Fjöldi Sómala sem eru búsettir á Íslandi
Í morgun var hér vitnað í setninguna „fjöldi Sómala sem eru búsettir á Íslandi“ og spurt hvort rétt væri að nota fleirtöluna eru búsettir frekar en láta eintöluorðið fjöldi ráða sambeygingunni og skrifa er búsettur. Þessi setning leynir dálítið á sér því að þarna er tilvísunarsetning, sem eru búsettir á Íslandi, og tvö nafnorð sem hún gæti tengst – annars vegar fjöldi og hins vegar Sómala. Ef hún tengist eintöluorðinu fjöldi ætti það orð að ráða sambeygingunni og þá fáum við eintölu, en ef hún tengist Sómala sem er fleirtala ættum við að fá fleirtölu. Í þessu tilviki finnst mér eðlilegt að líta svo á að verið sé að vísa til Sómala sem einstaklinga og tilvísunarsetningin tengist því orði, og setningin sé því rétt eins og hún er tilfærð, með fleirtölu.
Öðru máli gegnir hins vegar ef frumlag setningarinnar væri hópur Sómala frekar en fjöldi Sómala. Það væri t.d. eðlilegt að segja hópur Sómala sem er búsettur á Íslandi efndi til mótmæla vegna þess að þar er vísað til Sómalanna sem heildar – hóps. Þá er tilvísunarsetningin skilin þannig að hún tengist hópur frekar en Sómala og því er notuð eintala í henni – er búsettur. En vissulega er hugsanlegt að skilja báðar setningarnar, bæði með fjöldi og hópur, á tvo vegu – frá setningafræðilegu sjónarmiði getur tilvísunarsetningin tengst hvoru nafnorðinu sem er.Það kemur alveg til greina að segja fjöldi Sómala sem er búsettur á Íslandi og hópur Sómala sem eru búsettir á Íslandi – mér finnst það bara ekki eins eðlilegt. En það er ekki rangt.
Hins vegar kom fram í umræðum að mörgum fannst að þarna hlyti að eiga að vera eintala – fjöldi Sómala sem er búsettur á Íslandi. Mér finnst ekki ólíklegt að þar spili ofvöndun inn í og fólk blandi þessu saman við dæmi án tilvísunarsetningar eins og fjöldi Sómala eru búsettir á Íslandi – við erum vön því að vera vöruð við slíkum dæmum, eins og t.d. í Málfarsbankanum sem segir: „Orðið fjöldi vísar til margra þótt það standi sjálft í eintölu. Beygingin miðast við form orðsins, þ.e. eintöluna, fremur en merkingu þess. Fjöldi skipa fékk góðan afla (ekki: „fjöldi skipa fengu góðan afla“).“ En eins og ég hef áður bent á hefur merkingarleg sambeyging þar sem notuð er fleirtala með orðinu fjöldi tíðkast í málinu allar götur síðan í fornmáli.