Posted on Færðu inn athugasemd

Þrjár hneppur að framan

Áðan var hér spurt um orðalagið „Þrjár hneppur að framan“ og „Þrjár hneppur á sitthvorri erminni“ sem er notað í auglýsingu um leðurkápu og fyrirspyrjandi sagðist ekki hafa séð áður á prenti. Það sem hefur komið spánskt fyrir sjónir er væntanlega orðið hneppur sem hlýtur að vera fleirtala af kvenkynsorðinu hneppa. Það orð er að vísu að finna í orðabókum en mjög sjaldgæft og í allt annarri merkingu og samhengið sýnir glöggt að þarna hlýtur þetta að tengjast nafnorðinu hnappur og sögninni hneppa. Ég hélt fyrst að hneppa væri þarna notað í merkingunni hne(pp)sla, þ.e. 'hnappagat', en við nánari athugun kom í ljós að merkingin er víðari en svo. Orðið er sjaldséð á prenti en fáein nýleg dæmi um það eru í Risamálheildinni.

Nokkur dæmi: Á mbl.is 2021 segir: „Svo virðist sem hann hafi mögulega farið í þær öfugar, því framan á þeim er enginn rennilás, engin hneppa, ekkert!“ Á Hugi.is 2009 segir: „Það sést ekkert á henni alveg eins og ný bara, fyrir utan það að ein hneppan datt af inní vasanum.“ Á Bland.is 2005 segir: „Td jakki sem ég mátaði, smelpassaði, en gat ekki hnept því hneppan var svona brjóstahæð og bara náði ekki saman þar.“ Á Bland.is 2011 segir: „Ég heyrði um einhverja teygju eða eitthvað sem hægt væri að kaupa og láta í staðinn fyrir hneppuna eða allavega eitthvað svo maður geti notað gallabuxurnar lengur?“ Á Bland.is 2008 segir: „þegar hann er að hneppa henni sundur til að fara í hana þá fer bara hneppan af (voru smellur ekki tölur).“

Einnig er hægt að finna allnokkur dæmi um orðið hneppa í auglýsingum á netinu og þá fylgja yfirleitt myndir. Þessi dæmi og myndirnar benda til þess að orðið hneppa sé notað í víðri merkingu – merki í raun 'það sem gerir kleift að hneppa'. Í dæmum eins og „Falleg skyrta með hneppum alveg niður“ og „Hneppur aftan á hálsmáli til að auðvelt sé að klæða krílin“ má segja að hneppa vísi bæði til hnapps og hnappagats, en í dæmum eins og „Allur málmur og hneppur eru burstaðar“ og „Rauðar hneppur“ er einkum vísað til hnappsins. Eins og áður er komið fram er einnig hægt að nota orðið um smellur þar sem ekki er neitt hnappagat og ekki heldur hnappur í venjulegri merkingu – „Kuldagalli mjög hlýr og góður. Búið að naga tvær hneppur.“

Nafnorðið hneppa er eðlilegt orð og fellur vel að málinu, hvort sem litið er svo á að það sé myndað af nafnorðinu hnappur eða sögninni hneppa. Það er líka gegnsætt, í þeim skilningi að við tengjum það strax við orðin hnappur og hneppa þótt við þurfum að læra nákvæma merkingu orðsins sérstaklega eins og í flestum öðrum orðum sem kölluð eru „gegnsæ“. Svo er spurning hvort einhver þörf sé fyrir orðið. Í því samhengi má benda á að áður fyrr voru lítil tilbrigði í því hvernig flíkum var hneppt – með einföldum hnappi sem fór í gegnum hnappagat. Nú er fjölbreytnin margfalt meiri, happar oft fremur til skrauts en í hagnýtum tilgangi, og smellur oft í staðinn. Það getur verið hentugt að hafa orð sem nær yfir þetta allt og hneppa gerir það vel.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að drífa sig, flýta sér – og letsa

