Að (reyna að) veitast að

Í gær var hér spurt hvort orðasambandið veitast að gæti vísað eingöngu til einhvers sem er sagt, eða hvort eitthvað líkamlegt þyrfti líka að koma til. Tilefnið var fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins þar sem stóð „Reynt að veitast að utanríkisráðherra í Háskóla Íslands“, og í fréttinni stóð: „Þegar Bjarni hafði lokið máli sínu hlupu þrjár konur með fána Palestínu í átt að honum og hugðust veitast að honum en gæsla sem Bjarni fékk kom í veg fyrir að þær næðu alla leið.“ Sambandið veitast að er skýrt 'ráðast á' í Íslenskri nútímamálsorðabók og Íslenskri orðabók. Í hvorugri bókinni er tekið fram hvort árásin er gerð með orðum eða aðgerðum en í þeirri fyrrnefndu er tekið dæmið tveir ókunnir menn réðust að honum og rændu hann en ekki dæmi um árás í orðum.

Það er þó ljóst af dæmum að sambandið hefur alltaf getað vísað líka til orða – stundum væri reyndar eðlilegra að skýra það sem 'gagnrýna harkalega' en 'ráðast á' þótt vissulega sé það skilgreiningaratriði. Þannig segir t.d. í Þjóðólfi 1849: „Því næst hafa menn talið það sem ókost við blöðin, að þau svo opt veittust að valinkunnum embættismönnum, með því þau gjörðu sjer far af því að dæma og átelja aðgjörðir þeirra og athæfi.“ Í Þjóðólfi 1895 segir: „Þá sagðist hann geta sér þess til, að verjandi mundi veitast að rannsóknardómaranum.“ Sambandið er ekki eingöngu notað um fólk – í Ísafold 1876 segir t.d.: „þegar farið var að veitast að hinni veglegu íþrótt, er hann hafði stundað alla æfi og unni svo mjög, gat hann eigi lengur orða bundizt.“

Fyrirspyrjandi velti því líka fyrir sér hvort eðlilegt væri að segja „reyndu að veitast að“ og „hugðust veitast að“ eins og gert er í áðurnefndri frétt. Samkvæmt þessu orðalagi var í raun ekki veist að utanríkisráðherra, hvorki í orði né verki – konurnar sem um ræðir hugðust gera það og reyndu það samkvæmt fréttinni en voru stöðvaðar áður en til þess kæmi. Spurningin er sem sé hvort réttlætanlegt sé að nota orðasambandið veitast að í slíkum tilvikum – hvort og hvernig fréttafólk geti fullyrt eitthvað um hvað fólk hafði í huga eða ætlaði að gera. Þegar um er að ræða árás í orðum verða að liggja fyrir beinar heimildir um ætlun fólks, en ef málið snýst um athafnir er hugsanlegt að draga ályktanir út frá aðstæðum. Um þetta má nefna tvö mismunandi dæmi.

Í Sögu 2011 segir: „Norski Kominternfulltrúinn Haavard Langseth, sem heimsótti Ísland árið 1930, ætlaði að veitast að Einari í ávarpi til íslenskra kommúnista [...] Úr því varð þó ekki. Ráðamenn Komintern felldu þennan hluta ávarpsins burtu.“ Hér er sambandið ætlaði að veitast að notað og höfundur textans hefur beinar heimildir fyrir því sem segir í framhaldinu. Annars konar dæmi er í DV 2008: „Dave Grohl tæklaði það vel þegar aðdáandi ætlaði að veitast að honum. [...] Æstur og ölvaður aðdáandi hljómsveitarinnar stökk upp á sviðið og ætlaði að æða í átt að Dave en öryggisvörðum tókst að fella hann í tæka tíð.“ Hér er væntanlega ályktað út frá ástandi og framkomu aðdáandans að hann hafi ætlað að veitast að söngvaranum.

Sama máli gegnir um það tilvik sem sagt er frá í umræddri frétt. Frá málfræðilegu sjónarmiði sé ég ekkert athugavert við orðalag fréttarinnar – e.t.v. má segja að reyna að / hyggjast veitast að geti í slíkum tilvikum merkt 'nálgast á ógnandi hátt' eða jafnvel 'gera sig líklegan til að ráðast á'. En auðvitað er það hvort og hversu ógnandi fólk er eða líklegt til árása ekki málfarsleg spurning heldur snýst um ályktanir út frá aðstæðum, og þetta er vissulega dæmi um að það skiptir miklu máli að vandað sé til verka í fréttaskrifum um viðkvæm og umdeild mál. Oft er hægt að lesa tiltekið orðalag á mismunandi hátt og nauðsynlegt að fréttafólk hafi það í huga og vandi sig – og ekki síður mikilvægt að almenningur lesi fréttir með gagnrýnum huga.