Posted on Færðu inn athugasemd

Skilmálar á ensku í starfsauglýsingum

Athygli mín var vakin á því að á vefnum Alfreð.is þar sem laus störf eru auglýst þarf í sumum tilvikum að samþykkja ítarlega skilmála á ensku til að unnt sé að sækja um starf. Þetta á t.d. við um mörg störf hjá Reykjavíkurborg. Þar þurfa umsækjendur að haka við „Ég hef lesið og samþykki skilmála 50skills og skilmála Reykjavíkurborgar“ til að staðfesta umsókn. Skilmálar Reykjavíkurborgar eru ein og hálf síða (um 450 orð) á íslensku, skýrir og eðlilegir. En skilmálar 50skills eru 1800 orða skjal á ensku. Mér finnst forkastanlegt af fyrirtækjum og stofnunum að krefjast þess að umsækjendur samþykki skilmála sem eru eingöngu á ensku. Það er bæði í fullkominni andstöðu við íslenska málstefnu og óvirðing gagnvart umsækjendum.

Vitanlega má búast við því að fólk með takmarkaða íslenskukunnáttu sæki um sum auglýst störf og þess vegna væri ekkert við það að athuga og raunar sjálfsagt að hafa enska – og jafnvel pólska – útgáfu af skilmálunum líka. En enska útgáfan er sú eina sem er í boði, jafnvel í auglýsingum þar sem gerð er sérstök krafa um íslenskukunnáttu. Það er vitaskuld algerlega óboðlegt, og sérstaklega er ámælisvert að þetta skuli gilda um auglýsingar Reykjavíkurborgar, í ljósi þess að í Lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls er lögð sérstök áhersla á ábyrgð opinberra aðila á því að halda íslenskunni á lofti: „Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skulu sjá til þess að hún sé notuð.“

En ekki er síður ástæða til að vísa í málstefnu Reykjavíkurborgar þar sem segir m.a.: „Vandað, skýrt og auðskilið mál, hvort heldur ritað eða talað, er lykilatriði í allri þjónustu og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Þar er íslenska í öndvegi […].“ „Starfsfólk Reykjavíkurborgar skal nota íslensku í störfum sínum og stjórnsýslu nema þar sem aðstæður krefjast þess að það noti önnur tungumál […].“ „Íslenska skal vera meginsamskiptamál í þjónustu og vinnuumhverfi starfsstaða Reykjavíkurborgar. Þetta gildir líka um viðmót í tölvum, rafrænni þjónustu […].“ „Allt efni á vegum borgarinnar, sem gefið er út á erlendum tungumálum, skal jafnframt vera til á íslensku.“ Gengið er þvert gegn öllum þessum ákvæðum í umræddum starfsauglýsingum.

En fyrir utan það að skilmálar á ensku eru andstæðir íslenskri málstefnu og óvirðing við íslenskt mál eru þeir líka algerlega óboðlegir gagnvart umsækjendum sem hugsanlega hafa takmarkaða enskukunnáttu – og eru örugglega oftast óvanir að lesa enskt lagamál þótt þeir kunni enskt hversdagsmál þokkalega. Þarna er fjallað um viðkvæm mál eins og meðferð persónuupplýsinga og þar kemur m.a. fram að 50skills geymi og vinni úr „information that you send via email, messaging, in person at interviews and/or by any other method“, þ. á m. „personal details such as your name, social security number, email address, address, date of birth qualifications, experience, information relating to your employment history, skills and experience […].“

Þetta eru vitanlega atriði sem mikilvægt er að fólk skilji, og átti sig á því hvað það er að samþykkja. En ég hef takmarkaða trú á því að venjulegir umsækjendur lesi þennan enska texta vandlega, hvað þá skilji hann til fulls. Þess vegna er trúlegt að fólk sé þarna oft að samþykkja eitthvað sem það veit ekki hvað er – sem er vitanlega óviðunandi. Mér er fullkomlega óskiljanlegt hvers vegna þessir skilmálar eru ekki þýddir á íslensku – það ætti hvorki að vera óvinnandi verk né óyfirstíganlegur kostnaður. Ég vonast til þess að Reykjavíkurborg og Alfreð breyti starfsháttum sínum og hætti að láta umsækjendur staðfesta skilmála á ensku. Það er lítilsvirðing við bæði íslenskuna og umsækjendur.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að þegja, þaga og þagga í hel