Í gær var hér spurt hvort ekki væri lengur gerður greinarmunur á orðasamböndunum drífa sig og flýta sér. Ég sagðist telja að þessi munur væri gerður, en vissulega er oft hægt að nota bæði samböndin í sömu merkingu. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er drífa sig skýrt 'anstrænge sig, være dygtig og energisk', þ.e. 'leggja sig fram, vera iðinn og kappsamur'. Í Íslenskri orðabók er sambandið drífa sig skýrt annars vegar 'taka á sig rögg og koma sér af stað (hefjast handa)' og hins vegar 'herða sig (við verk)'. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin drífa skýrð ‚sýna dugnað, framtakssemi, hraða‘ og undir henni er gefið sambandið drífa sig <af stað> með dæmunum drífið ykkur krakkar, við erum að fara; hann dreif sig á fætur klukkan 6.

Þarna eru sem sé tveir merkingarþættir – annars vegar 'dugnaður, kappsemi' og hins vegar 'hraði, viðbragð'. Sögnin flýta er skýrð ‚hraða (e-u), láta (e-ð) gerast hraðar, fljótar‘ í Íslenskri nútímamálsorðabók þannig að þar er skörun við aðra merkinguna í drífa, og iðulega gætu báðar sagnirnar átt við. Ef ég segi við þurfum að drífa okkur, við erum að verða of sein getur það annars vegar merkt 'nú þurfum við að sýna dugnað (við að koma okkur af stað)' og hins vegar 'nú þurfum við að vera fljót' – eins væri hægt að nota flýta okkur. Sama máli gegnir hugsanlega ef við erum á leiðinni eitthvað og ég segi við förum alltof hægt, nú þurfum við virkilega að drífa okkur – en ég er þó ekki viss um að öllum finnist eðlilegt að nota drífa sig við þær aðstæður.

Ástæðan fyrir því að þessi setning er e.t.v. vafasöm er sú að fyrir mörgum a.m.k. felst einhvers konar upphaf í drífa sig sem ekki er í flýta sér. Ég get sagt þegar ég mætti honum var hann alltaf að flýta sér í ræktina en mér finnst skrítið að segja þegar ég mætti honum var hann alltaf að drífa sig í ræktina – af því að þar er hann á leiðinni en ekki að hefja ferðina. En hugsanlega er þetta að breytast – a.m.k. finn ég slæðing af setningum með sambandinu alltaf að drífa sig þar sem ekki er augljóst að um eitthvert upphaf sé að ræða, eins og í Stundinni 2018: „Við gerum eitt í einu og sýnum þolinmæði fyrir líðandi stund í stað þess að vera alltaf að drífa okkur“ og „Fólkið í minni fjölskyldu er alltaf að drífa sig svo mikið“ á Bland.is 2010.

Í þessum dæmum væri eins hægt – og kannski eðlilegra – að nota flýta sér, en vissulega er hugsanlegt að lesa einhvers konar upphafsmerkingu úr þeim. Það virðist samt ekki ólíklegt að munurinn á merkingu drífa sig og flýta sér hafi dofnað undanfarið, en því fer samt fjarri að alltaf sé hægt að nota drífa sig í sömu merkingu og flýta sér. Mér finnst t.d. óeðlilegt eða útilokað að nota drífa sig í setningum eins og *hún spurði hvort þetta væri rétt og ég dreif mig að svara játandi, eða *það var beðið eftir mér svo að ég dreif mig eins og ég gat, eða *ég hef ekki drifið mig svona mikið í mörg ár, eða *við svona aðstæður er mikilvægt að drífa sig hægt. En ég skal samt ekki útiloka að einhverjum finnist einhverjar þessara setninga góðar og gildar.

Í tengslum við þetta má nefna nýlega sögn sem ungt fólk notar stundum í merkingunni ‚drífa sig, fara‘ – sögnina letsa. Dæmi um hana má m.a. finna á twitter 2016: „Núna þurfum við því miður að letsa“, og 2020: „Ég er að fara að henda mér í lopann og letsa“. En hugsanlega er letsa þegar úrelt eins og segir á twitter 2021: „Letsa er svona fjögurra ára gamalt og öööörugglega að detta út - held að núna sé LESSSSGO málið“ og „Þá er pottþétt löngu orðið ýkt halló að letsa“. Þetta er komið af let’s go á ensku – ensk sambræðsla sagnar og fornafns (let us) verður að íslenskri sögn sem fær merkingu ensku aðalsagnarinnar (go) – sem fellur brott. Kannski verður letsa ekki langlíf sögn en mér finnst þetta býsna skemmtileg orðmyndun.

