Posted on Færðu inn athugasemd

Fíknir, fíklar og fíkniefni

Kvenkynsorðið fíkn á sér rætur í lýsingarorðinu fíkinn og sögninni fíkjast. Orðið kemur fyrst fyrir kringum 1800 en seint á 19. öld kemur myndin fíkni einnig til. Sú mynd hefur þó alltaf verið mun sjaldgæfari og kemur tæpast fyrir í nútímamáli nema í samsetningum. Ég kann ekki að skýra tengslin milli þessara tveggja mynda en þau gætu verið mynduð með mismunandi kvenkynsviðskeytum, -n (eins og í sókn, sbr. sækja) og -ni (eins og í fælni, af fælinn) sem bæði eru til í málinu. En einnig gætu tvímyndir átt rætur í mynd orðanna með greini sem er sú sama af bæði fíkn og fíkni, þ.e. fíknin. Sé gert ráð fyrir því að fíkn sé eldri mynd er hugsanlegt að myndin fíkni hafi orðið til þannig að fíknin hafi verið túlkað sem fíkni+n í stað fíkn+in.

Í Íslenskri orðabók er fíkn skýrt 'áköf löngun, sjúkleg fýsn' en í Íslenskri nútímamálsorðabók er skýringin orðin tæknilegri, ef svo má segja – 'það að vera háður einhverju og fá fráhvarfseinkenni þegar ástundun eða neyslu er hætt, ávanabinding'. Orðið hefur sem sé eiginlega verið gert að íðorði og er komið inn í nokkur söfn í Íðorðabankanum sem samsvörun við addiction í ensku. Orðið virðist hafa fengið þetta hlutverk á níunda áratugnum eins og ráða má af breytingum á tíðni þess sem jókst mjög á þeim tíma, og ekki síður af breyttri beygingarlegri hegðun. Þessi merkingarbreyting hefur nefnilega leitt til þess að farið er að tala um og skilgreina margar tegundir af fíkn – sem verður eðlilega margar fíknir.

Fram á níunda áratuginn var orðið nær eingöngu notað í eintölu. Ég hef aðeins rekist á fjögur dæmi um fleirtölumyndir þess fyrir 1985, það elsta í Hauki 1898: „þeir þvert á móti, með hinum dýrslegu fíknum sínum, hafa algerlega afmáð rjett sinn til þess, að byggja heiminn.“ Íslensk orðabók gerir ekki ráð fyrir að orðið sé í fleirtölu og eingöngu eintölubeyging er gefin í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. En árið 1985 eru nokkur dæmi um fleirtölu orðsins í blöðum, og þeim fer ört fjölgandi upp frá því. Í Risamálheildinni er á áttunda hundrað dæma um fleirtölumyndir orðsins og fáum kemur nú til hugar að gera athugasemdir við það, þótt Málfarsbankinn segi reyndar: „Ekki er mælt með því að nota nafnorðið fíkn í fleirtölu.“

Fleiri málfarslegar nýjungar tengjast orðunum fíkinn og fíkn. Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1979 birti Gísli Jónsson bréf frá Herði Jónassyni á Höfn þar sem segir: „[M]ér fannst orðið „dópisti“ ljótt og sjálfsagt ekki íslenskt og einnig að orðið eiturlyfjaneytandi er ekki nógu mikið notað og fannst mér því að fíkill gæti átt við í þessu tilefni. Þetta er í ætt við að vera fíkinn í eitthvað.“ Þetta er elsta dæmi sem ég finn um orðið og tvö næstu dæmi um það á tímarit.is eru einnig úr þáttum Gísla, 1980 og 1984, þar sem hann er að hnykkja á þessu orði. En 1985 koma nokkur dæmi og upp úr því fjölgar þeim ört, rétt eins og fleirtölumyndum orðsins fíkn. Nú er orðið gífurlega algengt – yfir 19 þúsund dæmi eru um það í Risamálheildinni.

