Íslenska í fjármálaáætlun
Fjármálaráðherra kynnti í morgun nýja fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2025-2029. Fyrir ári fór ég vandlega í gegnum síðustu fjármálaáætlun, 2024-2028, og skrifaði um hana pistil það sem ég klykkti út með því að segja: „Í heildina má segja að frá sjónarhóli íslenskrar tungu sé fjármálaáætlunin dapurleg lesning og veki litlar vonir um að íslenskan komist úr þeirri varnarstöðu sem hún er í.“ Það er skemmst frá því að segja að hin nýja fjármálaáætlun er síst ánægjulegri lesning. Þar segir vissulega að áhersla verði lögð „á að efla íslensku og íslenskt táknmál sem opinber mál á Íslandi“ og það er svo sem minnst á íslenskuna og mikilvægi hennar á ýmsum stöðum í áætluninni, t.d. í kafla um málefni innflytjenda og flóttafólks.
Í þeim kafla segir m.a.: „Innflytjendum fer fjölgandi og voru þeir 18,7% af heildarmannfjölda hér á landi, eða 74.000, 1. desember 2023. Aðgengi innflytjenda að íslenskunámi og samfélagsfræðslu þarf að vera auðvelt, m.a. með samhæfðari upplýsingagjöf en nú er, bæta þarf faglegan stuðning við kennara og tryggja fjölbreyttari leiðir til að læra íslensku og æfa talmál. Í því sambandi er hafið verkefni um þróun starfstengdrar íslenskufræðslu á vinnutíma samhliða leiðsagnarkerfi. Þá er stutt við aukna notkun stafrænna lausna þar sem læra má starfstengdan orðaforða hvar og hvenær sem er. Unnið verður áfram að útfærslum aðgerða í tillögum til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026 […].“
Í kafla um grunnskóla segir: „Mæta þarf þörfum barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn og barna í viðkvæmri stöðu til að stuðla að auknum jöfnuði í menntun og til að auka virkni þessara hópa í námi og starfi. […] brýnt er að styrkja kennslu þessa hóps í íslensku sem öðru tungumáli og áherslu á virkt fjöltyngi.“ Í kafla um framhaldsskóla segir: „Tryggja þarf kennslu við hæfi í hvetjandi námsumhverfi, auka íslenskukennslu og fræðslu um íslenskt samfélag og veita viðeigandi stuðning. Aukinn fjöldi umsókna barna um alþjóðlega vernd kallar einnig á aukinn stuðning skólakerfisins, s.s. sálrænan stuðning, almenna móttöku og styrkingu kennslu í íslensku sem annars tungumáls (ÍSAT) […].“
Þetta eru falleg orð sem hægt er að taka undir en þau eru samt lítils virði ef þeim er ekki fylgt eftir með fjárveitingum. Í fyrri áætlun stóð: „Tillaga til þingsályktunar um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi er í vinnslu og fjallar um mikilvægi íslenskrar tungu og nauðsyn þess að tryggja að tungumálið verði áfram notað á öllum sviðum íslensks samfélags.“ Eins og kemur fram í nýju áætluninni hefur tillagan nú verið lögð fram og „[l]eiðarstef í áætluninni eru bætt aðgengi og gæði íslenskukennslu fyrir innflytjendur og aukinn sýni- og heyranleiki tungumálsins“. Þessi tillaga hefur vissulega ekki verið samþykkt enn en samt hefði mátt ætla að hennar sæi víða stað í fjármálaáætluninni. En eftir því sem ég fæ best séð fer lítið fyrir því.
Ég sé a.m.k. hvergi í áætluninni að til standi að auka fjárveitingar til kennslu íslensku sem annars máls. Í áætluninni er sett fram það markmið að „Hlutfall flóttafólks sem nýtir íslenskunámskeið á fyrsta ári eftir verndarveitingu“ fari úr 75% árið 2023 í 90% árið 2029, og „Fjöldi skráninga á íslenskunámskeið viðurkenndra fræðsluaðila“ fari úr 9.691 árið 2023 í 15.000 árið 2029. En það er til lítils að setja fram mælikvarða og göfug markmið ef ekkert kemur fram um hvernig eigi að ná þeim markmiðum og ekkert fé er sett í að ná þeim. Sums staðar virðist m.a.s. unnið þvert á markmið um eflingu íslenskunnar – í áætluninni kemur t.d. fram að felld verði niður 360 milljóna króna tímabundin fjárveiting til máltækni.
Því miður er hér hægt að endurtaka óbreytt það sem ég sagði um fyrri fjármálaáætlun en í fylgigögnum nýrrar áætlunar „er fjallað um stöðu og horfur á einstökum málefnasviðum í mörgum köflum sem öllum er skipt í undirkafla á sama hátt. Meðal undirkafla eru „Helstu áskoranir“, „Tækifæri til umbóta“ og „Áhættuþættir“. Það vekur sérstaka athygli að þörf fyrir íslenskukennslu er sjaldnast nefnd í köflum um helstu áskoranir – ekki í „10.05 Útlendingamál“, ekki í „14.1 Ferðaþjónusta“, og ekki í „29.7 Málefni innflytjenda og flóttafólks“. Tækifæri sem íslenskukennsla skapar eru ekki heldur nefnd í köflum um tækifæri til umbóta, og áhættan af því að hér verði til samfélög fólks sem ekki talar íslensku er ekki nefnd í köflum um áhættu.“
Í áætluninni er gert ráð fyrir „400 m.kr. varanlegu framlagi til menningarmála þar sem m.a. er horft til stofnunar þjóðaróperu og starfslauna listamanna“. Þetta er vitaskuld ánægjulegt – íslensk listsköpun styrkir íslenskuna á ýmsan hátt. En einnig er gert ráð fyrir „8.220 m.kr. tímabundnu framlagi vegna framkvæmda við þjóðarhöll á tímabilinu 2025-2027“. Það er gott og blessað að fá nýja þjóðarhöll – sú sem við eigum er sögð of lítil og úrelt um margt. En ekki má gleyma því að við eigum óefnislega þjóðarhöll þar sem er íslensk tunga. Hún þarfnast viðhalds og styrkingar – en ef hún hrynur, eða hættir að fullnægja þörfum samfélagsins, er ekki hægt að byggja nýja. Henni veitti ekkert af átta milljarða innspýtingu. Við þurfum að gera betur.