Nýjar sagnmyndir?

Í gær var spurt hér út í myndina hefurður sem fyrirspyrjandi hafði séð – og fleiri hliðstæðar – þar sem búast mætti við hefurðu í þýddri bók frá 1974. Ég hef aldrei tekið eftir þessu áður en við nánari athugun kemur í ljós að töluvert af dæmum má finna um myndir af þessu tagi. Það elsta sem ég rakst á í fljótu bragði er „Hvað ætlarður þjer þá að gera?“ í Vestra 1904. Í Morgunblaðinu 1918 segir: „Hvað viltur sagði John Francis.“ Í Lögbergi 1923 segir: „hefurður nokkra hugmynd um hvað mikið hann varðar mig?“ Í Morgunblaðinu 1974 segir: „Geturður gefið þér tíma til að hafa áhugamál utan starfsins?“ Eitt og eitt slíkt dæmi gæti verið prentvilla, en dæmin á tímarit.is skipta hundruðum þannig að hér er greinilega eitthvað meira á ferðum.

Í flestum þessum dæmum er um spurningar að ræða, en einnig er nokkuð af dæmum um fullyrðingarsetningar þar sem annar liður en frumlag fer á undan sögn, t.d. „viljirðu hana ekki, þá geturður farið“ í Þjóðviljanum 1948, „kannski hefurður rétt fyrir þér“ í Þjóðviljanum 1973, „Síðan geturður hirt dótið þitt og farið heim“ í Tímanum 1970, o.fl. En ekki nóg með það – einnig má finna ýmis dæmi um að -r sé bætt við boðháttarmyndir sagna sem einnig enda á -ðu (eða -du eða -tu eftir stofngerð), t.d. „Farður hægar, Haukur“ í Dvöl 1935, „Láttur nú sjá, að þú hafir lært að stjórna skapi þínu“ í Sunnudagsblaði Tímans 1973, „Nei, komdur sæll og blessaður“ í Foringjanum 1975, „Ég ílendist hér austur frá, vertur viss“ í Vikunni 1974, o.m.fl.

Eins og sjá má í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar eru myndir af þessu tagi talsvert algengar í óformlegu máli á 21. öld, og þar koma ýmsar sagnir við sögu. Nefna má „Veistur hvað aðföng til landbúnaðarins kosta í gjaldeyri?“ á Málefnin.com 2013, „Vertur góður sonur eða dóttir“ á Twitter 2015, „Hafður samband við næsta byggingarverktaka!“ á Bland.is 2007, „Gerður þetta bara sjálf“ á Málefnin.com 2013, „Farður til heimilislæknisins þíns og láttu líta á þetta“ á Hugi.is 2007, „Komdur á facebook“ á Twitter 2015, „Talaður við fagfólk og reyndu að slaka á“ á Bland.is 2003, „Láttur endilega kíkja á þig“ á Bland.is 2013, „Kallaður mig crazy“ á Bland.is 2014, „Finndur þér öruggari og hraðvirkari vafra“ á Málefnin.com 2005, o.m.fl.

Í fljótu bragði virðist þetta mjög undarleg breyting. Viðbótin -ðu (eða ­-du eða -tu) í spurnar- og boðháttarmyndum er komin af annarrar persónu fornafninu þú og þar á því ekkert -r heima. Forsendan fyrir því að -r sé bætt við hlýtur því að vera að tengsl -ðu við þú í huga málnotenda hafi dofnað. Það er svo sem ekki óhugsandi því að þarna er bæði skipt um samhljóð og sérhljóð, ð sett í stað þ og u í stað ú, og þótt þar sé vissulega um lík hljóð að ræða er hugsanlegt að einhverjir málnotendur átti sig ekki á tengslunum og -ðu sé fyrir þeim eins og hver önnur sagnending, án tengsla við þú. En þótt þetta hugsanlega tengslarof sé nauðsynleg forsenda fyrir -r-viðbótinni er það ekki nægjanleg forsenda – skýrir sem sé ekki hvers vegna -r er bætt við.

Án þess að ég viti það með vissu held ég að þessar -r-myndir hljóti á einhvern hátt að eiga rætur í þeirri hugmynd – eða tilfinningu – eða vitneskju – málnotenda að stundum eigi að skrifa r í lok orða eða orðhluta þótt það heyrist ekki í framburði. Það er alkunna að í samsettum orðum er oft á reiki hvort r á að vera á skilum samsetningarliða eða ekki og sú óvissa leiðir oft til þess að málnotendur skrifa r þar sem það á ekki að vera – þekkt dæmi um það er mánaða(r)mót. Ég efast um (án þess að geta fullyrt nokkuð um það) að framangreindar sagnmyndir séu bornar fram með -r í lokin þótt það sé skrifað en r-ið sýnir hins vegar hugmyndir þeirra sem skrifa það um gerð þessara sagnmynda – þau skilja þær þannig að þær eigi að enda á -ður frekar en -ðu.

Þótt það hvarfli ekki að mér að um ensk áhrif sé að ræða væri freistandi að reyna að tengja þetta -r-innskot við það sem á ensku heitir linking r eða intrusive r. Þetta er þekkt fyrirbæri í ensku sem felst í því að r-hljóði er skotið inn milli sérhljóða til að forðast svokallað hljóðgap (hiatus). Í sumum tilvikum á þetta r sér sögulegar rætur og er táknað í stafsetningu en aðeins borið fram ef sérhljóð fer á eftir og þá er talað um linking r, en í öðrum tilvikum er því skotið inn án þess að það eigi sér aðrar forsendur en hljóðfræðilegar, og þá er það kallað intrusive r. En í íslensku sagnmyndunum kemur -r fram óháð því hvort eftirfarandi orð hefst á sérhljóði, auk þess sem óvíst er að það sé yfirleitt borið fram eins og áður segir. Það er því væntanlega annars eðlis.

Að lokum má spyrja hvort þetta sé dæmi um málbreytingu sem sé í gangi og að breiðast út, en ég efast um að svo sé. Eins og hér hefur komið fram eru dæmi um þetta allt frá upphafi 20. aldar en það er athyglisvert að stór hluti dæma um hefurður og geturður sem eru langalgengustu myndirnar af þessu tagi á tímarit.is er frá níunda áratug síðustu aldar – dæmum um -r-myndir í formlegu máli virðist hafa fækkað talsvert á seinni árum. Fjöldi dæma af samfélagsmiðlum sýnir vissulega að þessar myndir eru sprelllifandi en ég hef á tilfinningunni að þarna sé fremur um að ræða afleiðingar af samspili breyttrar skynjunar einstakra málnotenda á viðbótinni -ðu og óvissu um ritun r í lok orða en raunverulega málbreytingu. En þetta eru bara getgátur.