Nærrum því

Í Málvöndunarþættinum sá ég vitnað í auglýsingu á Facebook-síðu útvarpsstöðvarinnar X977 þar sem stóð „mugison og 10 hlutir sem að skipta honum nærrum því öllu máli!“. Væntanlega hefur það verið m.a. orðið nærrum sem vakti athygli þess sem benti á þetta og vissulega mætti búast við að þarna stæði frekar nærri því – og það segir Mugison greinilega í myndbandi sem fylgir Facebook-færslunni. Orðið nærrum finnst hvergi í orðabókum eða mállýsingum, hvorki sem uppflettiorð né beygingarmynd – aðeins nærri og næstum. Ég hélt fyrst að þarna væri um tilviljanakennda villu af einhverju tagi að ræða en við nánari athugun kom í ljós að nærrum hefur tíðkast að einhverju leyti undanfarin tuttugu ár eða meira og verður sífellt algengara.

Elsta dæmi um nærrum á tímarit.is er í Fréttablaðinu 2003: „Lance Bass, söngvari *Nsync sem komst nærrum því upp í geim.“ Í Orðlaus 2004 segir: „Þú þarft að hlaupa á milli og kemst ekki á nærrum því alla staðina sem þú ert beðin um að fara á.“ Í DV 2009 segir: „Gengið á síðasta tímabili var hins vegar ekki nærrum því jafn gott.“ Í DV 2014 segir: „Hann tefldi sjálfur með landsliðs Íslands í nærrum því tuttugu ár.“ Í Morgunblaðinu 2016 segir: „Fyrir því hefur frelsi þjóðarinnar og sú barátta sem háð var til að ná því marki verið nærrum því áþreifanlegt.“ Alls eru 16 dæmi um nærrum á tímarit.is, öll nema eitt í sambandinu nærrum því – í Bæjarins besta 2007 segir: „Tófan er orðin svo skæð að hún er nærrum búin að útrýma mófuglinum.“

Eins og oftast er með nýjungar eru dæmin í Risamálheildinni margfalt fleiri. Elsta dæmið þar um nærrum er á Hugi.is 2001: „ég er að fara að fá mér Parasound pre- og poweramplifier […] sem er ekki einu sinni í nærrum því öllum bíóum! Á samfélagsmiðlunum Hugi.is, Bland.is og Málefnin.com hefur orðmyndin nærrum verið notuð alveg frá upphafi miðlanna á árunum upp úr aldamótum, og fjöldi dæma á þessum fyrstu árum bendir til þess að þessi orðmynd hafi þegar verið komin í verulega notkun um aldamót. Alls eru um 1250 dæmi um nærrum í Risamálheildinni, langflest á samfélagsmiðlum eins og við er að búast en þó eru tæp 100 dæmi úr öðrum textum. Ásamt dæmum af tímarit.is sýnir það að orðið er komin inn í formlegra mál.

Atviksorðin nærri og næstum merkja það sama, 'nánast alveg' (þótt nærri geti einnig haft aðrar merkingar) og sama máli gegnir um samböndin nærri því og næstum því sem eru sjálfstæðar flettur í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrð hvort með öðru. Það liggur beint við að telja að þessum tveim orðum eða samböndum hafi slegið saman í nærrum (því) – seinna atkvæðið í nærri í sambandinu nærri því er líka oft ógreinilegt í framburði og hugsanlegt að skynja orðið sem nærrum. Í sjálfu sér er nærrum ekkert óeðlilegra en næstum sem komið er úr næst um, og þar sem það er orðið a.m.k. aldarfjórðungs gamalt í málinu og komið í töluverða notkun sé ég enga sérstaka ástæðu til að amast við því – þetta eru engin alvarleg málspjöll.