„Orðasambandið þegja e-ð í hel 'eyða málefni með því að ræða það ekki' á sér ugglaust rætur í norrænni goðafræði en það er ungt í íslensku, mun vera fengið úr dönsku (tie noget ihjel)“ segir Jón G. Friðjónsson. Elsta dæmi sem ég hef fundið um þetta samband er í Skuld 1880: „með því, að ræða málið, styðjum vér þó alla daga til að varna því, að það sé „þagað í hel“.“ Þarna eru gæsalappir um þagað í hel sem bendir til þess að þetta sé nýtt í málinu og ekki fyllilega viðurkennt. Annað dæmi er í Þjóðólfi 1886: „málið hefur brátt dáið út aptur, rjett eins og menn hefðu tekið sig saman um að þegja það í hel.“ Allmörg dæmi má svo finna frá síðustu áratugum 19. aldar og orðasambandið hefur alla tíð síðan verið fremur algengt.

En það á sér líka aðrar birtingarmyndir. Nafnhátturinn þaga af sögninni þegja kemur stundum fyrir eins og ég hef skrifað um, einkum í vissum orðasamböndum. Eitt þeirra sambanda er þaga í hel sem oft hefur verið amast við. Elsta dæmi sem ég hef fundið um þaga er frá 1928 en elsta dæmi um þaga í hel er í Vesturlandi 1939: „En út lítur fyrir að þaga eigi þessar leiguumleitanir í hel.“ Annað dæmi er í Morgunblaðinu 1945: „Þetta er svo merkilegt mál, að ekki má þaga það í hel.“ Allmörg yngri dæmi má svo finna, t.d. í Skessuhorni 2021: „Allir afskekktir staðir á Íslandi geyma ljót leyndarmál sem búið er að þaga í hel.“ Í Risamálheildinni eru 57 dæmi um þaga í hel, langflest af samfélagsmiðlum sem ber vott um að þaga hefur ekki verið viðurkennt.

Þessi afbrigði þekkti ég, en við athugun á sögninni þagga áttaði ég mig á því að til er þriðja afbrigðið – þagga í hel. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Verklýðsblaðinu 1932 og því eldra en elsta dæmi um þaga í hel: „Þessi ógurlegu svik reyna sósíaldemókratarnir hér heima að þagga í hel.“ Annað dæmi er í Alþýðublaðinu sama ár: „að bráðum skyldi Vorwäts verða þaggaður í hel!“ Í sama blaði 1933 segir: „Er Clausen þar með úr sögunni fyrir fult og alt, þaggaður í hel af honum duglegri og slyngari mönnum.“ Fjölmörg nýleg dæmi má líka finna, t.d. í Stundinni 2016: „Svo virðist sem máttug öfl vilji þagga málið í hel.“ Í Risamálheildinni eru alls 110 dæmi um sambandið, meira en helmingur úr formlegu málsniði.

Sambandið þagga í hel er ekki að finna í neinum orðabókum en samkvæmt þessum dæmum hefur það bæði verið notað í merkingunni 'þagga eitthvað endanlega niður' og 'þagga endanlega niður í einhverjum'. Í nýlegum dæmum er merking sambandsins yfirleitt í samræmi við þá merkingu sem sögnin þagga hefur bætt við sig á síðustu árum, þ.e. 'halda niðri, hunsa, láta eins og sé ekki til'. Þarna hefur sögninni þagga sem sé slegið saman við sambandið þaga í hel, en athyglisvert er að aldrei virðist hafa verið amast við þagga í hel. Enda engin ástæða til – merkingarlega stenst það vel. Þarna hefur málið því bætt við sig nýju orðasambandi sem eðlilegt er að viðurkenna sem gott og gilt – og í leiðinni er sjálfsagt að viðurkenna þaga í hel.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að þagga umræðuna

Í dag sá ég á Vísi fyrirsögnina „Uppgangur öfgaafla verður í boði þeirra sem þagga umræðu“. Þarna tekur sögnin þagga andlag án nokkurrar frekari viðbótar. Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru sýnd dæmi um tvenns konar notkun sagnarinnar: þagga <málið> niður í merkingunni 'láta málið hverfa úr umræðu (t.d. fjölmiðla)' og þagga niður í <honum> í merkingunni 'láta hann hætta tali eða hávaða'. Í báðum tilvikum fylgir atviksorðið niður sem sé sögninni. Í Íslenskri orðabók er sögnin þó gefin með andlagi einu saman í sambandinu þagga einhvern í merkingunni 'þagga niður í einhverjum' en það er sagt „fornt/úrelt“. Allnokkur dæmi um þá notkun er að finna í Ritmálssafni Árnastofnunar og á tímarit.is.

