Posted on Færðu inn athugasemd

Þau hnerruðust á

Í gær var hópverji að velta fyrir sér hlutverki atviksorðsins á í orðasamböndum með sögn í miðmynd – fljúgast á, kveðast á, skrifast á og takast á – sem ættu öll við „um einhverskonar glímu eða keppni“. Ýmis fleiri sambönd af þessu tagi eru til í málinu, misjafnlega algeng – í Risamálheildinni fann ég í fljótu bragði tíu, auk áðurnefndra fjögurra: hringjast á, hvíslast á, kallast á, kankast á, sendast á, skiptast á, stangast á, togast á, vegast á, ýtast á. Í öllum þessum samböndum er á atviksorð en ekki forsetning – tekur ekki með sér neitt fallorð. Þess vegna eru t.d. fallast á og ráðast á annars eðlis – þar verður eitthvert fallorð að koma á eftir á (fallast á tillöguna, ráðast á óvininn). Reyndar getur skiptast á tekið fallorð í svolítið annarri merkingu.

Þessi sambönd fela ekki endilega í sér neina keppni en einhvers konar gagnkvæmni er sameiginleg þeim öllum – tveir þátttakendur framkvæma sömu aðgerð sem beinist á einhvern hátt að eða gegn hinum þátttakandanum sem þarf þá að gjalda í sömu mynt. Ef ég flýg á þig flýgur þú á mig á móti – við fljúgumst á. Ef ég hvísla til þín hvíslar þú til mín á móti – við hvíslumst á. Ef ég yrki eða fer með vísu og beini til þín verður þú að svara á sama hátt – við kveðumst á. Ef ég sendi þér tillögu gerir þú athugasemdir við hana og sendir mér – við sendumst á. Ef ég moka snjó í smátíma, svo tekur þú við, og svo ég aftur, mokum við til skiptis – við skiptumst á. Ef við glettumst svolítið hvort við annað erum við að kankast eitthvað á. O.s.frv.

Höfundur áðurnefnds innleggs nefndi að ekki væri talað um að syngjast á, né heldur að sparkast á í fótbolta. En um hvort tveggja eru þó til nokkur dæmi. Í Ísafold 1892 segir: „þegar þau syngjast á, Vermundur og hún, hefir hún allt af sömu tilburðina upp aptur og aptur“ og í Vísi 1981 segir: „Sparkast á við Skota á sunnudag.“ Ýmsar fleiri sagnir er hægt að nota á þennan hátt. Í Morgunblaðinu 2002 segir: „þið töluðust á og greinduð hvað væri líklega að.“ Í Þjóðviljanum 1966 segir: „drukknuðu yfirheyrslurnar í hrópum og köllum þar sem vitnin og formaður nefndarinnar æptust á.“ Í Unga Íslandi 1937 segir: „Þeir fara allir saman í bendu og byrja að hrindast á.“ Ekkert af þessu er algengt en þetta eru þó ekki eindæmi.

Ég held sem sé að þessi formgerð sé lifandi og virk en ekki bundin við einhverjar tilteknar sagnir, heldur getum við sett inn í hana ýmsar – kannski flestar – sagnir sem geta fallið undir lýsinguna hér að framan á athöfnum sem fólk framkvæmir til skiptis, hvert gegn öðru. Í leikdómi í Þjóðviljanum 1991 fann ég eftirfarandi lýsingu: „Til dæmis um þetta má taka litla senu, seint í verki Magnúsar, þar sem greifafjölskyldan situr og spilar á spil og hnerrar. Helgi og friður heimilisins hafa verið endurreist og árangurinn er spilamennska og hnerrar með fínni tímasetningu og nánum tengslum, í því hvernig leikararnir hnerrast á.“ Ef Ragnar Kjartansson hefði hrækt til baka á móður sína í frægu listaverki hefði mátt segja þau hrækjast á.

Vitanlega er það samt þannig að sum þessi sambönd eiga sér fastan sess í málinu, eins og þau sem nefnd voru í upphafi, en önnur eru sjaldgæfari og jafnvel einnota – og e.t.v. stundum notuð í hálfkæringi. En fyrir utan gagnkvæmnina er það sameiginlegt með þessum samböndum að sagnirnar sem um er að ræða eru annars sjaldan eða aldrei notaðar í miðmynd, nema þá í annarri merkingu. Þannig getur sendast t.d. merkt 'fara í sendiferðir' og 'fara hratt, hlaupa' en það er önnur merking en í sendast á, og kveðast getur merkt 'segjast' en það er önnur merking en í kveðast á. En stundum er gagnkvæmnin innifalin í miðmyndinni einni og sér og þá er á ofaukið – við segjum ekki *berjast á, *kyssast á, *hittast á, *mætast á o.fl.

Posted on Færðu inn athugasemd

Tökuorð eru ekki með lík í lestinni

Í gær skrifaði ég hér um lýsingarorði vanskapaður og önnur orð með forskeytinu van- og benti á að þau hafa oft neikvæðan og jafnvel niðrandi blæ og eru því óheppileg í vísun til fólks. Í athugasemd var nefnt að ýmis dæmi sýndu að það skipti ekki máli þótt nýtt orð sé tekið upp í stað orðs sem er notað á þennan hátt – nýja orðið fái fljótlega á sig sama neikvæða stimpilinn og það eldra. Skynsamlegra sé fyrir þá hópa sem þessi orð eru notuð um að gera eins og hommar gerðu á sínum tíma með orðið hommi sem áður var mjög neikvætt en er nú viðurkennt og hlutlaust orð. Fólkið þurfi sem sé að taka orðin sem um er að ræða upp á sína arma og nota þau um sjálft sig. Þetta eru rök sem oft heyrast í þessu máli en hér er ekki allt sem sýnist.

