Mál er vald – vald er pólitík

Ég sá því sums staðar haldið fram í gær að skrif mín hér byggðust stundum á pólitík frekar en yfirlýstum tilgangi hópsins – „Það er nokkuð ljóst Eiríkur að þú ert að nota þennan hóp í einhverjum pólitískum tilgangi í stað þess að ræða íslensku og íslenskt mál“ var skrifað hér í hópnum og annars staðar var skrifað „Pólitíkin þvælist alltof oft fyrir íslenskufræðingnum“. Það er vissulega rétt að ég skrifa hér stundum um málefni sem eru pólitísk ágreiningsefni í samtímanum. Í gær var það áformað frumvarp um íslenskukröfur til leigubílstjóra, nýlega skrifaði ég um frumvarp um „lokað búsetuúrræði“, í fyrra skrifaði ég um tillögur þáverandi dómsmálaráðherra um „rafvarnarvopn“ og „afbrotavarnir“, og ýmislegt fleira mætti telja.

Allt er þetta vissulega pólitík. En það þýðir ekki að þessi skrif séu flokkspólitísk – að ég sé að skrifa í þágu einhvers tiltekins stjórnmálaflokks eða stjórnmálastefnu eða gegn einhverjum tilteknum flokki eða stefnu. Öll þessi skrif varða tungumálið og beitingu þess, og öll mín pólitísku skrif í þessum hópi miðast að því að gæta hagsmuna íslenskunnar og notenda hennar. Ástæðan fyrir því að ég skrifaði um áformað frumvarp Birgis Þórarinssonar um kröfur um íslenskukunnáttu leigubílstjóra er ekki sú að ég sé eitthvað sérstaklega á móti Birgi eða Sjálfstæðisflokknum, heldur sú að ég tel þetta frumvarp andstætt hagsmunum íslenskunnar eins og það er lagt upp – til þess fallið að kljúfa samfélagið sem er ekki íslenskunni í hag.

Vissulega voru „lokað búsetuúrræði“, „rafvarnarvopn“ og „afbrotavarnir“ allt saman mál á vegum dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins. En það var ekki ástæðan fyrir því að ég skrifaði um þessi mál, heldur var það vegna þess að í þeim var ýmist verið að nota ný orð í stað þeirra hefðbundnu eða snúa hefðbundinni merkingu íslenskra orða á haus, augljóslega í þeim tilgangi að hafa áhrif á skoðanir fólks á þeim málum sem um var að ræða. Slíkt fikt og blekkingarleikur með tungumálið er andstætt hagsmunum málnotenda og þess vegna áttu þau skrif fullkomið erindi í þennan hóp. Öðru máli hefði gegnt ef ég hefði verið að skrifa um efnisatriðið þessara mála – en það gerði ég ekki, heldur skrifaði eingöngu um hinn mállega þátt í þeim.

Því miður hættir alltof mörgum til að horfa á flest mál gegnum flokksgleraugu og ef fram kemur gagnrýni á eitthvert mál sem þeirra flokkur stendur fyrir finnst þeim eðlilegt að gera ráð fyrir að gagnrýnin sé sett fram á flokkspólitískum grunni frekar en vegna málefnalegrar andstöðu við umrætt mál. En það má ekki gleyma því að tungumálið og beiting þess er hápólitískt efni. Í tungumálinu felst vald, og þar sem er vald þar er pólitík. Ég vil með skrifum mínum reyna að valdefla almenna málnotendur, m.a. með því að leiða huga þeirra að því hvernig stjórnvöld, fyrirtæki og hvers kyns áhrifavaldar nýta sér tungumálið í eiginhagsmunaskyni. Eftir því sem við áttum okkur betur á því, þeim mun erfiðara verður fyrir ráðandi öfl að slá ryki í augu okkar.