Er eitthvað athugavert við þrátt fyrir (það) að?

Um daginn fékk ég handrit að grein til baka úr yfirlestri með nokkrum athugasemdum. Sumar þeirra féllst ég á en aðrar ekki, eins og gengur, en ein kom mér sérstaklega á óvart. Ég hafði skrifað þrátt fyrir að en yfirlesari breytt því í enda þótt með vísun í Málfarsbankann þar sem segir: „Orðasambandið þrátt fyrir fer oft illa á undan setningum: „hann kom ekki þrátt fyrir að hún hefði beðið hann“ eða „hann kom ekki þrátt fyrir það að hún hefði beðið hann“. Í staðinn færi betur á þótt eða enda þótt: hann kom ekki þótt hún hefði beðið hann; hann kom ekki enda þótt hún hefði beðið hann. Þrátt fyrir á fremur heim á undan nafnorðum (ásamt fylgiorðum): Hann kom ekki þrátt fyrir beiðni hennar. Þrátt fyrir góðan undirbúning komst liðið ekki í úrslit.

Ég hafði aldrei heyrt að eitthvað þætti athugavert við þrátt fyrir (það) en við nánari athugun fann ég þó svipaða athugasemd í bókinni Íslenskt málfar eftir Árna Böðvarsson: „Það er algengt að segja þrátt fyrir það að þar sem betra væri þó að eða þótt.“ Hvorki í Málfarsbankanum né hjá Árna kemur þó fram nokkur skýring á því hvers vegna „færi betur á“ eða „betra væri“ að nota þó að, þótt eða enda þótt í stað þrátt fyrir að og þrátt fyrir það að. En orðasambandið þrátt fyrir á undan nafnorði er eiginlega tvíyrt forsetning og greint þannig í orðabókum. Elstu dæmi um það eru frá lokum 18. aldar. Þegar þessi forsetning fer að standa með setningum á seinni hluta aldarinnar verður úr henni samtenging, ýmist þrátt fyrir það að eða þrátt fyrir að.

Elsta dæmi sem ég finn um lengri gerðina er í Þjóðólfi 1860: „og það þrátt fyrir það, að nálega allir embættismenn hennar hér, og þjóðþing landsins og allr þorri lýðsins er komið á gagnstæða skoðun og að fullri sannfæringu.“ Styttri gerðin virðist vera aðeins yngri – elsta dæmi sem ég hef fundið um hana er í Norðlingi 1875: „hælir okkur fyrir norrænt þrek og kostgæfni í mörgum efnum, þrátt fyrir að vér verðum að heyja sífelt stríð.“ Í Stuttu ágripi af íslenskri mállýsingu handa alþýðuskólum eftir Halldór Briem frá 1891 er sambandið þrátt fyrir það að talið upp athugasemdalaust í hópi viðurkenningartenginga, og sama máli gegnir um fyrstu útgáfu af Íslenzkri málfræði Björns Guðfinnssonar frá 1937, sem og allar síðari útgáfur bókarinnar.

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er aðeins styttri myndin, þrátt fyrir að, gefin sem samtenging (undir lýsingarorðinu þrár), en lengri myndin er þó er ekki bara eldri en hin, heldur einnig mun algengari allt fram á miðjan sjöunda áratug 20. aldar. Þá siglir þrátt fyrir að fram úr og síðan dregur mjög hratt sundur með myndunum og tíðni þeirrar styttri margfaldast – á þessari öld er þrátt fyrir að allt að hundrað sinnum algengara á tímarit.is en þrátt fyrir það að. Í Risamálheildinni er styttri myndin tæplega fjörutíu sinnum algengari en sú lengri, hvort sem litið er til allra texta eða einungis til samfélagsmiðla þar sem báðar gerðirnar eru reyndar hlutfallslega sjaldgæfar – þetta eru tengingar sem tilheyra fremur formlegu máli en óformlegu.

Í upphafi og fram á miðjan áttunda áratuginn var meirihluti dæma um lengri gerðina skrifaður með kommu á undan , þ.e. þrátt fyrir það, að. Þótt breyttar greinarmerkjareglur frá 1974 gætu reyndar spilað inn í gæti þetta bent til þess að þrátt fyrir hafi lengi verið skynjað sem forsetning með fornafninu það sem síðan tæki með sér setningu, frekar en þrátt fyrir að hafi verið skynjað sem heildstæð samtenging, þ.e. [þrátt fyrir [það, […]]] frekar en [þrátt fyrir það […]. Það fellur vel að því sem Jakob Jóh. Smári segir í Íslenzkri setningafræði frá 1920: „Setningar, sem hefjast á þrátt fyrir það, að, eru eiginlega að-setningar og nota hætti samkvæmt því – venjulega frsh. í beinni ræðu – t.d. hann er snarpur, þrátt fyrir það að hann er ungur […].“

En þetta hefur breyst – í Íslenskri nútímamálsorðabók segir um þrátt fyrir að: 'samtenging í aukasetningu (tekur oftast viðtengingarhátt af sögninni á eftir)'. Þannig hefur þrátt fyrir (það) fetað í fótspor annarra viðurkenningartenginga sem alltaf taka viðtengingarhátt. Þessi breyting á hætti, ásamt hinni miklu aukningu á notkun styttri gerðarinnar sem verður á svipuðum tíma og kommum snarfækkar í lengri gerðinni, gæti líka bent til þess að þrátt fyrir (það) hafi smátt og smátt verið að þróast í sjálfstæða og heildstæða samtengingu í huga málnotenda. Hvað sem þessu líður er ljóst að samböndin þrátt fyrir að og þrátt fyrir það að eiga sér meira en hálfrar annarrar aldar hefð og fráleitt að amast eitthvað við þeim.