Posted on Færðu inn athugasemd

Skotsilfur

Nýlega var hér spurt hvað fyrri liðurinn skot- í orðinu skotsilfur væri. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er skotsilfur skýrt 'lausir peningar, peningar til að eyða, reiðufé' og í Íslenskri orðabók er skýringin 'vasapeningar, eyðslueyrir, reiðufé' en þar kemur líka fram að skot eitt og sér geti m.a. merkt 'framlag eins einstaks til samskota'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er skotsilfur skýrt 'Lommepenge; Rejsepenge', þ.e. 'vasapeningar; ferðafé' og undir skot sem er skýrt á sama hátt og í Íslenskri orðabók er vísað á dæmi úr Riti þess íslenzka Lærdómslistafélags frá 1781: „skot (og skot-penningr) heitir, þá er hverr gefr sinn hluta til einhvers.“ Í Íslenskri orðsifjabók kemur fram að skot geti m.a. merkt ‚framlag (í peningum)‘.

Í fornmálsorðabók Fritzners, Ordbog over Det Gamle Norske Sprog, er vísað úr skotsilfur á skotpeningur sem hefur tvær merkingar: Annars vegar 'Penge som tilfalder en', þ.e. 'fé sem fellur einhverjum í hlut' og hins vegar 'Tærepenge, Penge som man erlægger for sig i Betaling for sin Underholdning, Beværtning', þ.e. 'dagpeningar, fé sem greitt er fyrir uppihald'. Við seinni merkinguna er vísað til samanburðar í écot á frönsku og scot, scotum í miðaldalatínu. Í seinni tíð (a.m.k. frá því á 19. öld) virðist fyrri merkingin ekki koma fyrir í skotsilfur þótt hún haldist í orðinu samskotskotsilfur er eingöngu notað í merkingunni 'eyðslueyrir' og áður fyrr langoftast um fé til að greiða útgjöld á ferðalagi – önnur en beinan ferðakostnað.

Þannig segir t.d. í Ísafold 1875: „Prinsinn af Wales hafði 1 milj. kr. eða freklega það í farareyri í Indlandsför sína, og undir það annað eins í skotsilfur.“ Í Heimskringlu 1886 segir: „kom þeim ásamt um, að verðið skyldi vera $67 (sextíu og sjö dollars!), eða með öðrum orðum farbrjef til Liverpool, sem kostar $55 og um 12 doll. í skotsilfri, til þess að svalla í leiðinni.“ Hér er gerður skýr munur á beinum ferðakostnaði og öðrum útgjöldum í ferðinni – skotsilfur er eyðslufé, notað til að greiða ýmislegt sem er ekki endilega allt bráðnauðsynlegt. En þetta gildir þó ekki eingöngu um ferðalög – í Skírni 1886 segir t.d.: „Drottning keisarans hefir í skotsilfur 600,000 rúflna, og heldur því fje, ef hún verður ekkja auk peninga til viðurværis og hirðkostnaðar.“

Posted on Færðu inn athugasemd

Að liggja í lausu lofti

Í innleggi hér í morgun, sem ég eyddi vegna neikvæðs orðalags, var vakin athygli á fyrirsögninni „Staðarhald á Hólum liggur í lausu lofti“ á mbl.is í dag og spurt hvort þetta væri „kannski bara eðlileg þróun málsins“. Þótt það hafi ekki komið fram geri ég ráð fyrir að fyrirspyrjandi telji að í stað sagnarinnar liggja ætti fremur að nota svífa eða vera – eins og reyndar er gert í upphafi fréttarinnar: „Staðarhald Hólastaðar er í lausu lofti.“ Vissulega er það rétt að sögnin vera er venjulega notuð í þessu sambandi sem merkir þarna 'hafa enga festu' segir í Íslenskri nútímamálsorðabók – í Íslenskri orðabók er sambandið svífa í lausu lofti skýrt 'vantar undirstöðu, er uppi í skýjunum'. Framtíð staðarhalds á Hólum er sem sé í algerri óvissu.

