Mikilvægi jákvæðrar umræðu

Í þessum hópi er lagt bann við athugasemdum um málfar og málnotkun einstaklinga og hópa. Til að sýna hvað ég vil forðast með þessu langar mig að rifja upp nokkur dæmi um athugasemdir úr öðrum málfarshópum. Fyrsta dæmið er frá því um daginn þegar slagorðinu Það sést hverjir drekka Kristal var breytt í Það sést hver drekka Kristal. Næsta dæmi er síðan rétt fyrir jól, þegar blaðakona á Morgunblaðinu notaði óvenjulega en rétta beygingarmynd (spúst) í frétt um eldgos við Sundhnúkagíg. Þriðja dæmið er nokkurra ára gamalt og kannski grófast. Það sýnir viðbrögð við innleggi um framburð tiltekins ráðherra á ákveðnu hljóðasambandi (rn) – þessi framburður er vissulega sjaldgæfur en þó er um vel þekkta mállýsku að ræða.

(1) „Þetta er kolruglað. Það er verið að stórskemma okkar fallega mál“; „Þetta er bara hallærislegt en það er kannski tískan í dag“; „Þessa bull málnotkun skal enginn maður fá mig til að nota“; „Alger fáviska; þetta er svo heimskulegt að engum tárum tekur, það á að nota óákveðna fornafnið rétt, annað er heimska“; „Ömurlegt“; „Alveg einstaklega hálfvitalegt, og getur hreinlega ekki verið málfræðilega rétt; skelfileg rétthugsunarhandaflsmálþróun“; „Þeir sýna íslensku máli lítilsvirðingu“; „Rétt ein málvillan; þetta er meira ruglið“; „Fáránlegt“; „Málfarsleg fátækt, eymd og volæði villuráfandi málvillinga“; „Sorglegt metnaðarleysi“; „Glatað“, „Algjört rugl“; „Hallærisleg aðför að tungumálinu“; „Asnalegt bara, smábarna mál“.

(2) „Unga fólkið er að meika það á Mogganum“; „Þvílíkt orðalag er þetta háskólamenntuð manneskja sem hefur slíkt orðalag“; „Nei nú er mér allri lokið, sá eða sú sem skrifaði þetta hefði ekki átt að komast upp úr fyrsta bekk“; „Úr hvaða skóla útskrifaðist hann?“; „Þetta lið er ekki talandi“; „Er ekki hægt að fá inn á fjölmiðla talandi fullorðið fólk. Eru þetta illa talandi/skrifandi krakkar í aukavinnu með skóla“; „Fara blaðamenn ekki i skóla?; algjörlega ómenntaðir dregnir beint upp úr fjóshaug“; „Eru blaðamenn ekki búnir að eyða meirihluta æfinnar í skóla en rita svona bull í opinberan fjölmiðil??“; „á hverju er þetta lið????“; „Þau eru 3gja að verða 5“; „Hvernig er hægt að birta svona frétt á „barnamáli“?“.

(3) „ekki boðlegt af menntamálaráðherra landsins“; „linmælgi“; „skrítið að heyra þetta latmæli“; „hefur ekki þótt til fyrirmyndar“; „snilld að hafa menntamálaráðherra sem er ekki talandi á eigin tungu“; „kann ekki að bera fram réttilega“; „svona mannvitsbrekkur eru við stjórnvölinn í menntamálum þjóðarinnar“; „bull og getuleysi“; „talkennarar og skólar […] hafa lausnir við svona málhelti“; „ambögur og málhelti“; „ekkert til sóma“; „ofreyni sig við að reyna að vanda sig“; „mögulegt að tunguhaft valdi þessum framburði hjá ráðherranum“; „afleitt að vera svona linmælt“; „klúðra svona feitt“; „of ung til að valda embættinu“; „stressast svona og gengur í barndóm þegar hún talar“; „menntamálaráðherra þjóðarinnar er ótalandi á eigin tungu“.

Þetta eru bara sýnishorn – í öllum tilvikum voru athugasemdir í sama dúr miklu fleiri. Það er ótrúlegt að einhverjum skuli finnast eðlilegt að skrifa á þann hátt sem þarna er gert, jafnvel um tiltekið nafngreint fólk og tengja málfar þess við meinta andlega og líkamlega ágalla – það er auðvitað mannfjandsamlegt og nálgast að vera meiðyrði. En þar fyrir utan á ég bágt með að sjá að orðfæri af þessu tagi sé íslenskri tungu til framdráttar, eða það sé hrein og skær ást á tungumálinu sem liggur þarna að baki. Aftur á móti veit ég fjölmörg dæmi um að svona umræða hefur hrakið fólk úr þeim hópum sem um er að ræða og fælt það frá þátttöku í málfarsumræðu. Ég er einn þeirra og orðræða af þessu tagi varð einmitt til þess að ég stofnaði þennan hóp.

Sumum finnst óeðlilegt að banna neikvæðar athugasemdir og umræðu í hópnum og eiga erfitt með að sætta sig við það, og svo leggur fólk vissulega mismunandi skilning í það hvað sé neikvætt. Það er ekki bannað að hrósa fólki, en að öðru leyti lít ég svo á að öll vísun í málfar og málnotkun tiltekinna einstaklinga og hópa sé óheimil vegna þess að þótt ekki sé endilega verið að amast við einhverju finnst fæstum þægilegt að verið sé að vekja athygli á málfari þeirra. Það er hins vegar oft hægt að vekja umræðu um tiltekin málfarsatriði með almennum spurningum með hlutlausu orðalagi í stað þess að hneykslast eða vísa í málfar einstaklinga, og það er í góðu lagi. Ef fólk sættir sig ekki við þetta er auðvelt að finna vettvang fyrir neikvæðni.