Það er alveg rétt að þetta tókst á endanum hjá hommunum, sem eiga heiður og hrós skilið fyrir þrautseigjuna í baráttu sinni fyrir þessu orði. En þegar því er haldið fram að aðrir hópar jaðarsettra geti fetað í fótspor þeirra gleymist eitt mjög mikilvægt – að þótt orðið hommi sé löngu orðið fullgilt íslenskt orð er það ekki íslenskrar ættar og á sér enga ættingja í málinu sem hægt sé að tengja það við. Þess vegna va hægt að breyta merkingu þess – það sat ekki uppi með nein lík í lestinni. Ég fullyrði að það hefði verið útilokað – og engum hefði dottið í hug – að taka orðið kynvillingur upp á sína arma á sama hátt og gera að hlutlausu orði, vegna þeirra hugrenningatengsla sem það hefur óhjákvæmilega við orðin villa, villtur, villingur o.fl.

Annað dæmi sem er að nokkru leyti hliðstætt er lýsingarorðið döff sem er notað um fólk „sem tilheyrir samfélagi heyrnarlausra og hefur táknmál sem fyrsta mál“ segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. Orðið er í raun tökuorð úr íslenska táknmálinu (en ekki úr ensku eins og oft er talið) og stundum er amast við því þar sem það sé ekki íslenska og falli ekki vel að málinu því að það beygist ekki. Það er oft litið á þetta orð sem samheiti við heyrnarlaus en það er ekki nákvæmt eins og segir á heimasíðu Félags heyrnarlausra: „Samsömun og sjálfsmynd eru mikilvægir þættir í þessu samhengi. Að vera döff er því menningarleg skilgreining á heyrnarleysi.“ Fólk getur verið heyrnarlaust án þess að vera döff og öfugt.

En ástæðan fyrir því að nota döff frekar en heyrnarlaus er væntanlega einnig hliðstæð ástæðunni fyrir því að nota hommi frekar en kynvillingur – orðið heyrnarlaus felur í sér einhverja vöntun eða galla. Í grein sem skólastjóri Vesturhlíðarskóla skrifaði þegar nafni skólans var breytt úr Heyrnleysingjaskólinn leggur hann áherslu á að nafnbreytingin sé „síður en svo gerð til þess að forðast orðið heyrnarlaus. Þó einhverjir kunni að líta á það heiti sem óæskilega aðgreiningu, stimplun eða brennimerkingu […].“ En “leysingja”-endingin þykir nú orðið bæði neikvæð og niðrandi og æ færri taka sér hana í munn“ segir hann einnig. Þarna kemur skýrt fram að orðin heyrnarlaus og heyrnleysingi hafa neikvæðar tengingar sem orðið döff er laust við.

Þótt inngilding orðanna hommi og döff í íslenskt mál og málsamfélag sé ekki að öllu leyti sambærileg eiga orðin það sameiginlegt að þau eru í málinu á eigin forsendum en þurfa ekki að burðast með stóran hóp skyldra og tengdra orða sem móti meðvitaðar og ómeðvitaðar hugmyndir okkar um þau. Þess vegna var hægt að breyta hommi úr neikvæðu skammaryrði í hlutlaust eða jákvætt orð, og þess vegna er döff hlutlausara og þar af leiðandi heppilegra orð en heyrnarlaus. Hið margrómaða gagnsæi íslenskunnar sem felst í því „að orðið sé lýsandi og hægt sé að lesa út úr orðinu merkingu þess eða a.m.k. vísbendingu um merkingu þess“ er oft kostur en eins og ég hef skrifað um er það líka oft til vandræða. Orðin hommi og döff eru frjáls.

Posted on Færðu inn athugasemd

Viljum við láta kalla okkur vansköpuð?

Fjöldi íslenskra orða byrjar á van-. Í Íslenskri orðsifjabók segir að þetta sé „alg[engur] forliður neikvæðrar merkingar“ og í Íslenskri nútímamálsorðabók segirvan- sé „fyrri liður samsetninga sem táknar vöntun eða neitun“. Í Íslenskri orðabók er merking forskeytisins brotin upp í tvennt – 'ekki nóg, ófullnægjandi' eins og í vanhirða, vanhæfur, vanefndir, vanræksla, vannærður, vansvefta, vanborga, vanþakka; og 'mis-, rang-, illa' eins og í vansköpun, vanvirða, vanskapaður, vansæmandi, vanhelga, vanprýða. Það sem hér vekur athygli og skiptir máli er sú neikvæða ára sem er yfir flestum þessum orðum – þau fela ekki eingöngu í sér vöntun eða neitun, heldur hafa á sér neikvæðan blæ og lýsa jafnvel stundum skömm eða fyrirlitningu.

Eitt þeirra orða sem þarna eru nefnd er lýsingarorðið vanskapaður sem skýrt er 'með (sýnilegan) fæðingargalla' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'ekki rétt skapaður, með skakkt eða óeðlilegt sköpulag' í Íslenskri orðabók. Það er gamalt í málinu, kemur fyrir í Guðbrandsbiblíu frá 1584, og hefur lengi verið algengt þótt e.t.v. sé eitthvað að draga úr tíðni þess. Skylt því eru nafnorðin vansköpun sem skýrt er 'afbrigðileg myndun eða þroski tiltekins líkamshluta' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'galli, lýti, vanskapnaður' í Íslenskri orðabók, sem og vanskapningur sem skýrt er 'vanskapað dýr eða maður; afskræmd vera' í Íslenskri nútímamálsorðabók og notað sem samsvörun við enska orðið monster í orðasafninu „Læknisfræði“ í Íðorðabankanum.

