Þrjár hneppur að framan
Áðan var hér spurt um orðalagið „Þrjár hneppur að framan“ og „Þrjár hneppur á sitthvorri erminni“ sem er notað í auglýsingu um leðurkápu og fyrirspyrjandi sagðist ekki hafa séð áður á prenti. Það sem hefur komið spánskt fyrir sjónir er væntanlega orðið hneppur sem hlýtur að vera fleirtala af kvenkynsorðinu hneppa. Það orð er að vísu að finna í orðabókum en mjög sjaldgæft og í allt annarri merkingu og samhengið sýnir glöggt að þarna hlýtur þetta að tengjast nafnorðinu hnappur og sögninni hneppa. Ég hélt fyrst að hneppa væri þarna notað í merkingunni hne(pp)sla, þ.e. 'hnappagat', en við nánari athugun kom í ljós að merkingin er víðari en svo. Orðið er sjaldséð á prenti en fáein nýleg dæmi um það eru í Risamálheildinni.
Nokkur dæmi: Á mbl.is 2021 segir: „Svo virðist sem hann hafi mögulega farið í þær öfugar, því framan á þeim er enginn rennilás, engin hneppa, ekkert!“ Á Hugi.is 2009 segir: „Það sést ekkert á henni alveg eins og ný bara, fyrir utan það að ein hneppan datt af inní vasanum.“ Á Bland.is 2005 segir: „Td jakki sem ég mátaði, smelpassaði, en gat ekki hnept því hneppan var svona brjóstahæð og bara náði ekki saman þar.“ Á Bland.is 2011 segir: „Ég heyrði um einhverja teygju eða eitthvað sem hægt væri að kaupa og láta í staðinn fyrir hneppuna eða allavega eitthvað svo maður geti notað gallabuxurnar lengur?“ Á Bland.is 2008 segir: „þegar hann er að hneppa henni sundur til að fara í hana þá fer bara hneppan af (voru smellur ekki tölur).“
Einnig er hægt að finna allnokkur dæmi um orðið hneppa í auglýsingum á netinu og þá fylgja yfirleitt myndir. Þessi dæmi og myndirnar benda til þess að orðið hneppa sé notað í víðri merkingu – merki í raun 'það sem gerir kleift að hneppa'. Í dæmum eins og „Falleg skyrta með hneppum alveg niður“ og „Hneppur aftan á hálsmáli til að auðvelt sé að klæða krílin“ má segja að hneppa vísi bæði til hnapps og hnappagats, en í dæmum eins og „Allur málmur og hneppur eru burstaðar“ og „Rauðar hneppur“ er einkum vísað til hnappsins. Eins og áður er komið fram er einnig hægt að nota orðið um smellur þar sem ekki er neitt hnappagat og ekki heldur hnappur í venjulegri merkingu – „Kuldagalli mjög hlýr og góður. Búið að naga tvær hneppur.“
Nafnorðið hneppa er eðlilegt orð og fellur vel að málinu, hvort sem litið er svo á að það sé myndað af nafnorðinu hnappur eða sögninni hneppa. Það er líka gegnsætt, í þeim skilningi að við tengjum það strax við orðin hnappur og hneppa þótt við þurfum að læra nákvæma merkingu orðsins sérstaklega eins og í flestum öðrum orðum sem kölluð eru „gegnsæ“. Svo er spurning hvort einhver þörf sé fyrir orðið. Í því samhengi má benda á að áður fyrr voru lítil tilbrigði í því hvernig flíkum var hneppt – með einföldum hnappi sem fór í gegnum hnappagat. Nú er fjölbreytnin margfalt meiri, happar oft fremur til skrauts en í hagnýtum tilgangi, og smellur oft í staðinn. Það getur verið hentugt að hafa orð sem nær yfir þetta allt og hneppa gerir það vel.