Það virðist hins vegar ekki hafa verið farið að nota sögnina með andlagi einu saman í merkingunni 'þagga eitthvað niður' eins og í áðurnefndri fyrirsögn fyrr en fyrir hálfum öðrum áratug eða svo. Eitt elsta dæmi sem ég finn um það er á Málefnin.com 2005: „Þær hafa reynt að þagga umræðuna á allan hátt, með allskonar tröllaskap.“ Í 24 stundum 2007 segir: „Til þess er og leikurinn gerður: Að valda hugarangri og reyna með því móti að þagga umræðuna.“ Í Morgunblaðinu 2009 segir: „Evrópufjölmiðlarnir þögguðu Váfugl.“ Í mbl.is 2015 segir: „En við þurfum að ræða þetta, ekki reyna að þagga þetta.“ Í Stundinni 2018 segir: „kirkjan hefur reynt að þagga kynferðisbrotamál sem komið hafa upp innan hennar.“

Á sama tíma hefur notkun sagnarinnar með andlagi einu saman um það að 'þagga niður í einhverjum' gengið í endurnýjun lífdaga – í dálítið breyttri merkingu þó. Í Veru 2003 segir: „Allt í einu sneru menn vörn í sókn og það blöskrar nógu mörgum til þess að ekki sé hægt að þagga þá og jaðra.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 2003 segir: „Minnihlutahópurinn er þaggaður og meirihlutinn skrifar um og fyrir þá.“ Í Fréttablaðinu 2007 segir: „Það er reyndar hefð í íslensku menningarlífi að þegja menn, þagga þá gersamlega.“ Í Ritinu 2010 segir: „Samkynhneigðir voru sá samfélagshópur sem líklega var mest þaggaður á tíma fasismans.“ Í Fréttablaðinu 2018 segir: „segir augljóst að reynt sé að þagga flokkinn og halda honum utan við umræðuna.“

Þarna er merkingin í samræmi við þá merkingu sem nafnorðið þöggun hefur haft undanfarna áratugi: „Hugtakið þöggun felur ekki í sér að hinn þaggaði hópur þegi, heldur að það sé eingöngu ríkjandi talsháttur sem heyrist, eða öllu heldur er hlustað ásagði Helga Kress í Morgunblaðinu 1993. Orðið þöggun kemur fyrir í Skírni 1832 og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 en virðist annars ekki hafa verið notað fyrr en Helga tók það upp í merkingunni 'kerfisbundin aðferð til að koma í veg fyrir að fólk tjái skoðanir sínar' eins og það er skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók. Það er líka talað um að eitthvað sé þaggað, í merkingunni 'þaggað niður' – í Morgunblaðinu 2007 segir t.d.: „Geðhvarfasýki er þaggaður sjúkdómur.“

Það eru sem sé tvenns konar nýjungar í notkun og hegðun sagnarinnar þagga á þessari öld. Annars vegar er það merkingin – í viðbót við það að þagga bókstaflega niður í fólki, fá það til að þegja eða láta það þegja, merkir sögnin nú iðulega að látið sé eins og fólk sé ekki til, því haldið niðri, skoðanir þess hunsaðar o.s.frv. Hins vegar er það setningagerðin – í viðbót við að sögnin sé notuð með atviksorðinu niður, ýmist með andlagi (þagga eitthvað niður) eða forsetningu (þagga niður í einhverjum) tekur hún nú iðulega andlag eitt og sér, bæði þegar vísað er til fólks eins og hún gerði áður fyrr (þagga konur) og þegar vísað er til málefna (þagga umræðuna). Engin ástæða er til að amast við þessum nýjungum – þær eru gagnleg viðbót.

Posted on Færðu inn athugasemd

Óvirk lagaákvæði um íslenskt mál

Í viðtali á Bylgjunni í gær minntist Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir á það að áður hefði það verið lagaskylda að fyrirtæki bæru íslensk nöfn en það væri nú fallið úr lögum, og sagði „Það sem einu sinni var getur orðið aftur“. Þau lög sem þarna er um að ræða eru Lög um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð frá 1903 (!) og þar er umrætt ákvæði reyndar enn að finna í 8. grein sem hljóðar svo: „Hver sá er stundar atvinnurekstur skal hlýða ákvæðum þeim, er hér fara á eftir, um nafn það, er hann notar við atvinnuna, […] enda beri fyrirtækið og atvinnustarfsemi þess nöfn, sem samrýmist íslensku málkerfi að dómi skrásetjara.“ Nú er það verkefni Fyrirtækjaskrár að meta hvort firmanöfn samrýmist lögum, m.a. hvað varðar umrætt ákvæði.

