Hrynjandin eða hrynjandinn?

Í tölvupósti sem ég fékk fyrir helgi var bent á að orðið hrynjandi hefði verið notað í karlkyni á fréttavef Ríkisútvarpsins – „Ekki alveg sami hrynjandi í fyrirsögninni við þennan mola og í upphafi kvæðis Jónasar.“ Bréfritari sagði að sér hefði „alltaf þótt fara best á að hafa þetta sem karlkynsorð“ en Málfarsbankinn og orðabækur hefðu það í kvenkyni, og bætti við: „Málfarsbankinn nefnir raunar fleiri orð sem kvenkynsorð sem málvitund mín býður að séu karlkyns, til dæmis stígandi, sem ég held nú að sé í huga meirihluta fólks karlkynsorð.“ Þetta er alveg rétt – Málfarsbankinn segir: „Orðið hrynjandi er kvenkynsorð frá fornu fari ásamt nokkrum fleiri orðum sem enda á -andi: fögur hrynjandi, fögur kveðandi, mikil stígandi.

Það er hins vegar rétt að benda á að í Íslenskri orðabók eru þessi þrjú orð, hrynjandi, kveðandi og stígandi, öll gefin upp bæði í karlkyni og kvenkyni, en með mismunandi merkingu. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er hrynjandi sagt „kvk/kk“ en aðeins merkingin 'háttbundinn flutningur tóna, hljómfall, taktur' gefin. Aftur á móti eru kveðandi og stígandi aðeins gefin sem kvenkynsorð, það fyrrnefnda í merkingunni 'hljóðfall í flutningi bundins máls, hrynjandi' en það síðarnefnda í merkingunni 'það að e-ð hækkar og magnast jafnt og þétt (t.d. í kveðskap og bókmenntum)'. Í Íslenskri orðsifjabók er stígandi eingöngu gefið sem karlkynsorð og fornmálsdæmi um það eru öll í karlkyni, en það kemur eingöngu fyrir sem nafn eða viðurnefni.

Nafnorð sem enda á -andi eru upphaflega lýsingarháttur nútíðar af sögn og eru langflest karlkynsorð – eigandi, gerandi, nemandi, neytandi, sendandi, þiggjandi, þolandi o.s.frv. Það er því engin furða að orðin hrynjandi, kveðandi og stígandi hafi tilhneigingu til að feta í fótspor þeirra og verða karlkynsorð, sérstaklega þar sem samhljóma karlkynsmyndir eru til í annarri merkingu eins og áður segir. Gömul dæmi eru um öll orðin í karlkyni í sömu merkingu og kvenkynsorðin – um hrynjandi frá 18. öld, um kveðandi frá 19. öld og um stígandi einnig frá 19. öld. Raunar er óljóst á hverju sú fullyrðing Málfarsbankans stígandi sé kvenkynsorð „frá fornu fari“ byggist – e.t.v. hefur það fengið kvenkyn vegna merkingarlíkinda við hin orðin tvö.

Í áðurnefndu bréfi til mín klykkti bréfritari út með því að segja: „Mætti ekki endurorða umvandanir málfarsbankans og segja að karlkynsmyndir þessara orða hafi fyrir löngu hlotið fastan sess og fari ekki í neinum meginatriðum gegn málfræði íslensku?“ Ég ræð vitaskuld ekki orðalagi Málfarsbankans en get alveg tekið undir þetta. Eins og hér hefur komið fram eiga karlkynsmyndir orðanna sér langa hefð og viðskeytið -andi er langoftast karlkynsviðskeyti. Ég get ekki séð neitt að því að viðurkenna bæði karlkyn og kvenkyn þessara orða sem gott og gilt mál. Málið þolir alveg tilbrigði – það er ekkert nauðsynlegt að við notum það öll á sama hátt. Lifi fjölbreytileikinn!