Nokkur dæmi um liggja í lausu lofti í þessari merkingu má finna í Alþingistíðindum, þau elstu meira en hundrað ára gömul. Það elsta er frá 1915, í ræðu Bjarna Jónssonar frá Vogi sem þótti enginn bögubósi: „Vona jeg, að þingmaðurinn breyti nú skoðun og greiði tillögum mínum atkvæði, þegar hann sjer, hversu spádómar hans liggja í lausu lofti.“ Annað dæmi er í ræðu Einars Jónssonar 1918: „En jeg vil hjer fara milliveginn, að alt sje ekki látið liggja í lausu lofti, en ekki heldur alt lögboðið, sem kemur við atvinnuþörfinni og vinnuveitandanum í bága.“ Þriðja dæmið er í ræðu Jakobs Möller 1927: „Ef þetta er ekki sönnun þess, að fyrirætlanir fjelagsins liggi í lausu lofti, þá veit jeg ekki, hvaða sannanir menn vilja fá.“

Á tímarit.is er á þriðja tug dæma um liggja í lausu lofti í þessari merkingu, það elsta í Sjómannablaðinu Víkingi 1948: „Þegar stjórnarsamvinnan rofnaði, var ekki búið að marka nægilega örugga stefnu í afurðasölumálunum. Þau lágu í lausu lofti.“ Í Vísi 1959 segir: „Þetta væru þó meira getgátur er lægju í lausu lofti.“ Í Morgunblaðinu 1966 segir: „Skýringin liggur í lausu lofti og áhorfandinn fær varla höndlað hana.“ Í Tímanum 1969 segir: „En það hlýtur alltaf að vera sanngirnismál, að ekki sé látið liggja í lausu lofti hverra breytinga sé von vegna framkvæmdanna.“ Ýmis nýleg dæmi eru líka til – í Fréttablaðinu 2023 segir: „Við breytum ekki fortíðinni en það er algjör óþarfi að láta málið liggja í lausu lofti lengur.“

Sambandið liggja í lausu lofti er vissulega fremur sjaldgæft – í Risamálheildinni eru rúm 800 dæmi um sambandið vera í lausu lofti en aðeins um 50 dæmi um liggja í lausu lofti. Hins vegar er sambandið liggja í loftinu í merkingunni 'eitthvað er yfirvofandi, líklegt er að eitthvað gerist' mjög algengt. Merkingin er vissulega ekki sú sama og í vera í lausu lofti en þó er ekki ýkja langt á milli – í báðum samböndum er um að ræða óvissu. Þótt ekkert sé hægt að fullyrða um þetta finnst mér því ekki ósennilegt að sambandið liggja í lausu lofti hafi orðið fyrir áhrifum frá liggja í loftinu. Það er auðvitað smekksatriði hvað fólki finnst um liggja í lausu lofti en þar eð elstu dæmin um það eru meira en hundrað ára gömul er a.m.k. ekki um að ræða splunkunýja „þróun“.

Posted on Færðu inn athugasemd

Mannleg mistök

Hér hefur oftar en einu sinni verið rætt um orðasambandið mannleg mistök sem mörgum finnst undarlegt – það er fólk sem gerir mistök og hljóta þá ekki öll mistök að vera mannleg? Orðið mistök er skýrt 'það sem er gert rangt' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'yfirsjón, handvömm, vangá, e-ð rangt, óheppilegt' í Íslenskri orðabók. Þar er sambandið mannleg mistök reyndar skýrt sérstaklega sem 'mistök vegna vangár eða vanrækslu (starfs)manna (en ekki vélarbilunar, náttúruaðstæðna o.s.frv.)' en merkt !? sem þýðir „orð eða málatriði sem ekki nýtur fullrar viðurkenningar, telst ekki gott mál í venjulegu samhengi“. Ástæðan fyrir þessari merkingu er væntanlega sú að mannleg þyki ofaukið vegna þess að sjálfgefið sé að mistök séu mannleg.