Á vef Fyrirtækjaskrár segir þó að hún telji sig „aðeins leiðbeinandi aðila í málum er varðar firmaheiti“ og ákvarðanir hennar sé hægt að kæra til menningar- og viðskiptaráðuneytisins og síðan til dómstóla ef því er að skipta. Í leiðbeiningum segir: „Fyrirtækjaskrá leggur ekki lengur bann við því að menn noti erlend heiti í firmanafni sínu“ og enn fremur: „Fyrirtækjaskrá hefur á sl. árum og áratugum hins vegar verið að draga úr kröfum að þessu leyti, sérstaklega með hliðsjón af því að ekki eru lengur aðeins skráð íslensk firmaheiti í skrána. Það kemur þó alltaf upp öðru hvoru að neitað er um skráningu á heiti þar sem það verður talið brjóta það sterklega gegn íslensku málkerfi að ekki er talið unnt að heimila skráningu þess í opinberar skrár.“

Lögin eru sem sé óbreytt, en slakað hefur verið á framkvæmdinni hvað þetta varðar. En meðan lögunum var fylgt fastar eftir – að nafninu til – var reyndar sífellt verið að fara í kringum þau, með því að skrá eitt nafn í firmaskrá en nota annað í kynningum og auglýsingum. Þetta var alkunna og oft um það rætt. Þekkt dæmi var Veitingahúsið Álfabakka 8 hf. sem svo hét í firmaskrá, en almenningur þekkti undir heitinu Broadway. Þetta er því dæmi um lagaákvæði sem í reynd var ekki hægt að fylgja eftir, og ekki virðist hafa verið vilji fyrir því hjá stjórnvöldum að breyta lögunum þannig að ekki væri hægt að fara kringum þau á þennan hátt. Niðurstaðan hefur í staðinn orðið að láta eins og þetta ákvæði sé ekki til. Það er ekki heppilegt.

Annað dæmi um vísun til íslensks máls í lögum er í Lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu frá 2005 en þar segir í 6. grein: „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.“ Við þekkjum samt fjölda dæma um auglýsingar sem eru að meira eða minna leyti á ensku. Stundum geta auglýsendur e.t.v. skákað í því skjóli að þeir séu ekki að höfða til Íslendinga, t.d. á veitingastöðum þar sem mikill meirihluti gesta er erlent ferðafólk, en eftir sem áður gengur það gegn íslenskri málstefnu að auglýsa eingöngu á ensku. En það er með þessi lög eins og firmalögin, að mikið skortir á að þeim sé framfylgt. Það er til lítils að hafa ákvæði um íslensku í lögum ef okkur skortir vilja og getu til að framfylgja þeim.

Posted on Færðu inn athugasemd

Atvinnulífið gefur skít í íslensku

Fern samtök í íslensku atvinnulífi skrifuðu utanríkisráðherra þann 27. júní sl. bréf sem er allt á ensku. Þarna eru sem sé fern samtök í íslensku atvinnulífi að skrifa íslenskum ráðherra og íslensku ráðuneyti á erlendu tungumáli, þrátt fyrir að í fyrstu grein laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls segi skýrt: „Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi.“ Í annarri grein sömu laga segir enn fremur: „Þjóðtungan er sameiginlegt mál landsmanna. Stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs“ og í fimmtu grein segir: „Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skulu sjá til þess að hún sé notuð.“ Þetta er svo skýrt sem verða má.

Fyrir utan skýr lagaákvæði er í gildi þingsályktun um íslenska málstefnu sem Alþingi samþykkti 2009 og þar segir í upphafi: „Alþingi ályktar að efla skuli íslensku sem opinbert mál og tryggja að hún verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.“ Vissulega er ekki lagaleg skylda frjálsra félagasamtaka að nota íslensku í starfi sínu, en það verður samt að ætlast til þess að þau taki tillit til skýrra lagaákvæða um íslensku sem þjóðtungu á Íslandi. Það gengur gersamlega gegn anda laganna og íslenskrar málstefnu að íslensk samtök sendi íslenskum ráðherra bréf á ensku og er í raun alveg óskiljanlegt. Þarna er íslenskri tungu og íslenskri málstefnu sýnd slík lítilsvirðing að það er með fádæmum og algerlega óboðlegt að þessi samtök geri það.

