Af hverju notum við enskættuð orð og orðasambönd?
Ég hef iðulega haldið uppi vörnum fyrir eða sleppt því að fordæma ýmis orð, orðasambönd og orðanotkun sem er eða virðist vera bein yfirfærsla úr ensku – sumum þætti jafnvel eðlilegt að tala um „hráa ensku“. Meðal þessa er snjóstormur, eigðu góðan dag, ávarpa vandamál, áskorun, í tárum, í sársauka, í persónu, gaslýsing, byrðing, móment, fasa út, slæsa, sína, lúkk, kósí, ókei, næs, ranta, meika sens o.m.fl. Ég þykist vita að mörgum þyki ég alltof frjálslyndur í þessu. Mín afstaða er hins vegar sú, eins og ég hef oft sagt, að við eigum ekki að láta orð eða orðasambönd gjalda upprunans. Ef þau eru komin í einhverja notkun í íslensku er yfirleitt bæði ástæðulaust og tilgangslaust að beita sér gegn þeim og nær að snúa sér að brýnni vandamálum.
Ég hef sem sé engar áhyggjur af því þótt ýmis orð, orðasambönd og orðanotkun úr ensku rati inn í íslensku. Það sem mér finnst hins vegar ástæða til að huga að, og jafnvel hafa áhyggjur af, er hvers vegna þetta gerist. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður. Stundum vantar íslenskuna orð yfir tiltekna merkingu og þá er oft ekkert að því að taka upp erlent orð og laga það að íslensku eftir atvikum. Vissulega þykir mörgum æskilegra að smíða nýyrði úr íslenskum hráefnum en við munum aldrei geta smíðað nýyrði yfir öll ný fyrirbæri og hugtök. Þar að auki geta tökuorð haft ákveðna kosti fram yfir nýyrði, svo sem að þau vekja ekki óheppileg hugrenningatengsl vegna líkinda við önnur orð – hins margrómaða gagnsæis.
Stundum kjósa málnotendur að nota tökuorð þrátt fyrir að til sé íslenskt nýyrði og fyrir því geta líka verið mismunandi ástæður. Nýyrðið getur þótt of stirt eða hallærislegt, eða tökuorðið hefur verið búið að vinna sér hefð áður en nýyrðið kom til og málnotendur kæra sig ekki um að skipta. Nafnorðið flatbaka er dæmi um hvort tveggja – það er stirðara en pitsa sem var líka komið í notkun áður en flatbaka varð til. Einnig kemur fyrir að merkingu íslensks orðs sem samsvarar ensku orði að hluta er hliðrað svo að það samsvari enska orðinu betur. Engin íslensk sögn samsvaraði nákvæmlega ensku sögninni address og því hefur merkingu sagnarinnar ávarpa verið hnikað til. Þetta finnst mér hvort tveggja geta verið góðar og gildar ástæður.
Öðru máli gegnir hins vegar ef enskt orðalag er yfirfært beint þótt til sé íslenskt orð eða orðalag sem gæti gegnt nákvæmlega sama hlutverki. Ástæðan fyrir notkun enskættaða orðalagsins er þá ekki alltaf skortur á íslensku orði eða þörf fyrir betra orð, heldur oft þekkingarleysi eða hugsunarleysi – fólk þekkir ekki hefðbundið íslenskt orðalag eða hugsar ekki út í hvernig venja sé að orða eitthvað á íslensku. Þarna skiptir auðvitað máli hver á í hlut. Fólk sem hefur atvinnu af því að nota tungumálið, svo sem rithöfundar, fjölmiðlafólk, auglýsingafólk, almannatenglar, þýðendur o.fl., ber miklu ríkari ábyrgð en almennir málnotendur. Það er eðlilegt og mikilvægt að halda því við efnið, en vitanlega þarf að gæta kurteisi og forðast persónulegar athugasemdir.
En það er ekki endilega ástæða til að amast við tökuorði eða tökumerkingu þótt það sé strangt tekið óþarft, í þeim skilningi að til sé íslenskt orð eða orðasamband sem nota mætti í staðinn. Þvert á móti – nýjungar auðga málið og ekkert að því að málnotendur geti valið milli rótgróins íslensks orðalags og nýrra og ferskra orða og orðasambanda, þótt af erlendum uppruna séu. En ef ástæðan fyrir notkun tökuorðsins eða tökumerkingarinnar er þekkingarleysi eða hugsunarleysi er hætta á að þetta verki þveröfugt – valdi því að hefðbundið orðalag falli í skuggann eða gleymist og auki þannig einhæfni, dragi úr fjölbreytni, og rjúfi auk þess samfelluna í málinu. Þess vegna er mikilvægt að lesa sem mest til að auka orðaforða sinn.