Oft eru mistök afleiðing ákvörðunar sem hefur verið hugsuð vandlega í langan tíma og það sem var gert var nákvæmlega það sem til stóð – en reynist samt sem áður hafa verið rangt, eftir á að hyggja. Það getur liðið langur tími áður en fólk kemst að þeirri niðurstöðu að þessi ákvörðun hafi verið röng, og það getur iðulega verið umdeilt hvort hún hafi verið það yfirleitt – t.d. þegar um er að ræða ákvarðanir í stjórnmálum. Aftur á móti sýnist mér að sambandið mannleg mistök sé einkum notað þegar um er að ræða athöfn eða aðgerð sem framkvæmd er að lítt hugsuðu máli eða í ógáti – jafnvel þegar annað er gert en til stóð, t.d. ýtt á rangan takka eða eitthvað slíkt. Yfirleitt kemur þá strax í ljós að mistök hafa verið gerð og um það er sjaldnast ágreiningur.

Þegar orðalagið mannleg mistök er gagnrýnt á þeim forsendum að öll mistök séu manngerð og hljóti þar af leiðandi að vera mannleg er litið fram hjá því að lýsingarorðið mannlegur hefur tvær merkingar. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'eins og maður, með þeim ágöllum sem því fylgir' og 'sem varðar manninn, manneskjuna'. Í Íslenskri orðabók eru sömu merkingar gefnar þótt lýsing þeirra sé orðuð eilítið öðruvísi – sú fyrri er 'í samræmi við mannseðlið' og sú seinni 'sem heyrir til mönnum'. Dæmið sem tekið er um þá fyrri er það er mannlegt að skjátlast – sem er einmitt merkingin sem lýsingarorðið hefur í sambandinu mannleg mistök. En fólk virðist oft líta svo á að í þessu sambandi sé um seinni merkinguna að ræða – sem er rangt.

Þetta þýðir að fólk gerir yfirleitt ekki mannleg mistök í þeirri merkingu að um meðvitaða og áformaða aðgerð sé að ræða – mannleg mistök gerast eða verða, oft vegna ytri aðstæðna, þau eru slys, óhöpp. Þessi sérstaða mannlegra mistaka kemur t.d. skýrt fram í því að á tímarit.is er á níunda hundrað dæma um sambandið gerði mistök en aðeins eitt um gerði mannleg mistök, og í Risamálheildinni eru tæp sjö hundruð dæmi um ég gerði mistök en aðeins þrjú um ég gerði mannleg mistök. Vissulega er ekki alltaf skýr munur á mistökum og mannlegum mistökum en það er samt í raun og veru ekki rétt að líta einfaldlega á mannleg mistök sem undirflokk mistaka – þau eru oftast annars eðlis og mér finnst ekkert að því að tala um mannleg mistök.

Hlutverk lýsingarorðsins í sambandinu mannleg mistök er að leggja áherslu á að það sé mannlegt að gera mistök og þar með oft að afsaka það sem gerðist og draga úr ábyrgð gerandans. Það er líka mannlegt – í sömu merkingu – en við þurfum að gæta þess vel að þetta orðalag sé ekki misnotað. Í frásögn Vísis af glæfraakstri rútu á Reykjanesbraut fyrr í vikunni var haft eftir yfirmanni verkstæðis þar sem rútan átti að vera: „Hann segir ljóst að þarna hafi verið um mannleg mistök að ræða.“ En þetta voru alls ekki mannleg mistök í þeirri merkingu sem það samband hefur vanalega. Þessu athæfi verður betur lýst sem alvarlegum dómgreindarskorti og jafnvel „einbeittum brotavilja“ svo að notað sé orðalag úr lögfræði.