Bíll og flugvél, malt og appelsín, blað og penni

Í gær var hér spurt hvort ætti fremur að segja þjónusta ráðgjafa og vinnuaðferðir byggja á þekkingu eða þjónusta ráðgjafa og vinnuaðferðir byggir á þekkingu (setningum örlítið breytt) – þ.e., hvort sögnin byggja ætti að vera í eintölu eða fleirtölu. Þarna er frumlagið samsett, [þjónusta ráðgjafa] og [vinnuaðferðir] og því mætti búast við að sögnin væri í fleirtölu, eins og í t.d. [vinur minn] og [bróðir hans] byggja saman hús – þar kemur eintalan byggir ekki til greina. Flest þeirra sem brugðust við þessari spurningu kusu líka fleirtöluna en mér og einhverjum fleiri fannst eintalan þó ekki fráleit. En setningar af þessu tagi hafa lengi vafist fyrir mörgum og skoðanir verið skiptar á því hvernig beri að fara með þær enda flóknari en virðist í fljótu bragði.

Jón G. Friðjónsson fjallaði um slíkar setningar í Morgunblaðinu 2004 og benti á að í setningunni bíllinn og flugvélin eru biluð „er um að ræða tvo teljanlega hluti og þá eru þeir lagðir saman og notuð fleirtala og lýsingarorðið (biluð) stendur í hvorugkyni fleirtölu þar sem nafnorðin eru ósamstæð að kyni (kk. og kvk.)“. En í setningunni kaffi og tóbak er óhollt „eru báðir liðir frumlagsins óteljanlegir og er í slíkum tilvikum jafnan notuð eintala og lýsingarorð, ef um það er að ræða, samræmist oftast síðari liðnum“. Jón segir þó að síðarnefnda reglan „virðist eiga nokkuð erfitt uppdráttar í nútímamáli“ og tekur ýmis dæmi um það sem hann telur vafasöm, s.s. verslun og þjónusta hafa staðið í stað þar sem honum finnst eiga að vera hefur staðið í stað.

Þetta er þó hvorki einfalt né algilt. Í Mannlífi 2019 segir: „Malt og Appelsín eru … alltaf á mínum borðum um jól og er frábært par.“ Þrátt fyrir að malt og appelsín vísi ekki til teljanlegra fyrirbæra er sögnin fyrst í fleirtölu, eru, enda má líta svo á verið sé að tala um drykkina hvorn fyrir sig. En í seinni hlutanum er sögnin í eintölu vegna þess að þar eru þeir spyrtir saman. Í auglýsingu frá Ölgerðinni segir „Malt og Appelsín hafa verið fastagestir við jólaborð Íslendinga áratugum saman“ með fleirtöluna hafa, en vegna þess að framhaldið er „og mörgum finnst jólin ekki vera komin fyrr en fyrsti sopinn af blöndinni rennur mjúklega niður“ fyndist mér eðlilegra að þarna væri eintalan hefur vegna þess að blandan er í raun einn drykkur, [maltogappelsín].

Þarna koma upp fjölmörg álitamál eins og Jón nefnir en ég held að fleira komi til en það hvort liðir frumlagsins vísa til teljanlegra fyrirbæra eða ekki – það skiptir ekki síður máli hvort málnotendur skynja þá sem eina heild. Í DV 1998 segir: „Einn stærsti kosturinn er hversu fljótt maður sér útkomuna ef tölva og prentari er við höndina.“ Á mbl.is 2020 segir: „Blað og blýantur er meira að segja bannvara í húsinu.“ Á Bland.is 2010 segir: „Nei, penni og blað er ekki out.“ Hér er alls staðar eintala þótt orðin tölva, prentari, blað, blýantur og penni vísi vitanlega öll til teljanlegra fyrirbæra, en það sem hér skiptir máli er að orðin sem tengd eru saman með og mynda í einhverjum skilningi eina heild. Í öllum tilvikum væri þó líka hægt að nota fleirtöluna.

Það er ljóst að bæði það hvort frumlagsliðirnir vísa til teljanlegra fyrirbæra og hvort unnt er að líta á það sem þeir vísa til sem einhvers konar heild getur skipt máli, en við það bætist að málnotendur geta haft mismunandi tilfinningu fyrir eða skoðanir á hvoru tveggja. Sumum finnst t.d. aðeins hægt að nota orðið þjónusta sem vísað var til hér í upphafi í eintölu en öðrum finnst ekkert að því að tala um þjónustur – sem eru þá teljanlegar. Það getur líka verið misjafnt milli fólks, og misjafnt eftir aðstæðum, hvort t.d. tölva og prentari eða blað og penni er skynjað sem ein heild. Um þetta verður fólk að fara eftir máltilfinningu sinni, og útilokað – og ástæðulaust – að reyna að setja einhverjar fastar reglur eða tala um eitthvað rétt eða rangt í þessu.