Um þessar mundir er mikið rætt um það að íslenskan eigi undir högg að sækja, einkum vegna erlendra áhrifa af ýmsu tagi – bæði frá stafrænum miðlum og frá mikilli enskunotkun vegna fjölda erlend starfsfólks á vinnumarkaði og gífurlegs fjölda ferðafólks. Ábyrgð atvinnulífsins á þessu sviði er mikil – atvinnurekendur þurfa að leggja mun meiri áherslu á að kenna starfsfólki sínu íslensku og auðvelda því íslenskunám, auk þess sem þeir þurfa að sjá til þess að hvers kyns auglýsingar og merkingar séu á íslensku. Samtök atvinnulífsins hafa stutt þessa stefnu í orði, og fyrrverandi framkvæmdastjóri þeirra hvatti fyrirtæki oft til að nota íslensku. Þetta bréf kemur því eins og hnefahögg – eitt versta högg sem íslenskan hefur fengið lengi.

Auðvitað má segja að eitt bréf á ensku breyti engu – það sé ekki ætlað almenningi, fjalli um mjög sérhæft efni, og valdi því ekki auknum enskum áhrifum á íslenskt mál eða málsamfélag. Það er í sjálfu sér rétt, svo langt sem það nær. En málið snýst ekki um bréfið sjálft eða innihald þess, heldur um ástæður þess að samtök í íslensku atvinnulífi skuli kjósa að skrifa íslenskum ráðherra á öðru tungumáli en opinberu máli landsins. Með því er verið að lýsa frati á íslenskuna, segja að hún sé ónothæf sem alvöru tungumál. Á bak við liggur e.t.v. sú hugmynd bréfritara að meiri líkur séu á að tekið sé mark á bréfi sem er á ensku. Þá kann að styttast í að íslenskan verði að heimilismáli sem eingöngu er notað í óformlegum samskiptum en ekki til alvarlegra hluta.

Posted on Færðu inn athugasemd

DEleríum BÚbónis eða DeLEríum búBÓnis?

Í morgun var sagt frá könnun á framburði Íslendinga á snakkinu Bugles og það minnti mig á annað svolítið hliðstætt sem ég var að velta fyrir mér um daginn. Nú ætlar Borgarleikhúsið að taka söngleikinn „Deleríum búbónis“ eftir Jónas og Jón Múla Árnasyni til sýninga á ný. Ég hef stundum undanfarið heyrt þetta borið fram með áherslu á öðru atkvæði – DeLEríum búBÓnis. Leikritið er litlu yngra en ég, var frumsýnt 1959, og þótt ég sæi það ekki á þeim tíma heyrði ég það mjög oft nefnt þegar lögin úr því voru flutt í útvarpinu. Ég er viss um að í þá daga bar ég þetta alltaf fram eins og hvert annað íslenskt orð, með áherslu á fyrsta atkvæði – DEleríum BÚbónis. Ég skal ekki fullyrða að sá framburður hafi verið notaður í útvarpinu, en held það þó.

Á þessum tíma, fyrir daga sjónvarps svo að ekki sé talað um netið, komu erlend orð aðallega til okkar á prenti. Þá var eðlilegt að fólk bæri þau fram samkvæmt íslenskum reglum og hefði t.d. áhersluna á fyrsta atkvæði – og áttaði sig jafnvel ekki á orðunum ef þau voru borin fram „rétt“. Ég man t.d. eftir því að nafn Haile Selassie sem var keisari Eþíópíu til 1974, og oft var nefndur í útvarpi þegar ég var strákur, var þar borið fram Hæle SeLASSí, þ.e. með áherslu á öðru atkvæði eftirnafnsins – sem ég held að sé réttur framburður. En ég skynjaði þetta alltaf sem Hælese Lassí, þ.e. skynjaði áherslulausa fyrsta atkvæðið í eftirnafninu sem lokaatkvæði fornafnsins, og fannst þarna vera undarlegt ósamræmi við það hvernig nafnið var á prenti.