Ég fór að hugsa um þetta í tengslum við herferðina „Orðin okkar“ sem Jafnréttisstofa stendur fyrir „til að hvetja fólk til umhugsunar um áhrifamátt orða sinna. Orð geta sært, sundrað og brotið niður en þau geta einnig nært, huggað og sameinað“. Ég veit ekki hvort orðin vanskapaður og vansköpun eru notuð mikið um og við fólk núorðið. Ég vona ekki, en er hræddur um að þau séu stundum notuð til að niðurlægja fólk – „þá ertu vanskapaður hálviti verð ég að seigja“ segir á Hugi.is 2001; „djöfull ertu vanskapaður“ á sama miðli 2002; „ert þú eitthvað vanskapaður í hausnum?“ á sama miðli 2005; „troðið þessu inní vanskapaða hausinn á ykkur“ á Bland.is 2010; „shit, þú ert vansköpuð“ á sama miðli sama ár – og margt fleira.

Ég veit um mann sem fæddist með ákveðna fötlun sem olli honum ýmsum óþægindum og hugarangri. Þegar efnt var til leitar að fegursta orðinu í íslensku fyrir tíu árum sagðist hann ekki vera í vafa um hvaða orð hann myndi velja sem ljótasta orð málsins. Það var lýsingarorðið vanskapaður. Þetta orð heyrði hann stundum notað um sjálfan sig þegar hann var barn og tengir ýmsar óþægilegar minningar við það – sem er ekkert undarlegt í ljósi þess sem sagt er hér að framan um orð af þessu tagi. Auðvitað var ekkert illt á bak við notkun þessa orðs – þetta var bara það orð sem fólk á þessum tíma þekkti og notaði um meðfædda fötlun og vitanlega hvarflaði ekki að neinum að verið væri að meiða barnið með því. Nú vitum við betur.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að krefjast þjórfés

Í frétt á mbl.is um helgina stóð „Sjálfsafgreiðsluvélar krefjast þjórfés“. Þarna er um að ræða samsetningu af hvorugkynsorðinu og þótt hvorugkynsorð fái venjulega endinguna -s í eignarfalli eintölu er undantekning – af sögulegum ástæðum beygist það venjulega óreglulega og er fjár í eignarfalli þannig að þarna hefði mátt búast við myndinni þjórfjár. Það er þó ekki einsdæmi að fái reglulega beygingu – elsta dæmi um fés í Ritmálssafni Árnastofnunar er frá 17. öld. Í Íslenzkri málmyndalýsingu eftir Halldór Kr. Friðriksson frá 1861 segir: „fje er […] óreglulegt í eig.eint. er það er þar fjár; þó er myndin fjes til, en miklu óvanalegri.“ Í Islandsk Grammatik Valtýs Guðmundssonar frá 1922 segir: „fje […] (G.Sg. fjár […] og (sj.) fjes.“

Þótt bæði þessi rit telji myndina fés sjaldgæfa er hún nefnd þar án fordæmingar og gömul dæmi um hana má finna á tímarit.is, en hún hefur þó lengi verið talin röng. Í Málfarsbankanum segir: „: Eignarfallið er ekki „fés“, með greini „fésins“, sbr. fjármálaráðherra en ekki „fésmálaráðherra“.“ Þetta vísar til þess að fyrir um 40 árum notaði þáverandi fjármálaráðherra eignarfallsmyndina fés í ræðu og var eftir það uppnefndur fésmálaráðherra. Jón G. Friðjónsson taldi þessa beygingu orðsins ótvírætt ranga í Morgunblaðinu 2008 en sagði: „Beyging þess er að ýmsu leyti alveg einstök og því bregður óreglulegum myndum alloft fyrir.“ Gísli Jónsson sýndi notkun myndarinnar fés nokkurn skilning í þætti sínum í Morgunblaðinu 1980 og sagði:

„Hinu er ekki að neita, að orðið fé er býsna sérstakt. Það er eina hvorugkynsorðið í íslensku, þeirra er hafa sterka beygingu, sem ekki endar á s í eignarfalli, er því í sama beygingarflokki og hönd og köttur (u-stofn). Þar af kemur hið sérkennilega eignarfall sem var fé-ar, sbr. hand-ar og katt-ar. Orðmyndin féar breyttist síðar í fjár […]. En mikil vorkunn má það vera fólki að vilja hafa s í eignarfalli þessa orðs, svo sem er í öllum öðrum sterkum hvorugkynsorðum. Mér er nær að halda að orðmyndin fjár hefði alveg glatast og eignarfallið hefði með áhrifsbreytingu orðið fés, ef danska tökuorðið fés í merkingunni andlit (óvirðuleg merking) hefði ekki fyrir guðs miskunn komið í veg fyrir þessa breytingu með tilveru sinni.“

Eignarfallsmyndin fés kemur ekki síður fyrir í samsetningum eins og þjórfés sem vitnað var til í upphafi – á Vísi 2017 segir t.d.: „Vegna þjórfés fá þjónar oftast mun hærri laun en hámenntaðir kokkar.“ Það er athyglisvert hvað hlutfall „röngu“ myndarinnar þjórfés á móti viðurkenndu myndinni þjórfjár er hátt í Risamálheildinni – 11 dæmi á móti 18. Tölurnar eru vissulega ekki háar en þetta þarf ekki að koma á óvart – það er alþekkt að reglulegar beygingarmyndir orða sem annars beygjast óreglulega eru oft notaðar í samsetningum. Sem dæmi má nefna samsetningar með lýsingarorðum sem beygjast óreglulega – í Risamálheildinni eru fleiri dæmi um geðvondari en geðverri og dæmi eru um geðillari, viðskotaillri, geðgóðari, vongóðari o.fl.

Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir: „Eignarfallsmyndin fés er röng en henni bregður stöku sinnum fyrir í stað fjár.“ Þannig hefur það alla tíð verið og er enn – alla 20. öldina má finna dæmi um fés á stangli á tímarit.is og nokkuð af dæmum frá þessari öld er í Risamálheildinni, bæði af samfélagsmiðlum og úr formlegri textum. Það er ekki óeðlilegt að fólk hafi tilhneigingu til að beygja eins og önnur hvorugkynsorð sem enda á hlé, hné, spé og tré. Ég ætla ekki að mæla með því að eignarfallsmyndin fés sé tekin upp í stað fjár en mér finnst hún eðlileg og saklaus – hún á sér margra alda samfellda sögu í málinu og hlýtur að hafa unnið sér hefð við hlið fjár. Það eru engin málspjöll þótt talað sé um að krefjast þjórfés.

Posted on Færðu inn athugasemd

Vonlaus ákvörðun að taka

Um daginn rakst ég á setninguna „Þetta er vonlaus ákvörðun að taka“ í frétt á mbl.is og staldraði við, því að þessi setningagerð sést ekki ýkja oft á prenti þótt hún sé vissulega vel þekkt. Þarna er sem sé merkingarlegt andlag (vonlaus ákvörðun) sagnar (taka) haft á undan sögninni og í nefnifalli, óháð því hvaða falli sögnin stýrir annars – ef andlagið kæmi á eftir væri þetta taka vonlausa ákvörðun í þolfalli. Skyld þessu er setningagerð sem t.d. kemur fram í Pressunni 2018, „Þessi ákvörðun var ekki erfið að taka“, í stað það var ekki erfitt að taka þessa ákvörðun. Þessi setningagerð er vel þekkt í ensku og gengur þar undir nafninu „tough movement“, kennd við lýsingarorðið tough sem er mjög algengt í slíkum setningum – this decision was tough to make.

En slíkar setningar eru ekki allra, og vegna þess að vitað er að tilfinning fólks fyrir þessari setningagerð er mismunandi hefur verið spurt um hana í tveimur viðamiklum rannsóknum á síðustu árum. Í ritinu Tilbrigði í íslenskri setningagerð er greint frá niðurstöðum úr samnefndri rannsókn sem Höskuldur Þráinsson stýrði fyrir tæpum 20 árum. Í öðru bindi ritsins kemur fram að í íslensku eru setningar af þessu tagi algengastar með lýsingarorðunum erfiður og auðveldur, rétt eins og með samsvarandi orðum í ensku. Þar er sagt frá mati málnotenda á setningunum Þess vegna eru stólarnir mjög auðveldir að þrífa og Þær eru svo auðveldar að lesa. Rétt rúmur helmingur aðspurðra hafnaði fyrri setningunni en um þriðjungur þeirri seinni.

Í rannsókninni „Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis“ sem við Sigríður Sigurjónsdóttir stjórnuðum fyrir nokkrum árum var spurt um mat á fjórum setningum af þessu tagi: Greinarnar voru vel skrifaðar. Þær voru auðveldar að lesa. Textarnir innihéldu erfið orð. Þeir voru flóknir að skilja. Þessi réttur var frábær. Hann var einfaldur að elda. Guðrún keypti nýjan dúk. Hann er erfiður að þrífa. Svarendur voru á aldrinum frá þrettán ára og til rúmlega níræðs. Um og rétt yfir 40% þeirra sögðu að þrjár fyrstu setningarnar væru frekar eða alveg eðlilegar, en aðeins rúm 20% sögðu það sama um þá síðustu. Hlutfallið var heldur hærra hjá fólki undir tvítugu en lægra hjá elstu hópunum en aldursmunur var þó tiltölulega lítill.

Ég hefði að óreyndu talið að mismunandi mat málnotenda á þessari setningagerð benti til þess að hún væri tiltölulega ný í málinu og ekki ólíklega tilkomin fyrir ensk áhrif. En við nánari athugun reynist svo ekki vera, heldur má rekja setningagerðina a.m.k. til 19. aldar. Í Skuld 1878 segir t.d.: „Hún er auðveld að skilja og sýnist vera sérlega vel sniðin eftir þörfum þeirra, sem hún er ætluð.“ Í Tímariti hins íslenzka bókmentafélags 1885 segir: „sum eru mjög erfið að lesa, af því af handritið er orðið skaddað, og öll eru þau meira og minna seinleg að lesa.“ Í Búnaðarritinu 1899 segir: „Hann þrífst vel, þótt jörð sje eigi feit, auðveldur að gróðursetja, og vex skjótt.“ Í Þjóðólfi 1903 segir: „ítalskan er hljómfögur og auðveld að bera fram.“

Fjölmörg hliðstæð dæmi frá allri 20. öld má finna, og dæmi nákvæmlega hliðstæð setningunni „Þetta er vonlaus ákvörðun að taka“ sem vitnað var til í upphafi eru ekki heldur ný – í Vísi 1964 segir: „Þetta er erfið ákvörðun að taka.“ Í Vísi 1976 segir: „Það er samt ekki auðveld ákvörðun að taka.“ Í Tímanum 1981 segir: „Þetta var ekki auðveld ákvörðun að taka fyrir Indiru Gandhi og ríkisstjórn hennar.“ Í Morgunblaðinu 1982 segir: „Þetta er erfið ákvörðun að taka í tvímenningi.“ Í Morgunblaðinu 1983 segir: „Ég vil byrja á að segja að það var ekki auðveld ákvörðun að taka, að segja öllu sínu fólki upp.“ Í DV 1986 segir: „Þetta var auðvitað mjög erfið ákvörðun að taka, að rífa sig upp með þrjú börn og flytjast til Bandaríkjanna.“

