Að öfunda frægð og velgengni
Í fyrirsögn fréttar á mbl.is í dag segir „Öfunda frægð og velgengni yngri systra sinna“ og í fréttinni sjálfri segir: „Hudson og Lively, sem starfa einnig sem leikarar, viðurkenndu að öfunda velgengni yngri systra sinna sem og öll tækifærin sem þeim býðst í Hollywood.“ Ég staldraði við þetta vegna þess að sögnin öfunda er þarna notuð á óvenjulegan hátt. Venjulega er hún notuð um fólk en einnig er hægt að nota hana um hópa, félög og samfélög fólks. Einnig er öfunda stundum notuð með staðaheitum en þá er í raun vísað til fólks líka, þ.e. samfélagsins á staðnum – „Ég held að enginn vafi sé á því að stjórnendur margra stórborga úti í heimi öfunda Reykjavík af legu flugvallarins svo nærri miðbænum“ segir í Morgunblaðinu 2001.
Það er hins vegar ekki hefð fyrir því að öfunda óáþreifanlega hluti eins og frægð og velgengni. Um það má þó finna nokkur dæmi á netinu en sum þeirra virðast vera vélþýdd og eru því ekki marktæk. Önnur dæmi eru sárafá: „Þessi pirringur hjá Joel endurspeglar bara mótlætið sem hann fær frá fólki sem öfundar velgengni hans“ á Hugi.is 2008, „Konur um allan heim öfunda hugarfar og sjálfsöryggi franskra kvenna“ á Bleikt.is 2014, „Tiger Woods öfundar golfsveiflu sex ára sonar síns“ á Kylfingur.vf.is 2015 og „Ég get samt ekki gert upp við mig hvort ég öfunda kastíþróttir af þessum seríum“ á twitter 2021. Svo eru auðvitað dæmi eins og „Ég veit ég öfunda vorið“ í „Ég leitaði blárra blóma“ eftir Tómas Guðmundsson en þar er vorið persónugert.
Þetta eru sem sé algerar undantekningar, og það er nokkuð ljóst að í fréttinni sem vitnað var til í upphafi er um ensk áhrif að ræða – í samsvarandi frásögn á ensku segir: „Kate Hudson’s and Blake Lively’s siblings Oliver and Robyn admit they’re envious of sisters’ fame.“ Nú er svo sem ekkert stórmál þótt ein sögn verði fyrir áhrifum frá ensku og breyti hegðun sinni en samt er alltaf æskilegast að halda í hefðbundna málnotkun ef þess er kostur, og þarna hefði verið hægt – og eðlilegt – að segja öfunda yngri systur sínar af frægð þeirra og velgengni. Sambandið öfundast út í er líka notað bæði um fólk og óáþreifanlega hluti – hægt hefði verið að segja öfundast út í frægð og velgengni systra sinna og á tímarit.is má finna nokkur hliðstæð dæmi.