Þetta er sem sé eitt af því sem hefur breyst, bæði með breyttri tungumálakennslu þar sem meiri áhersla er lögð á talað mál en áður, en fyrst og fremst auðvitað með meiri beinum kynnum okkar af erlendum málum í gegnum sjónvarp og net, og stóraukin ferðalög til útlanda og fjölgun útlendinga á Íslandi. Nú eru minni líkur en áður á því að við beitum íslenskum framburðarreglum, þar á meðal áherslu á fyrsta atkvæði, ósjálfrátt á erlend orð – eða orð sem líta út fyrir að vera erlend. Þess vegna er skiljanlegt að yngra fólk segi DeLEríum búBÓnis en við sem eldri erum höldum okkur við DEleríum BÚbónis. Í þessu er ekkert réttara en annað – þetta er bara áhugavert dæmi um það hvernig kynni af erlendum málum hafa áhrif á framburð.

Posted on Færðu inn athugasemd

Það er hugarfarið sem er vandamál, ekki erlendu heitin

Það hefur verið talsverð umræða bæði á netinu og í fjölmiðlum um nafnbreytingu Rúmfatalagersins yfir í Jysk, og sýnist sitt hverjum. Mörgum þykir lítil eftirsjá í gamla nafninu og vissulega er rétt að það er nokkuð þunglamalegt þótt þar komi styttingin Rúmfó til bjargar – um hana eru rúm sex þúsund dæmi í Risamálheildinni en ekki nema rúm fjögur þúsund um fullt nafn verslunarinnar. Þar að auki má auðvitað deila um það hversu góð íslenska lager sé þótt það hafi vitanlega unnið sér hefð í málinu. En óneitanlega er tilbreyting að nýja heitið er danskt en ekki enskt, þótt þau rök eigenda fyrir nafnbreytingunni að gamla nafnið lýsi ekki lengur vöruvali verslunarinnar eigi auðvitað ekki síður við Jysk en Rúmfatalagerinn.

Auðvitað er það rétt sem nefnt hefur verið í umræðunni að þarna er um að ræða fjölþjóðlega keðju og í sjálfu sér ekki óeðlilegt að hún hafi sama nafn alls staðar þar sem hún starfar, eins og t.d. IKEA og Elko og Bauhaus og Costco – og það er svo sem ekki eins og Bónus og Nettó séu sérlega íslenskuleg nöfn. Og erlend nöfn verslana og veitingahúsa eru engin ný bóla – í upphafi 20. aldar voru í Reykjavík verslanir eins og Thomsens Magasín, H.P. Duus, Edinborg og J.J. Lambertsen, veitingahús eins og Café Tivoli og Café Uppsalir o.s.frv. En það sem er sérstakt í þessu tilviki er að verið er að taka úr notkun íslenskt heiti sem hefur unnið sér hefð og setja erlent heiti í staðinn – rétt eins og þegar drykkurinn „Toppur“ varð „Bonaqua“ nýlega.

Einstök erlend heiti, hvort sem það er á verslunum, veitingahúsum eða öðru, skipta engu máli og það er engin ástæða til að ætla að þau opni leið fyrir straum erlendra orða inn í málið. Það eru ekki heitin í sjálfu sér sem ástæða er til að hafa áhyggjur af fyrir hönd íslenskunnar, heldur hugsunin – eða kannski fremur hugsunarleysið – á bak við þau. Af hverju finnst eigendum og stjórnendum þessara fyrirtækja eðlilegt og nauðsynlegt að kalla þau erlendum nöfnum? Skýringin er oft sögð sú að meginhluti viðskiptavina séu ferðafólk, en eru einhverjar líkur á að ferðafólk borði frekar á veitingastað sem heitir ensku nafni en íslensku? Það er ekki heldur eins og allt ferðafólk sem hingað kemur eigi ensku að móðurmáli, og sumt skilur alls ekki ensku.

Þessi heiti bera þess vegna fyrst og fremst vott um það (meðvitaða eða ómeðvitaða) viðhorf þeirra sem reka verslanir og veitingastaði að íslenskan henti ekki í heiti þessara fyrirtækja – sé ekki nógu smart eða kúl. Þegar við sjáum tæpast verslanir og veitingastaði með íslenskum nöfnum má búast við að þetta viðhorf síist líka inn í almenning. Það getur svo aftur haft þau áhrif að við verðum ónæmari fyrir óþarfri ensku á öðrum sviðum – hún er orðin svo áberandi og svo víða í umhverfi okkar að við tökum ekki eftir því þótt hún teygi sig smátt og smátt inn á fleiri og fleiri svið, og á endanum verður ekki aftur snúið. Við þurfum að vinna gegn þessu – ekki erlendum nöfnum út af fyrir sig, heldur því hugarfari sem veldur því að þau þykja sjálfsögð.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hvers vegna er h-hljóð í Netflix?

