Breytingar á sagnbeygingu
Í gær sá ég hneykslast á því í Málvöndunarþættinum að í Krakkafréttum Ríkisútvarpsins hefði verið sagt „Starfsmenn dýragarðsins útbjóu ýmsar kræsingar handa pöndunum“, og í fyrradag var á sama vettvangi vísað í að í fréttum Ríkisútvarpsins hefði verið sagt „Tveir jarðskjálftar yfir þremur að stærð skuku Reykjanesskaga í morgun“. Þarna eru það myndirnar útbjóu og skuku sem verið er að gera athugasemdir við – venjulegar og viðurkenndar beygingarmyndir eru útbjuggu og skóku og sú mynd var reyndar mjög fljótlega sett í fréttina í stað skuku. Þótt engin ástæða sé til að ætla að myndirnar útbjóu og skuku séu útbreiddar, og þær hljóti (enn sem komið er) að teljast rangt mál, er ómaksins vert að velta því fyrir sér hvernig þær koma til.
Langflestar sagnir málsins eru veikar, mynda þátíð með sérstakri endingu sem er ýmist -ði, -di eða -ti eftir gerð stofnsins (tala – talaði, dæma – dæmdi, missa – missti). En (út)búa og skaka eru hins vegar sterkar sagnir, sem merkir að þær mynda þátíð með sérhljóðabreytingum, svokölluðum hljóðskiptum – oftast breytast reyndar einhver samhljóð líka. Sterkar sagnir eru ekki nema eitthvað á annað hundrað, sumar sjaldgæfar en margar meðal algengustu sagna málsins, svo sem vera, ganga, koma, fara, geta o.s.frv. Tíðnin verður þeim til lífs – börn á máltökuskeiði heyra ýmsar myndir þeirra snemma og læra þær. Sumar þeirra eiga beyginguna sameiginlega með nokkrum öðrum sem auðveldar börnunum námið, en aðrar eru einar á báti.
Vegna óregluleikans þurfum við að læra fleiri beygingarmyndir sterkra sagna en veikra. Í veiku sögnunum nægir oftast að læra nafnháttinn og af honum er hægt að leiða aðrar myndir með almennum reglum. Það er alkunna að börn á máltökuskeiði beita iðulega þessum almennu reglum á sterkar sagnir áður en þau læra beygingu þeirra – segja t.d. bítti eða bítaði í stað beit, gefði í stað gaf, leikaði í stað lék, hlæði í stað hló, takti í stað tók o.s.frv. Þetta er fullkomlega eðlilegt stig í máltökunni og ástæðulaust að gera sér rellu út af því – börnin læra hefðbundna beygingu þessara sagna venjulega smátt og smátt án þess að vera leiðrétt. En stöku sinnum getur þó brugðið út af því og óhefðbundnar en reglulega myndaðar beygingarmyndir lifað áfram.
Þannig hefur það væntanlega orsakast að sumar sagnir sem voru sterkar í fornu máli hafa orðið veikar – beygjast reglulega. Sögnin hjálpa var t.d. halp í þátíð í fornu máli en er nú hjálpaði, bjarga var barg en er nú bjargaði, fela var fal en er nú faldi, blanda var blett en er nú blandaði, blóta var blét en er nú blótaði. Sumar sagnir hafa fengið veika beygingu en sú sterka lifir enn, oft í annarri eða þrengri merkingu – snerta var snart í þátíð en er nú líka snerti, verpa var varp en er nú líka verpti, flá var fló en er nú líka fláði. Sumar sagnir hafa lagt af stað í átt til veikrar beygingar en eru ekki komnar alla leið, eins og ala(st) sem ég skrifaði um nýlega sem er ól(st) í þátíð en nú stundum aldi(st), og nema sem er venjulega nam í þátíð en numdi bregður fyrir.
Þátíðarmyndir búa í eintölu byrja allar á bjó- en fleirtölumyndirnar eru gerólíkar og byrja allar á bjugg- – aðeins fyrsta hljóðið, b, er sameiginlegt. Það er ekkert undarlegt að eintalan hafi þarna áhrif á fleirtöluna – elsta dæmi um myndina bjóu er frá því snemma á 19. öld og örfá dæmi eru um hana á tímarit.is. Jón Helgason prófessor sagði í Fróni 1944: „Og þegar höfuðskáld eins og Einar Benediktsson segir […] bjóu fyrir bjuggu (Langspilið), af því að ríms er þörf við dóu, þá sé ég ekki að höfð verði vægari orð en að hér sé farið langt út fyrir takmörk hins leyfilega.“ Einar hefði samt varla notað þessa mynd nema hann hefði þekkt hana. Í Risamálheildinni eru 25 dæmi frá þessari öld um bjóu og bjóum, nær öll af samfélagsmiðlum.
Myndin skuku er ekki heldur einsdæmi – um hana eru um 10 dæmi á tímarit.is, það elsta í Tímanum 1989: „Allharðir jarðskjálftar skuku norðurhluta Kína í fyrrinótt.“ Gísli Jónsson vakti athygli á þessari mynd í Morgunblaðinu: „Sögnin að skaka beygist eins og taka: skaka-skók-skókum-skekinn (6. hljóðskiptaröð). En heyra mátti á einni útvarpsstöð: „Jarðskjálftarnir sem skuku Los Angeles...“.“ Í Risamálheildinni eru tæp 20 dæmi um skuku og skukum. Sögnin skaka er ekki ýkja algeng og því ekki óvænt að beyging hennar sé á reiki, en það liggur hins vegar ekki í augum uppi hvernig eigi að skýra myndina skuku því að u er ekki annars staðar í beygingunni. Hugsanlega eru þarna áhrif frá u í persónuendingum fleirtölunnar – -um, -uð, -u.