Í samsetningum er myndin fíkn ekki notuð heldur hliðarmyndin fíkni eins og áður er nefnt, enda eru orð sem enda á samhljóðaklasa eins og kn mun stirðari í samsetningum. Elsta samsetningin virðist vera fíknilyf en elsta dæmið um það orð er í yfirliti um væntanleg fræðsluerindi Háskóla Íslands í Alþýðublaðinu 1966 – erindi Þorkels Jóhannessonar heitir „Um fíknilyf“. Áður hafði oftast verið talað um eiturlyf og því ekki óeðlilegt að búin sé til samsetning með -lyf en líklega hefur við nánari athugun þótt óheppilegt að nota það orð og því var farið að nota orðið fíkniefni í staðinn – elsta dæmi um það er í Heilbrigðisskýrslum 1969 þar sem vísað er í „Reglugerð […] um ávana- og fíkniefni“. Það orð varð fljótt yfirgnæfandi en fíknilyf hefur að mestu horfið.

Posted on Færðu inn athugasemd

Óttar, hræðslur, fælnir – og fíknir

Í innleggi í hópnum Skemmtileg íslensk orð var í gær spurt hvort orðið ótti væri til í fleirtölu en fyrirspyrjandi hafði heyrt talað um að fólk væri oft með marga ótta. Stutta svarið er auðvitað að úr því að orðið var notað í fleirtölu þá er það til í fleirtölu – annars hefði ekki verið hægt að nota það. Um leið og einhver orðmynd eða beyging er notuð þá er hún orðin til. Það þýðir samt ekki að hún sé viðurkennd eða hægt sé að mæla með notkun hennar, og vissulega er engin fleirtölubeyging gefin í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, enda engin hefð fyrir því að nota orðið ótti í fleirtölu. En í framhaldi af þessu má spyrja um tvennt: Er farið að nota þetta orð eitthvað að ráði í fleirtölu; og ætti þá að láta slíka notkun afskiptalausa eða amast við henni?

Í Risamálheildinni má finna fáein dæmi um að ótti sé notað í fleirtölu, langflest af samfélagsmiðlum. Í Vísi 2021 segir: „Á sama tíma þarf Jin að takast á við gamla ótta.“ Í fréttum Ríkisútvarpsins 2021 segir: „Hljómsveitarmeðlimir takast jafnvel á við ýmsa ótta þegar kemur að búningavali.“ Á Bland.is 2006 segir: „Mínir verstu óttar eru að missa einhvern náinn úr fjölskyldunni og/eða vera grafin lifandi.“ Á Bland.is 2007 segir: „Þegar ég var ólétt, var einn af mínum óttum einmitt sá að eignast rauðhært barn.“ Á Bland.is 2016 segir: „Að baki báðum óttum liggja ekki neikvæðar hugsanir til hvors annars heldur til ykkar sjálfs.“„Á Twitter 2021 segir: „Te sem lætur mig upplifa mína verstu ótta og hræðilegustu minningar.“

Ótti birtist í ýmsum myndum og það eru til ýmsar samsetningar með -ótti, svo sem guðsótti, innilokunarótti, málótti, þrælsótti, þótt samheitið -hræðsla sé oftar notað í samsetningum – flughræðsla, lofthræðsla, sjóhræðsla, þjófhræðsla o.m.fl. Einnig er oft talað um fælni í svipuðu samhengi þótt það sé stundum sterkara og merki 'sjúkleg hræðsla við eða óbeit á einhverju' – áhættufælni, hommafælni, myrkfælni, vatnsfælni o.fl. Þegar ótti er notað í fleirtölu virðist oftast vera vísað til mismunandi tegunda af ótta, hræðslu eða fælni, eins og þegar sagt er „Allir mínir óttar hafa komið fram í þessari bílferð“ í Vísi 2018 eða „Meira að segja í Heljarkambinum og Kattarhrygginum naut ég þess að geta þetta og sigra mína ótta“ á mbl.is 2019.