Netflix er oft borið fram með h-hljóði vegna þess að við beitum (ósjálfrátt og ómeðvitað) íslenskum hljóðkerfisreglum á orðið. Samkvæmt þeim eru sérhljóð stutt ef tvö samhljóð fara næst á eftir. Í samsettum íslenskum orðum er misjafnt hvort þessari lengdarreglu er beitt á samsetninguna í heild eða á orðhlutana hvorn fyrir sig, og það skiptir máli ef fyrri hlutinn endar á samhljóði og sá seinni hefst líka á samhljóði. Í orði eins og vitlaus [vɪhtlœis] er reglunni yfirleitt beitt á orðið í heild og þess vegna fáum við stutt sérhljóð á undan tl, en í orðinu bitlaus [pɪːtlœis] er reglunni beitt á hvorn orðhluta fyrir sig, bit-laus, og þess vegna fáum við langt i [ɪː] því að aðeins eitt samhljóð kemur á eftir því innan orðhlutans.

Þetta er bara fyrri hluti skýringarinnar. Í Netflix koma saman tvö samhljóð, fl, og við beitum iðulega íslensku lengdarreglunni á orðið sem heild og fáum því stutt e. Þegar sérhljóð er stutt á undan samhljóðaklasa sem byrjar á p, t eða k kemur h-hljóð, svokallaður aðblástur, alltaf inn í orðið á eftir sérhljóðinu í íslenskum orðum. Það gerist t.d. í vitlaus sem er borið fram vihtlaus [vɪhtlœis] og við beitum þessari reglu líka oft þegar við berum fram erlend orð. Þess vegna er Netflix oft borið fram með hljóði, Nehtflix [nɛhtflɪks] í íslensku. Það er mjög algengt að við beitum íslenskum hljóðkerfisreglum á erlend orð, og aðblástur er reyndar eitt af því sem helst einkennir íslenskan hreim og mörgum veitist erfitt að losa sig við.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hinsegin orðaforði

Á undanförnum árum hefur hin hefðbundna kynjatvíhyggja látið undan síga og nú er almennt viðurkennt að kyn, kyngervi, kynhneigð, kyntjáning og kynvitund sé miklu fjölbreyttari en áður var talið. Þessari fjölbreytni fylgir fjöldi nýrra orða sem koma til okkar erlendis frá, yfirleitt úr ensku, en talsvert hefur verið gert í því að finna og búa til íslenskar samsvaranir hinna erlendu orða. Í tilefni Hinsegin daga er rétt að minna á að Samtökin ‘78 hafa þrisvar efnt til nýyrðasamkeppni undir heitinu Hýryrði. Í fyrstu keppninni árið 2015 komu fram orð eins og eikynhneigð, dulkynja, vífguma, kærast, flæðigerva og bur. Í keppninni 2020 komu fram orðin stálp og kvár, og einnig samsetningarnar mágkvárog svilkvár. Keppnin 2023 er enn í gangi.

Í þessum hópi hafa birst ýmsir pistlar um hinsegin og kynsegin orðaforða. Þeir helstu eru: Tveir pistlar um hán, „Má bæta við persónufornafni“ og „Fornafnið hán“; „hinsegin“ um sögu og merkingarþróun orðsins hinsegin; „Leghafar og aðrir -hafar“, um orðið leghafi og gagnsemi þess; „Hýryrði“, um kvár, stálp og orð sem fram komu í nýyrðasamkeppninni 2020; „Bur“ um endurnýtingu orðsins bur í kenninöfnum; „Kynhlutlaus nöfn“, um það hvort íslensk mannanöfn geti verið kynhlutlaus; og „Er verið að úthýsa afa og ömmu?“ um misskilning eða rangtúlkun á ósk um kynhlutlaust orð yfir foreldri foreldra í Hýryrðum 2023. Þessu tengist svo umræða um kynhlutlaust mál en fjölda pistla um það efni má finna á heimasíðu minni.