Það er ekki hægt að leita að ákveðnum setningagerðum í rafrænum textum heldur verður að tengja leitina við tiltekin orð og þess vegna er trúlegt að mun fleiri og fjölbreyttari dæmi, og e.t.v. eldri, sé í raun að finna í textunum en þau sem ég hef rekist á. En þetta er mjög áhugavert dæmi um setningagerð sem er gömul í málinu og hefur lifað í a.m.k. hálfa aðra öld án þess að verða hluti af málkerfi nema sumra málnotenda – frá rúmlega 40 og upp í nærri 70% þeirra finnst slíkar setningar frekar eða mjög óeðlilegar.  Það hefði mátt búast við að setningagerðin annaðhvort lognaðist smátt og smátt út af eða næði til alls málsamfélagsins, en e.t.v. hafa líkindi við ensku komið óorði á hana í seinni tíð. Þetta þarfnast þó mun ítarlegri rannsóknar.

Posted on Færðu inn athugasemd

Úrslit Skólahreystis

Í dag var hér vakin athygli á því að orðið hreysti hefði verið notað í hvorugkyni í frétt á vef Ríkisútvarpsins. Þar segir: „Og á hverjum einasta fasa í minni endurhæfingu er manneskja sem er í andlega hreystinu líka“ og „Inga áttaði sig á því að það var ekki nóg að huga að líkamlegu hreysti heldur þurfti að huga að því andlega líka“. Orðið hreysti er upphaflega – og venjulega – kvenkynsorð en orð með þessa stofngerð gæti út af fyrir sig eins verið hvorugkynsorð. Orðið háreysti sem hefur sömu stofngerð og er myndað með i-hljóðvarpi af raust á sambærilegan hátt og hreysti af hraust(ur) er frá fornu fari til bæði í kvenkyni og hvorugkyni þótt eingöngu kvenkynið sé gefið upp í Íslenskri nútímamálsorðabók enda líklega yfirgnæfandi í nútímamáli.

Kvenkynsorðið hreysti er eins í öllum föllum eintölu – fleirtala er ekki notuð af merkingarlegum ástæðum. Í hvorugkyni fá orð af þessu tagi -s-endingu í eignarfalli en eru eins í nefnifalli, þolfalli og þágufalli. Þar af leiðir að mjög oft er ekki hægt að sjá hvort orðið er í kvenkyni eða hvorugkyni. Það gildir t.d. um setningar eins og „Dugnaður og hreysti ásamt ódrepandi seiglu eru þar ofarlega á blaði“ í Morgunblaðinu 2020, „Hún vekur hvarvetna athygli fyrir geislandi fegurð og hreysti“ í Fréttablaðinu 2020, „Útivera stuðlar að betri heilsu; lýðheilsu, geðheilbrigði og hreysti“ í Fréttablaðinu 2021, „Því er ætlað að efla hreysti, lífsfyllingu, félagsleg tengsl og virkni fólks á þriðja æviskeiði“ í Fréttablaðinu 2022, o.s.frv.

Til að hægt sé að sjá í hvaða kyni orðið er haft þarf það því að vera í eignarfalli, með greini, eða taka með sér ákvæðisorð – lýsingarorð eða fornafn. Fáein dæmi um að þessi atriði beri vitni um hvorugkyn má finna á tímarit.is. Í Morgunblaðinu 1947 segir: „Aðalhlutverkið leikur hinn karlmannlegi og djarfi Massimo Derotti, sem vegna afl[s] og hreystis er nefndur Ítalski Tarzan.“ Í Foringjanum 1976 segir: „Það er keppt bæði í verklegum og bóklegum greinum, auk líkamlegs hreystis.“ Í Víkurfréttum 1994 segir: „Sigrún, sem sjálf er hreystið uppmálað, hvetur fólk til að auka hreyfinguna og borða rétt.“ Í Degi 1999 segir: „Við sáum fyrir okkur ungan, lífsglaðan og hugljúfan mann sem einkenndist af miklu líkamlegu hreysti og keppnisanda.“

Í umræðum var nefnt að hvorugkynsbeyging hefði verið algeng í heiti keppninnar „Skólahreysti“ sem sýnd hefur verið í sjónvarpi undanfarin ár. Í DV 2007 segir: „Það er nóg um að vera á Skjá einum í kvöld þegar fram fara úrslit Skólahreystis á slaginu 20.00.“ Í Velferð 2007 segir: „Síðan gátu börn skemmt sér í hoppikastala og þrautabraut í anda Skólahreystis.“ Í Vesturbæjarblaðinu 2017 segir: „Landsbankinn er nýr bakhjarl Skólahreystis.“ Í Víkurfréttum 2018 segir: „Nánari upplýsingar og myndir má finna á heimasíðu Skólahreystis og Facebook.“ Í Mosfellingi 2018 segir: „Vinsældir Skólahreystis hafa aukist jafnt og þétt síðustu ár.“ Alls eru tæp 60 dæmi um eignarfallið Skólahreystis á tímarit.is og rúm 60 í Risamálheildinni.