Orðin hræðsla og fælni eru yfirleitt ekki notuð í fleirtölu frekar en ótti, en eins og við er að búast má samt finna slæðing af fleirtöludæmum um þau orð. Í Morgunblaðinu 1982 segir: „Þetta er ritgerð mín um undarlegar hræðslur“ (í myndasögu, þýðing á „strange phobias“). Í Morgunblaðinu 2017 segir: „Þú varðst opnari við mig, byrjaðir að tala um tilfinningar, drauma, þrár og hræðslur.“ Í Fréttablaðinu 2018 segir: „Þar hef ég náð góðum árangri, sem og með lofthræðslu og aðrar fælnir“ og „Það er líka þannig með fælnir að það er auðvelt að mæla árangurinn“. Í Vísi 2019 segir: „Sífellt fleiri einstaklingar líta nú á dáleiðslumeðferðir sem raunhæfan kost í því að losna við kvíða, þunglyndi, óæskilega ávana, fælnir o.s.frv.“

Hér hefur margoft verið skrifað um orð sem áður voru eingöngu höfð í eintölu en sjást nú iðulega í fleirtölu, síðast um orðið húsnæði. Oftast stafar breytingin af því að farið er að nota orðin um einstök afbrigði eða birtingarmyndir þess sem um ræðir – í þessu tilviki ótta, hræðslu eða fælni. En mörg orð hafa breyst á sama hátt á undanförnum árum, jafnvel án þess að við höfum tekið eftir því. Orðið fíkn var fram á níunda áratuginn nær eingöngu notað í eintölu og er sýnt þannig í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, en fáum öðrum en Málfarsbankanum kemur nú til hugar að gera athugasemdir við fleirtöluna fíknir. Vel má vera að ýmsir óttar, hræðslur og fælnir þróist á sama hátt – það er ekki óeðlilegt þótt auðvitað þurfi að venjast því.

Posted on Færðu inn athugasemd

Notum íslensku ef það er mögulegt

Talsverðar umræður hafa orðið um skrif mín hér í gær um sölusíðu á Facebook sem er eingöngu á ensku, og þar sem allar pantanir og önnur samskipti fara fram á ensku. Ég vil taka fram að með því að segja þetta vera á gráu svæði, og vísa í tiltekna lagagrein, átti ég við að þetta færi gegn anda laganna að mínu mati. En eins og bent var á í umræðum er auðvitað hægt að skilgreina markhóp að vild, og auk þess telur Facebook sig væntanlega ekki þurfa að hlíta íslenskum lögum, þannig að ég geri ekki ráð fyrir að síðan brjóti nokkur lög. Enda hef ég enga trú á því að íslenskunni verði viðhaldið með lögum. Hún lifir því aðeins að málnotendur vilji það, vinni að því, og noti hana þegar kostur er, og það var einmitt ástæða skrifa minna.

Það sem ég vildi fyrst og fremst vekja athygli á, og umræður um, var að þarna eru Íslendingar í stórhópum að panta á ensku – á síðu sem augljóslega er einkum beint að Íslendingum, enda þótt hún sé á ensku. Er það eðlilegt – eigum við að gera kröfu um að geta notað íslensku í viðskiptum á Íslandi? Eða er alltaf sjálfsagt að nota ensku af minnsta tilefni – eða jafnvel að tilefnislausu? Erum við kannski komin í þá stöðu að enskan gengur alltaf, íslenskan bara stundum? Eftir því sem þeim tilvikum fjölgar þar sem við notum ensku finnst okkur það sjálfsagðara og eðlilegra – hættum smám saman að prófa að nota íslensku í ýmsum aðstæðum, og hættum á endanum að taka eftir því hvort við erum að nota íslensku eða ensku.

