegina á 100.“ Þarna er klessa innan gæsalappa sem bendir til þess að þetta sé nýjung. Í spurningaleik í Vikunni 1981 er spurningin: „Þegar talað er um að „klessa á“ er í nútímamáli átt við:“ og svarmöguleikarnir eru „Árekstur“, „Kökuboð“ og „Faðmlög“. Þarna er augljóslega ekki gert ráð fyrir því að sambandið sé á allra vörum. En tíðnin jókst upp úr þessu, einkum eftir aldamót, og í Risamálheildinni eru um 2500 dæmi um það. Oftast er það notað um bíla, en einnig um fólk – „Stína tók ekki eftir pabba sínum og hún klessti á hann“ segir í DV 1988.

Það er nokkuð ljóst að sambandið klessa á er orðið til fyrir áhrif frá öðrum samböndum svipaðrar merkingar – aka á, keyra á og rekast á. Sambandið er merkt „óforml.“ í Íslenskri orðabók og hugnast ekki öllum. Þannig segir í DV 1987: „Nú er ég málverndunarmaður í mér og sl. mánudag var í blaðinu talað um að bílar klessi á vegg einn í Eyjum. Það er hægt tala um að klessa málningu á vegg en bílar aka á og við það fara þeir í klessu. Þetta er hvimleitt orðatiltæki og vildi ég einungis benda á að þetta hefði mátt fara betur.“ Þetta er auðvitað smekksatriði en því fer fjarri að sambandið klessa á sé að útrýma öðrum samböndum sömu merkingar. Það hefur fyrir löngu unnið sér hefð – auðgar íslenskuna og hlýtur að teljast rétt mál.