Í dæmum af þessu tagi, þar sem nafnorð (úrslit, anda, bakhjarl, heimasíðu, vinsældir) tekur með sér annað nafnorð í eignarfalli, virðist það trufla málnotendur ef ekki sést að um eignarfall er að ræða. Það sést ekki í kvenkyni vegna þess að öll föllin eru eins, og þess vegna er tilhneiging til að bæta eignarfallsendingu hvorugkyns við. Dæmi um kvenkynseignarfall eru samt mun fleiri, og sé litið fram hjá samsetningunni Skólahreysti er hvorugkynsbeyging orðsins hreysti sjaldgæf. Þó er trúlegt að hún sé algengari en hægt er að sýna fram á, því að líklegt er að sum dæmi sem gætu verið kvenkyn séu í raun og veru hvorugkyn í huga höfunda sinna. En þótt hvorugkynið breiddist út væri það saklaust enda væri það ekkert óeðlileg eins og áður segir.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hvernig spyrjum við um ástæðu?

Íslenskan hefur þrjár meginaðferðir til að spyrja um ástæðu einhvers – orðasamböndin (forsetningarliðina) af hverju og hvers vegna, og spurnaratviksorðið hví. Af orðasamböndunum eru til ýmis tilbrigði svo sem af hvaða ástæðu og vegna hvers en þau eru svo sjaldgæf að þau skipta ekki máli. Í fornu máli kemur eingöngu hví fyrir – orðasamböndin koma ekki til fyrr en á síðari öldum. Um miðja 19. öld er hlutfall af hverju um það bil helmingur af heildartíðni þessara þriggja spurnaraðferða samkvæmt tímarit.is en hvers vegna og hví eru um fjórðungur hvort fyrir sig. Á næstu áratugum eykst tíðni hvers vegna smátt og smátt, einkum á kostnað af hverju, en hví er nokkuð stöðugt milli 20 og 25% fram um 1930 þegar dæmum fer að fækka.

Um miðja 20. öld er hlutfall hvers vegna orðið um tveir þriðju af heildinni en af hverju og hví á bilinu 15-20% hvort. Eftir það lætur hví hins vegar hratt undan síga og er komið niður í 4% af heildinni um síðustu aldamót. Hlutfall af hverju hefur hækkað að sama skapi og af hverju og hvers vegna eru hvort um sig rétt tæpur helmingur af heildinni á þessari öld. Í Risamálheildinni sem hefur einkum að geyma texta frá þessari öld sést hvernig þessi þróun heldur áfram. Þar er hlutfall af hverju tæplega ¾ af heildinni, hlutfall hvers vegna rétt tæplega fjórðungur, en hlutfall hví ekki nema rúm tvö prósent. Í textum af samfélagsmiðlum er munurinn enn meiri – þar er af hverju (mjög oft skrifað afhverju) 85,5% af heildinni, hvers vegna 12,5% og hví aðeins 2%.

Ég hef á tilfinningunni að flestum fullorðnum þyki spurnarorðið hví frekar formlegt og ég held t.d. að ég noti það aldrei nokkurn tíma, ekki heldur í ritmáli. En hér var í dag bent á að hví væri orðið algengt í máli ungs fólks og þess getið til að það stafaði af áhrifum enska orðsins why. Það er svolítið erfitt að meta þetta en textar af samfélagsmiðlum endurspegla þó fyrst og fremst óformlegt málfar ungs fólks og því er helst að miða við þá. Vegna eðlis þessara texta er hlutfall spurnarorða mjög hátt þar í samanburði við aðra texta og dæmin um hví því býsna mörg, hálft ellefta þúsund. Hlutfallið er vissulega lágt, aðeins um 2% eins og áður segir, en þó nokkurn veginn það sama og í formlegri textum – ólíkt því sem búast mætti við.

Miðað við hvað hví er – eða var – formlegt orð og hvernig tíðni þess hefur farið ört lækkandi undanfarna áratugi mætti nefnilega búast við að hlutfall þess væri mun lægra í óformlegu máli samfélagsmiðla. Þótt hví hafi verið á hraðri niðurleið undanfarna áratugi eiga ensk áhrif því e.t.v. eftir að framlengja líf þess eitthvað. Vitaskuld eiga hví og why sér sameiginlegan uppruna þannig að það er ekki eins og þarna sé um eitthvert aðskotaorð að ræða, en það er óvanalegt að ensk áhrif verði til þess að efla gamalt orð sem tilheyrði formlegu málsniði og auka notkun þess í óformlegu máli. En að öðru leyti er niðurstaðan sú að notkun af hverju sé orðin langsamlega algengasta aðferðin til að spyrja um ástæðu en hvers vegna og einkum hví séu á hraðri niðurleið.

Posted on Færðu inn athugasemd

Rotinn fiskur

Í frétt á Vísi í dag er sagt frá flugfarþega sem hafði „með sér um borð rotinn fisk“. Vitnað er í frétt Guardian þar sem segir: „A passenger reportedly brought rotten fish on to the plane.“ Nú eru íslenska orðið rotinn og enska orðið rotten orðsifjafræðilega náskyld, og enska orðið m.a.s. talið eiga sér norrænar rætur. Þau eru líka náskyld merkingarlega, en þó er nokkur munur á. Enska orðið er skýrt 'decayed', eða 'skemmt, brotið niður', en það íslenska er skýrt 'sem rotnun er í, sem hefur rotnað, rotnaður' í Íslenskri nútímamálsorðabók og sögnin rotna aftur skýrð 'brotna niður og verða að jarðvegi'. Það sem skilur á milli er sem sé 'verða að jarðvegi' sem er mikilvægur þáttur í skilgreiningu íslenska orðsins en ekki nefndur í því enska.

