Að vera í sársauka og í tárum

Í dag var hér vísað til þess að lýsandi fótboltaleiks hefði sagt að leikmaður sem lá meiddur á vellinum væri „í sársauka“. Spurt var hvort fólk kannaðist við þetta orðalag sem fyrirspyrjandi taldi líklegt að væri bein yfirfærsla úr ensku, he is in pain. Það er mjög trúlegt en fáein dæmi má finna um þetta orðalag frá síðustu árum, þó aðeins eitt á tímarit.is: „Ég hef verið í sársauka síðan ég man eftir mér“ í Fréttablaðinu 2019. Í Risamálheildinni eru 16 dæmi, m.a. af Mannlífi 2018: „Það er ekki hægt að vera alltaf í góðu skapi þegar maður er í sársauka alla daga og verkjalyf gera takmarkað gagn.“ Flest eru þó af samfélagsmiðlum, það elsta á Bland.is 2002: „Ef maður er í sársauka þá á maður að biðja um eitthvað og ekki vera að hvelja sig, finnst mér.“

En þótt sambandið í sársauka eigi sér ekki langa hefð í íslensku er rétt að benda á að það virðist alveg hliðstætt við sambandið í kvölum sem hefur tíðkast allt frá 19. öld, ekki síst í biblíumáli. Í Viðeyjarbiblíu frá 1841 segir: „En er hann var í helvítiskvölum, þá hóf hann upp augu sín, og sá Abraham álengdar, og Lasarus í faðmi hans“ – í þýðingunni 2007 segir „þar sem hann var í kvölum“. Í þýðingu Hannesar Hafstein á „Brandi“ eftir Henrik Ibsen í Verðandi 1882 segir: „nístir saman höndunum sem í kvölum.“ Í Breiðabliki 1911 segir: „En hinn ríki vaknar þegar upp í kvölum.“ Í Stefni 1931 segir: „Hann var í kvölum.“ Í Ísfirðingi 1980 segir: „En þótt hann kunni nú að vera í kvölum verður hver að liggja svo sem hann hefur um sig búið.“

Annað svipað samband en talsvert algengara og eitthvað eldra í málinu er vera í tárum sem er væntanlega einnig yfirfærsla úr ensku, in tears. Elsta dæmi um það er í þýddri sögu í Alþýðublaðinu 1950: „Daginn áður hafði Denisa verið í tárum, yfirbuguð, full örvæntingar.“ Í Bliki 1954 segir: „Heimaey var í tárum.“ Í Morgunblaðinu 1980 segir: „Nokkrar kvennanna og börnin voru í tárum, en enginn missti stjórn á sér.“ Í Tímanum 1983 segir: „ekki er að efa, miðað við fyrri reynslu, að um hclmingur gesta muni vera í tárum mestan hluta kvöldsins.“ Í Morgunblaðinu 1993 segir: „Ég var í tárum“. Þetta eru einu dæmin sem ég finn fram á fyrri hluta tíunda áratugarins – tvö úr þýðingum og eitt eftir mann sem bjó lengi í Bandaríkjunum.

Eftir það fer dæmunum ört fjölgandi. Í bréfi frá Stefáni Snævarr sem Gísli Jónsson birti í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1997 segir: „Maðurinn, sem hugsar á ensku, lætur ekki deigan síga. […] Hann segir lesendum Morgunblaðsins að leikarinn Ryan O’Neil og ástkona hans „hefðu verið í tárum“ nýverið.“ Þetta bendir til þess að sambandið í tárum hafi verið orðið algengt upp úr miðjum tíunda áratugnum og enskur uppruni þess verið talinn vafalaus. Í Risamálheildinni eru 66 dæmi um sambandið frá þessari öld, um helmingur af samfélagsmiðlum. Það vekur athygli að utan samfélagsmiðla virðist þetta orðalag einkum notað í fótboltalýsingum – megnið af dæmum um það er úr íþróttafréttum, m.a. af fótbolti.net.

Hvað á að segja um samböndin vera í sársauka og vera í tárum? Þótt augljóslega sé um yfirfærslu úr ensku að ræða eru þessi sambönd auðvitað íslenska, í þeim skilningi að orðin eru íslensk, og setningagerðin á sér líka skýrt fordæmi í vera í kvölum. Mér finnst enskar fyrirmyndir ekki næg ástæða til að amast við umræddum samböndum og í sjálfu sér eru þau bara góð viðbót við íslenskuna. Hins vegar er ástæða til að minna á að vitanlega væri venjuleg íslenska að segja kvalinn, þjáður, sárkvalinn, sárþjáður eða eitthvað slíkt frekar en í sársauka, og grátandi, tárfellandi, tárvotur, társtokkinn eða eitthvað slíkt frekar en í tárum. Ensk áhrif eru vond ef þau leiða til einhæfni í orðavali og til þess að rótgróin íslensk orð gleymist.