Hvað merkir ljá máls á?

Í frétt í nýjasta tölublaði Heimildarinnar rakst ég á setninguna „Það var við matarborðið daginn sem stúlkan kom heim úr sumarbúðunum sem hún ljáði máls á því sem þar var sagt við hana um samkynhneigð.“ Þarna er merking sambandsins ljá máls á greinilega ekki sú sem ég er vanur, 'telja koma til greina' eða 'taka í mál' eins og það er skýrt í Íslenskri orðabók. Í þessu dæmi er merkingin augljóslega 'vekja máls á, nefna' eins og ég hef svo sem séð áður, og það samrýmist skýringunni 'minnast á' í Íslenskri nútímamálsorðabók, með notkunardæminu hún léði máls á mikilvægu efni. Í Íslensk danskri orðabók frá 1920-1924 er svo enn ein skýring: 'give Lejlighed til at omtale noget', þ.e. 'gefa færi á að ræða eitthvað' eða 'taka til umræðu'.

Í Ritmálssafni Árnastofnunar er eitt dæmi frá 18. öld um ljá máls á en elsta dæmi á tímarit.is er í Fjallkonunni 1890: „Þegar ég léðist máls á því, að vera skipaðr leiðsögumaðr skipa héðan af Akranesi til Borgarness.“ Þarna er merkingin augljóslega 'taka í mál' og sama máli gegnir að því er virðist um öll eldri dæmi um sambandið. Hins vegar er oft erfitt að skera úr um merkinguna. Ef ég segi ég léði máls á því að taka verkið að mér gæti það merkt hvort heldur 'ég sagði koma til mála að ég tæki verkið að mér' eða 'ég vakti máls á / stakk upp á því að ég tæki verkið að mér' en seinni skilningurinn er háður því að sá möguleiki að ég tæki verkið að mér hafi ekki verið í umræðunni. Úr þessu er ekki alltaf auðvelt að skera út frá samhengi.

Í Morgunblaðinu 1980 segir: „Þá hefur Gerald Ford fyrrum forseti upplýst, að Haig hafi fyrstur ljáð máls á því að Nixon yrði náðaður.“ Þarna gæti merkingin í fljótu bragði virst vera 'tekið í mál'. En þegar fréttin er lesin kemur í ljós að Haig var hliðhollur Nixon og merkingin hlýtur því að vera 'vakið máls á, stungið upp á'. Í DV 1992 segir: „Bush Bandaríkjaforseti ljáði máls á því í síðustu viku að Rússland fengi að vera með í hópi hinna sjö helstu iðnríkja en hin löndin hafa tekið misjafnlega í þá hugmynd.“ Þarna gæti merkingin verið 'tók í mál, taldi koma til greina' ef þetta hefði verið rætt áður, en framhaldið bendir til þess að svo hafi ekki verið heldur hafi hugmynd Bush verið nýstárleg og merkingin því 'stakk upp á'.

Elsta örugga og ótvíræða dæmi sem ég hef fundið um merkinguna 'vekja máls á' er í lesendabréfi í Morgunblaðinu 1980: „Í tilefni „árs trésins“ lét ég þetta frá mér fara í þeirri von að Velvakandi ljái máls á þessu.“ Þessi merking er því a.m.k. komin til fyrir meira en 40 árum – en getur vel verið miklu eldri vegna tvíræðni margra dæma. Ótvíræð dæmi eru þó sjaldgæf fram um aldamót en bregður fyrir – í Þjóðviljanum 1990 segir t.d.: „Ég vil ljá máls á því að það væri móðgun við félagsmenn að fara fram á að gefa eftir samninginn.“ Um aldamót fer dæmum fjölgandi – í Morgunblaðinu 2000 segir t.d.: „Fljótlega fóru menn þó að ljá máls á því að skemmtilegt gæti verið að lengja hátíðina.“ Á síðustu árum er þessi merking orðin mjög algeng.

Þarna eru í raun komnar þrjár merkingar sambandsins ljá máls á – 'taka í mál' eins og í Íslenskri orðabók, 'vekja máls á' eða 'minnast á', eins og í Íslenskri nútímamálsorðabók, og 'stinga upp á' sem er vissulega skylt en þó svolítið annað. Fjórðu merkinguna má e.t.v. finna í setningu um Jóhönnu Sigurðardóttur í DV 2010: „Hún hefur aldrei ljáð máls á samkynhneigð og hefur því ekki orðið þessi táknmynd samkynhneigðra á alþjóðavettvangi sem margir óskuðu sér.“ Það er hugsanlegt að segja að sambandið hafi þarna merkinguna 'minnast á' en eiginlega liggur beinna við að segja að það merki þarna 'gefa færi á að ræða' eins og í Íslensk-danskri orðabók. Aðalskilin eru þó milli fyrstnefndu merkingarinnar og hinna þriggja.

Vitanlega er það ekkert einsdæmi að orð og orðasambönd hafi fleiri en eina merkingu, en oftast er það þá þannig að samhengið sker ótvírætt úr um það hver sé réttur skilningur hverju sinni. Svo er ekki í þessu tilviki og því er óheppilegt og getur valdið misskilningi að sambandið ljá máls á skuli vera notað í mismunandi merkingu. Það er hins vegar erfitt að gera nokkuð í því. Vissulega er merkingin 'taka í mál' upphafleg (þótt skýringin í hinni aldargömlu Íslensk-danskri orðabók sé reyndar önnur) og ennþá langalgengust, en tæplega er hægt að hafna merkingunni 'minnast á' sem er algenga og á sér langa sögu eins og hér hefur komið fram og staðfestist í Íslenskri nútímamálsorðabók. Við verðum líklega bara að búa við þessa tvíræðni.