„Okkur í Samtökunum ‘78 er umhugað um að geta talað um veruleika okkar á íslensku“ segir í kynningu á yfirstandandi keppni. Það er grundvallaratriði að íslenskan þjóni öllum sem vilja nota hana, komi til móts við mismunandi hópa og lagi sig að breyttum hugmyndum og breyttu samfélagi. Ef fólk finnur sig ekki í íslenskunni missir það áhugann á því að nota hana og þá er hún feig. Þess vegna eigum við öll að fagna nýjum orðum á þessu sviði og leitast við að nota þau þegar við á. Sumum finnst erfitt að átta sig á öllum þessum nýju orðum og eru hrædd við að gera mistök en það er ástæðulaust. Það tekur tíma að læra á nýjan veruleika en það sem máli skiptir er að reyna – engum dettur í hug að ætlast til að við gerum allt rétt frá byrjun.

Posted on Færðu inn athugasemd

Illur – illari – illastur

Þótt flest lýsingarorð stigbreytist reglulega með endingunum -(a)ri í miðstigi og -(a)stur í efsta stigi hafa fáein algeng orð óreglulega stigbreytingu þar sem miðstig og efsta stig fá annan stofn en frumstigið. Þau helstu eru góður sem fær stofninn bet- í efri stigunum, betri og bestur, og illur, slæmur og vondur sem öll fá stofninn ver- í efri stigunum, verri og verstur. Það ber samt við að þessi orð fái reglulega stigbreytingu í samsetningum. Það eru fleiri dæmi um geðvondari en geðverri í Risamálheildinni og dæmi eru um geðillari, viðskotaillri, geðgóðari, vongóðari o.fl. Orðið úrillur fær eingöngu myndirnar úrillari og úrillastur enda er ekki augljóst að um samsetningu sé að ræða – ólíklegt að málnotendur þekki orðið úr eitt og sér (í þessari merkingu).

Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1984 vitnaði Gísli Jónsson í dæmi um miðstigið viðskotaillri og sagði: „Ég legg til að við stigbreytum illur, verri, verstur, svo sem verið hefur. Ef nauðsynlegt þykir að stigbreyta illur reglulega, væri illari hóti nær en illri.“ Þarna virðist hann sem sé ekki hafna reglulegri stigbreytingu alfarið, en þegar góður, illur, slæmur og vondur standa ein og sér er stigbreytingin nær alltaf óregluleg. Myndum eins og góðari / góðastur, vondari / vondastur og slæmari / slæmastur bregður þó fyrir á samfélagsmiðlum (og væntanlega í töluðu máli) – og einnig illari / illastur, en þær myndir hafa þó nokkra sérstöðu. Dæmi um þær eru nefnilega ekki bundin við óformlegt málsnið heldur má finna fáein slík í fjölmiðlum.

Í DV 1986 segir: „Nautin verða sífellt erfiðari viðureignar, eru orðin bæði illari og útsmognari en áður.“ Í Vísi 2007 segir: „segist þó iðrast einskis en hún var á sínum tíma kölluð „illasta kona Þýskalands““. Í DV 2007 segir: „Ekki er vitað hvað hann átti sökótt við lögreglustjórann en hann hefur að öllum líkindum orðið enn illari þegar hann vaknaði.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 2008 segir: „Á þessum tíma í sögu þungarokksins streittust menn við að vera hraðari, illari og þyngri en næsta sveit.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Hann var mjög umdeildur á fyrri hluta 20. aldarinnar og var m.a nefndur illasti maður Bretlandseyja.“ Í DV 2012 segir: „Hitastigið í Los Angeles er nógu ljúft fyrir sjávarböð meðan Kári gnauðar sem illastur hér heimafyrir.“

Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru gefnar þrjár merkingar lýsingarorðsins illur: (1) 'slæmur, vondur', (2) 'erfiður', (3) 'reiður'. Mér finnst þó vanta þarna eina enn: (4) 'illvígur' en það orð er skýrt 'erfiður viðureignar, hættulegur'. Í öllum dæmunum hér að framan væri hægt að setja illvígari / illvígastur í stað illari / illastur, en ekki nóg með það: Það er hæpið eða útlilokað að nota venjulega stigbreytingu á illur í þessum dæmum – það myndi breyta merkingu. A.m.k. væri alveg fráleitt að segja á þessum tíma í sögu þungarokksins streittust menn við að vera hraðari, verri og þyngri en næsta sveit. Það er því eðlilegt að gera ráð fyrir að illur stigbreytist bæði reglulega og óreglulega en reglulega stigbreytingin sé bundin við eina merkingu orðsins.