Sögnin rotna og lýsingarorðið rotinn eru notuð um fullkomið niðurbrot á lífrænu efni – gróðri, ávöxtum, hræjum dýra, líkum fólks o.fl. Í Norðurlandi 1910 segir: „Ef haustlaufinu er safnað og það látið rotna í haugum, verður úr því góður áburður.“ Í Gimlungi 1911 segir: „Öll gróðurmold myndast fyrir áhrif bakteríanna, sem koma jurtum og öllum lífrænum efnum til að rotna.“ Í Þjóðviljanum 1955 segir: „Hræ af búsmala liggja hvarvetna í hrönnum og rotna.“ Í Vísi 1943 segir: „Nokkur lík rak nú á land og fóru skipbrotsmenn bónarveg að Márum og báðu þess, að mega grafa líkin, en Márar svöruðu því til, að hræ hunda létu þeir að jafnaði rotna undir berum himni.“ Í Frjáls Palestína 1993 segir: „Nú rotna ávextir á trjám og grænmeti í görðum.“

Aftur á móti hafa þessi orð yfirleitt ekki verið notuð um skemmdir á matvælum – þá eru fremur notuð orð eins og skemmt eða úldið eða fúlnað skemmt kjöt, úldinn fiskur, fúlnuð mjólk. En áðurnefnt dæmi um rotinn fisk er þó ekki einsdæmi. Örfá dæmi, rúmlega 10 samtals, um rotið kjöt og rotinn fisk má finna á tímarit.is, t.d. „Ef hreinlæti er ábótavant rotnar kjötið áður en það meyrnar“ í Frey 1986 og „stór hluti flatts fisks í gámunum hafi verið rotinn“ í Þjóðviljanum 1991. Í Risamálheildinni eru um 20 dæmi um þessi sambönd. Lausleg athugun bendir til þess að þau séu langflest úr þýddum fréttum og verið sé að þýða enska lýsingarorðið rotten – ég hef flett nokkrum dæmanna upp og gengið úr skugga um að þannig er í pottinn búið.

Þetta er sem sé dæmi um það sem stundum er kallað falsvinur, „orð sem hefur aðra merkingu í erlendu máli en búast má við miðað við merkingu sams konar orðs í öðru máli“ eins og segir í Íslenskri orðabók. Vissulega er merkingarmunurinn þarna ekki mikill og stundum getur verið óljóst hvort rotna á við, eins og t.d. í Búnaðarritinu 1901: „Skrokkar af veikum dýrum og sjálfdauðum rotna jafnan miklu fyr en af þeim, sem slátrað er heilbrigðum“ – þarna er spurning hvort verið er að tala um hræ eða matvæli. Þótt þessi merkingarmunur á rotna og úldna eða skemmast sé kannski ekki stórmál finnst mér æskilegt að halda í hann og rétt er að nefna að í áðurnefndri frétt Vísis segir líka: „Þeir hafi fundið hinn úldna fisk umvafinn dagblaðapappír.“

Posted on Færðu inn athugasemd

Hvað þarf gamla fólkið að bíða lengi?

Í morgun var hér spurt út í fyrirsögnina „Hvað þarf gamla fólkið að bíða lengi?“ á mbl.is – hvers vegna hún væri ekki frekar „Hve lengi þarf gamla fólkið að bíða?“. Báðar setningarnar eru fullkomlega eðlileg íslenska en það er ekki undarlegt að fólk sem ekki á íslensku að móðurmáli verði hugsi þegar það sér setningu af þessu tagi. Þarna er nefnilega um að ræða setningagerð sem þekkist ekki í skyldum málum svo að ég viti, en er eðlileg og algeng í íslensku. Þar er atviksorð sem er ákvæðisorð með lýsingarorði eða öðru atviksorði rifið frá því og látið standa fremst í setningu. Í þessu tilviki er um að ræða spurnarorðið hvað (sem stendur sem atviksorð þarna þótt það sé venjulega spurnarfornafn) en ýmis önnur atviksorð geta hagað sér á sama hátt.

Þar er einkum um að ræða atviksorð sem eru löng og hafa sterka áherslumerkingu. Við segjum þetta er óskaplega leiðinlegt þar sem atviksorðið óskaplega er ákvæðisorð með lýsingarorðinu leiðinlegt, leggur áherslu á hversu leiðinlegt þetta sé. En við getum líka haft atviksorðið fremst í setningu og sagt óskaplega er þetta leiðinlegt – í sömu merkingu, þótt e.t.v. sé áherslan enn sterkari þarna. Á ensku er hægt að segja this is terribly boring en alveg útilokað að slíta atviksorðið frá lýsingarorðinu og segja *terribly is this boring eða *terribly this is boring. Á dönsku er hægt að segja det er forfærdeligt kedeligt en ekki *forfærdeligt er det kedeligt, og  á þýsku er hægt að segja das ist schrecklich langweilig en ekki *schrecklich ist das langweilig.

Á sama hátt getum við sagt bæði í gær var rosalega gaman og rosalega var gaman í gær, þetta er ferlega fúlt og ferlega er þetta fúlt, ég þekkti ótrúlega margt fólk á tónleikunum og ótrúlega þekkti ég margt fólk á tónleikunum, o.s.frv. En stutt atviksorð, eins og mjög, er yfirleitt ekki hægt að slíta frá lýsingarorðinu sem þau standa með í nútímamáli – við getum ekki sagt *mjög er þetta leiðinlegt eða *mjög var gaman í gær. Þetta var aftur á móti hægt í fornu máli – „Mjög var Auður þá elligömul“ segir t.d. í Grettis sögu. En það er örugglega misjafnt hvað málnotendum finnst ganga í þessu efni. Mér finnst t.d. hæpið að slíta verulega frá lýsingarorði, en finn þó nokkur dæmi um það – í DV 1986 segir t.d.: „Verulega er þetta bagalegt fyrir Jakob.“

