Enska í strætó, einu sinni enn

Áðan fór ég aldrei þessu vant í strætó þar sem ég tók meðfylgjandi mynd. Hún sýnir upplýsingamiða sem eru eingöngu á ensku. Á öðrum þeirra eru meira að segja mikilvægar öryggisupplýsingar. Ég hef margoft áður kvartað undan þessu við Strætó á undanförnum fimm árum og ýmist verið lofað bót og betrun eða ekki fengið nein svör. Það væri auðvitað sáralítið mál að útbúa miða með þessum upplýsingum á íslensku. Það er sjálfsagt að hafa þarna upplýsingar á ensku en það er hins vegar forkastanlegt og óafsakanlegt að þær skulu ekki vera á íslensku líka, sérstaklega þar sem um öryggisupplýsingar er að ræða. Þetta er líka í hrópandi ósamræmi við málstefnu Reykjavíkurborgar þótt hún taki strangt tekið ekki til Strætó.


Ég gerði eina tilraunina enn til að skrifa Strætó um þetta en á ekki von á því miðað við fyrri reynslu að það skili árangri. Einhverjum kann að finnast þetta smáatriði sem ekki sé ástæða til að gera veður út af en mér finnst þetta grafalvarlegt mál. Annaðhvort taka stjórnendur Strætó ekki eftir því að þetta er eingöngu á ensku eða hugsa ekki út í að það sé eitthvað athugavert við það – eða þeim er bara alveg sama. Hver sem skýringin er finnst mér þetta vera dapurlegt dæmi um undirlægjuhátt okkar og meðvitundarleysi gagnvart enskunni. Það er þeim mun verra sem þetta er fyrirtæki í opinberri eigu – ég veit að verktakar aka fyrir Strætó á ýmsum leiðum en það ætti að vera einfalt að setja þeim skilyrði um að hafa upplýsingar í vögnum á íslensku.