Ég veit vel að þetta er viðkvæm umræða sem auðveldlega snýst upp í – og auðvelt er að snúa upp í – einhvers konar útlendingaandúð. Það má ekki gerast, og við megum ekki gera óraunhæfar eða ómálefnalegar kröfur um íslenskukunnáttu til fólks sem hingað flyst, eða halda því niðri vegna skorts á íslenskukunnáttu. Ábyrgðin liggur fyrst og fremst hjá okkur sem eigum íslensku að móðurmáli – það er okkar að halda íslenskunni á lofti, nota hana þar sem kostur er, og auðvelda innflytjendum að læra hana og nota. En mér finnst ekki ómálefnalegt að koma því á framfæri við fólk sem stundar viðskipti eða þjónustustörf að okkur finnist skipta máli að geta átt samskipti á íslensku, og metum það mikils ef okkur er gert það kleift.

Í umræðum var nefnt að fólki fyndist væntanlega skrítið að eiga samskipti á tveimur tungumálum og vegna þess að umrædd síða væri á ensku skrifi fólk þar sjálfkrafa á ensku. Það er örugglega rétt en þá má hafa í huga að innflytjendur skilja oft miklu meira í íslensku en þeir treysta sér til að tala eða skrifa – eins og raunar kemur fram í samskiptum á síðunni. Ég held einmitt að það sé mikilvægt að við venjum okkur á tvímála samskipti – prófum alltaf að nota íslensku og höldum því áfram ef við sjáum að það skilst, en kippum okkur ekkert upp við þótt svarað sé á ensku. Þannig veitum við fólkinu þjálfun í íslensku og hvetjum það til að reyna sjálft að nota málið í stað þess að koma þeirri hugmynd inn hjá fólki að enska sé alltaf sjálfsögð.

Posted on Færðu inn athugasemd

Andvaraleysi gagnvart ensku

Mér var bent á síðu á Facebook sem heitir East Iceland Food Coop og er kynnt þannig: „We are importing fresh organic produce directly to East Iceland, and distribute all over the country.“ Þarna getur fólk sem sé pantað grænmeti og ávexti og fengið afhent víða um land, og þetta virðist vera mjög vinsæl þjónusta. Ég finn engar upplýsingar um aðstandendur síðunnar en vegna þess að hún er eingöngu á ensku finnst mér líklegt að það sé fólk sem ekki er íslenskumælandi. Það er a.m.k. á gráu svæði að hafa slíka síðu eingöngu á ensku – þetta hlýtur að teljast auglýsingasíða og í Lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu segir í 6. grein: „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.“

Það sem mér fannst samt umhugsunarverðast er að langflestar pantanir eru líka á ensku, enda þótt það séu Íslendingar sem eru að panta. Stöku sinnum bregður þó fyrir pöntunum á íslensku og þeim er svarað (á ensku) þannig að ljóst er að þau sem sjá um síðuna skilja íslensku. Hvernig stendur á því að við látum bjóða okkur það að gera pantanir á ensku, á síðu sem gefur sig út fyrir að vera íslensk og dreifir vörum á Íslandi? Af hverju finnst okkur ekki sjálfsagt að nota íslensku? Þetta er einstaklega gott – eða öllu heldur vont – dæmi um meðvitundarleysi okkar gagnvart enskunni í umhverfinu. Við getum þusað um enskunotkun unglinga og fólks í þjónustustörfum en lúmskustu áhrif enskunnar felast í andvaraleysi okkar sjálfra.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að ausa

Í hópnum Skemmtileg íslensk orð sá ég að bent var á Facebook-færslu um mann sem „ausar heita súkkulaðinu á könnur“. Höfundur innleggsins taldi að þarna ætti fremur að vera eys en ausar, og vissulega er það hin hefðbundna og viðurkennda beyging sagnarinnar ausa. Þessu fylgdu svo hinar venjulegu, lítt uppbyggilegu og kolröngu athugasemdir um að fólk kynni ekki að beygja lengur, ekkert væri lengur kennt í skólum, það mætti ekkert leiðrétta lengur, beygingar væru að fara úr tísku, þetta væri eins og smábarn að tala o.s.frv. Í staðinn fyrir að taka undir með þeim kór skulum við skoða aðeins beygingu sagnarinnar ausa og velta fyrir okkur hvers vegna myndir eins og ausar komi upp í stað hefðbundinna mynda.