Svo að komið sé aftur að upphaflegu spurningunni er það rétt að búast mætti við hve(rsu) lengi þarf gamla fólkið að bíða? þar sem spurnaratviksorðið hve eða hversu er ákvæðisorð með atviksorðinu lengi, og spurnarliðurinn í heild, hve(rsu) lengi, stendur fremst í setningu. Það er ekki hægt að slíta slíkan lið sundur – * hve(rsu) þarf gamla fólkið að bíða lengi? er alveg útilokað. En ef hvað er notað í stað hve(rsu) gengur þetta vel. Á sama hátt er hægt að nota mikið í stað mjög fremst í setningu og segja eins og Lilli klifurmús, Mikið er það sorglegt að refir skuli ekki geta klifrað í trjám og Mikið held ég að þær séu góðar þótt útilokað sé að segja *Mjög er það sorglegt að refir skuli ekki geta klifrað í trjám og *Mjög held ég að þær séu góðar.

Posted on Færðu inn athugasemd

Misskilningur og rangfærslur um „ný-íslensku“

Á laugardaginn var birtist í DV greinin „Ný-íslenskan og hættur hennar“ eftir Sigmund Erni Rúnarsson. Megintilgangur greinarinnar er að andmæla breytingum á íslensku í átt til kynhlutleysis þótt Sigmundur viðurkenni að „vissulega megi gagnrýna íslenska tungu fyrir að hafa verið full til karllæg í gegnum tíðina – og er þar líklega varlega að orði komist“. Vitanlega er Sigmundi frjálst að hafa sína skoðun á þessu og engin ástæða til að gera athugasemd við það. Hins vegar er eðlilegt að ætlast til að hann haldi sig við staðreyndir í umfjöllun sinni en á því er nokkur misbrestur. Meðal þess sem hann nefnir er „bannfæring karlkynsins“, að verið sé „að fækka kynjum í móðurmálinu“, „gera orð útlæg“ og breyta reglum um vísun persónufornafna.

Frasar eins og „bannfæring karlkynsins“ og „að fækka kynjum í móðurmálinu“ eru alveg út í hött. Auðvitað er ekki verið að bannfæra karlkynið, hvað þá fækka málfræðilegum kynjum – þau eru og verða þrjú. Málið snýst bara um að nota karlkyn í vísun til karla, kvenkyn í vísun til kvenna og hvorugkyn í vísun til kvára og kynjablandaðs hóps, sem og í almennri vísun þegar kyn fólks sem vísað er til er óþekkt. Þetta síðastnefnda er breyting, og Sigmundur er einn margra sem vilja halda í karlkynið sem „hlutlaust“ kyn, og það er auðvitað í góðu lagi. Ég á hins vegar ómögulegt með að sjá hvernig einhver „bannfæring karlkynsins“ felst í áðurnefndri breytingu, eða hvernig verið er að „fækka kynjum í móðurmálinu“ með henni. Það er rugl.

Það er ekki heldur verið að „gera orð útlæg“ þótt leitast sé við að nota önnur orð en maður og samsetningar af því í vísun til kynjablandaðra hópa, vegna þess hversu tengt karlmönnum orðið er í huga málnotenda, og nota frekar orð eins og manneskja og man og samsetningar með -fólk. Það er auðvitað í góðu lagi að vilja halda í orðið maður í almennri vísun en það er fráleitt halda því fram að stefnt sé að því að gera það „útlægt“ – það er vitanlega notað áfram í merkingunni ‚karlmaður‘ sem það hefur alltaf haft, auk almennu merkingarinnar. Einu orðin sem hafa verið gerð útlæg úr málinu eru niðurlægjandi orð eins og negri, kynvillingur, fáviti og önnur slík sem ég vona að við séum flest sammála um að séu ekki við hæfi í nútímanum.

Það er líka villandi að segja: „Persónufornöfn vísa ekki lengur til málfræðilegra persóna eins og reglur hafa kveðið á um. Og kenndar hafa verið í skólum.“ Þær „reglur“ eru tilbúningur að hluta og taka ekki tillit til þess að vísun fornafna hefur alla tíð getað verið bæði málfræðileg, innan tungumálsins, og þá er málfræðilegt samræmi notað, eða merkingarleg, út fyrir tungumálið, og þá er merkingarlegt samræmi notað. Við könnumst auðvitað öll við að notað sé hvorugkynið þau í vísun til karlkynsorða eins og foreldrar og krakkar – slík merkingarleg sambeyging á sér langa hefð í málinu og er t.d. algeng í einkabréfum frá seinni hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar 20. eins og Guðrún Þórhallsdóttir hefur  sýnt fram á.

Saman við þetta er svo blandað alls óskyldum hlutum eins og þeim undarlegu fullyrðingum að „orðin klikkað og geðveikt virðast hafa leyst svo að segja öll önnur lýsingarorð af hólmi“ sem er fjarri sanni, og „Fjölbreytni tungumálsins er að víkja fyrir einsleitni“ sem engin rök eru fyrir. Svo er óskiljanlegt að segja „Er vilji til þess á meðal þjóðarinnar að láta réttritun lönd og leið?“ og „Eru gamlar stafsetningarreglur kannski bara barn síns tíma?“. Ég veit ekki til þess að nokkuð hafi verið amast við stafsetningarreglum nýlega. Sigmundur Ernir vill íslenskunni vitanlega vel, og engin ástæða til að gera lítið úr því. En jafnvel vel meint skrif verða að byggja á staðreyndum ef þau eiga að koma að gagni – annars geta þau verið til bölvunar.