Þvoð

Í Málvöndunarþættinum sá ég vitnað í dæmi um lýsingarháttinn þvoð af sögninni þvo, og þótti ekki til fyrirmyndar. Það er vitanlega rétt að hefðbundinn lýsingarháttur sagnarinnar er þvegið, en þar með er ekki sagt að þvoð sé alveg út í hött. Þessi sögn er nefnilega ein þeirra sagna sem hafa breytt um beygingu og er ekki lengur sterk eins og hún var í fornu máli en þar beygðist hún í kennimyndum þvá þó þógum þvegið. Í nafnhættinum hefur breyst í vo eins og í flestum öðrum orðum með , og út frá þessum nýja nafnhætti hefur orðið til veika þátíðin þvoði. Nútíðin er aftur á móti ekki veika myndin þvoi eins og búast mætti við (nema í viðtengingarhætti) heldur ennþá þvæ, þar sem æ er i-hljóðvarp af hinu forna á í nafnhættinum.

Sterka myndin þvegið hefur líka haldist í lýsingarhætti þátíðar – og þó. Áður fyrr var myndin þvoð nefnilega algeng, og jafnvel aðalmyndin. Í Íslenzkum rjettritunarreglum sem hinn mikli málhreinsunarmaður Halldór Kr. Friðriksson gaf út 1859 eru myndirnar þvegið og þveginn nefndar sem dæmi um að bera skuli fram ei þótt ritað sé e, en í neðanmálsgrein við þessar myndir segir: „Líka er sagt þvoð, þvoður.“ Í Íslenzkri málmyndalýsingu sama höfundar frá 1861 er veika beygingin, þ. á m. lýsingarhátturinn þvoð, gefin sem aðalbeyging en í neðanmálsgrein kemur fram að sögnin beygist líka sterkt: „þvo, jeg þvæ, þó, þvægi, þvegið.“ Það er því ljóst að lýsingarhátturinn þvoð hefur verið mjög algengur á seinni hluta 19. aldar – og fram á þá 20.

Í Islandsk grammatik eftir Valtý Guðmundsson frá 1922 er bæði sterka og veika beygingin sýnd, en í neðanmálsgrein við þá sterku segir „Ogsaa (og hyppigst) svagt“, þ.e. „Einnig (og venjulega) veik“. En á þeim hundrað árum sem síðan eru liðin hefur myndin þvoð verið hrakin úr málinu að mestu. Engin dæmi eru um hana á tímarit.is þannig að trúlegt er að hún hafi einkum verið bundin við talmál – Jón G. Friðjónsson segir í Morgunblaðinu 2007: „Veika myndin þvoð er kunn úr talmáli en ekki styðst hún við málvenju.“ Vissulega hefur þessi mynd verið sjaldgæf síðustu áratugi, en hefur þó örugglega aldrei horfið alveg úr málinu – í Risamálheildinni eru tæp 50 dæmi um hana, öll af samfélagsmiðlum. Málvenjan er því sennilega órofin.

Þær sterku sagnir sem hafa orðið veikar á undanförnum öldum hafa flestar gengið alla leið, þ.e. allar myndir þeirra fara eftir hefðbundnu beygingarmynstri veikra sagna. Í mörgum tilvikum lifir sterki lýsingarhátturinn þó enn í sértækri merkingu – þótt bjargað, falið og hjálpað sé venjulegur lýsingarháttur sagnanna bjarga, fela og hjálpa eru myndirnar borgið, fólgið og hólpinn notaðar í ákveðnum orðasamböndum. Í samræmi við það mætti búast við að þvoð væri hinn venjulegi lýsingarháttur af þvo en þvegið væri notað í einhverjum orðasamböndum – en þannig er það ekki. Ég ætla ekki að mæla sérstaklega með myndinni þvoð en hún er ekki óeðlileg og á sér langa hefð í málinu – mér finnst sjálfsagt að sýna henni umburðarlyndi.