Sögnin ausa er sögulega séð ein svonefndra tvöföldunarsagna en í nútímamáli er ástæðulaust að greina þær frá sterkum sögnum. Þessar sagnir eiga það sameiginlegt að mynda þátíð með hljóðbreytingum (hljóðskiptum) í stofni en ekki með sérstakri þátíðarendingu, -ði, -di eða -ti. Auk þess eru oft ýmsar hljóðbreytingar í nútíðarbeygingu sagnanna. Þannig er ey- í stað au- í framsöguhætti eintölu af ausa (ég eys þú eyst hann/hún/hán eys). Í framsöguhætti eintölu í þátíð kemur jó- í stað au- (ég jós þú jóst hann/hún/hán jós), og í fleirtölunni kemur ju- í staðinn (við jusum þið jusuð þeir/þær/þau jusu). Þessi hljóðavíxl eru ekki algeng en sagnirnar auka og hlaupa beygjast þó eins (nema hlaupa hefur nú hlupum í stað hljópum).

Fáein dæmi er hægt að finna um reglulega beygingu sagnarinnar ausa, þó nær eingöngu á samfélagsmiðlum. Meðal örfárra dæma úr formlegra máli má nefna „Drogba ausar lofi yfir Essien“ í Vísi 2006, og „þáttarstjórnandi þáttarins […] ausaði aðeins úr brunni sínum“ í Vísi 2016. Alls eru um 40 dæmi um reglulegar persónuháttarmyndir ausa í Risamálheildinniausa og ausar í stað eys, ausaði í stað jós, ausaðir í stað jóst og ausuðu í stað jusu. Lýsingarhátturinn sker sig svo úr – hátt í 40 dæmi eru um veiku myndina ausað í stað sterku myndarinnar ausið, það elsta í Morgunblaðinu 1999: „Húsið tók ekki nema um klukkustund að brenna til grunna þótt að vatni hafi verið ausað á það.“ Sennilega stafar þetta af því hversu líkar myndirnar eru.

En framsöguháttarmyndirnar eru samt ekki það flóknasta í beygingu sagnarinnar ausa. Í athugasemd í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir: „Í Stafsetningarorðabókinni (2016) er viðtengingarháttur þátíðar af sögninni ausa hafður ysi. Hjá Valtý Guðmundssyni (Islandsk grammatik 1922) er þriðja kennimynd jusum (usum) og viðtengingarháttur þátíðar jysi (ysi). Í Ritmálssafni, Íslensku textasafni og Risamálheildinni eru dæmi um báðar beygingarmyndirnar í viðtengingarhætti þátíðar.“ Sömu tilbrigði koma fram í beygingu sagnarinnar auka. Mér finnst bæði jysi og ysi koma ankannalega fyrir sjónir enda eru allar þessar myndir ákaflega sjaldgæfar – virðast vera innan við tíu dæmi um þær samtals í Risamálheildinni, flestar með ju-/jy-.

Það er ekkert undarlegt að sögn með svona fjölbreytta og flókna beygingu hafi tilhneigingu til að einfaldast, og vitanlega eru ýmis dæmi um að sagnir sem voru sterkar í fornu máli hafi nú fengið reglulega beygingu eða sýni tilhneigingar til þess. Ýmis dæmi um þetta eru fullkomlega viðurkennd og sterka myndin horfin úr málinu – hjálpaði er komið í stað halp, bjargaði í stað barg, blandaði í stað blett o.fl. Nýlega var hér líka skrifað um myndina bjóu í stað bjuggu sem stundum bregður fyrir, en búa er einmitt tvöföldunarsögn eins og ausa og beygist svipað. En reglulega beygingin af ausa virðist vera mjög sjaldgæf, enn sem komið er að minnsta kosti, og þess vegna eðlilegt að sporna við henni og reyna að halda í hefðbundna beygingu sagnarinnar.