Var hún útskúfuð eða henni útskúfað?

Í gær var hér spurt út í orðalag hliðstætt því sem sjá mátt í fyrirsögn í DV í gær, „Guðbjörgu var útskúfað“. Fyrirspyrjandi sagðist hafa alist upp við að nota nefnifall í slíkum dæmum – sé það gert er setningin Guðbjörg var útskúfuð – og spurði hvort annað væri réttara en hitt. Því er fljótsvarað að hvort tveggja er rétt. Vissulega er enginn vafi á að sögnin útskúfa stýrir þágufalli eins og fram kemur í Íslenskri nútímamálsorðabók þar sem notkunardæmið er menntamenn hafa útskúfað honum úr sínum hópi og þess vegna mætti búast við þágufalli í sambandinu var útskúfað. Þágufall á andlagi helst þótt andlagið sé gert að frumlagi í þolmyndarsetningu –  einhver hjálpaði henni í germynd verður henni var hjálpað í þolmynd, ekki *hún var hjálpuð.

Það má vissulega finna gömul dæmi um þágufall í þolmynd af útskúfa – í Austra 1887 segir: „Hvers á hinn fagri og kjarngóði sálmur séra Kristjáns Jóhannssonar […] að gjalda, að honum er útskúfað í Nb.?“ Í Sameiningunni 1887 segir: „Ekki ein rödd heyrist nú, sem mælir á móti því, að honum sé útskúfað, sem áðr var tilbeðinn af svo mörgum.“ En eins og Jón G. Friðjónsson hefur bent á eru einnig til gömul dæmi um nefnifall – Jón sýnir dæmi allt frá 14. öld, en elsta dæmi um nefnifallið á tímarit.is er í fyrsta árgangi Fjölnis 1835: „forfeður vorir kendu það umbrotum ins bundna jötuns, sem fyrir ílsku sakir var útskúfaður úr félagi guðanna.“ Í Nýrri sumargjöf 1859 segir: „Sönn að sök, útskúfuð og fyrirdæmd um tíma og eylífð.“

Það má skýra nefnifallið með því að útskúfaður getur verið lýsingarorðssagnfylling frekar en lýsingarháttur þátíðar, eins og Jón bendir á, og þá er hún var útskúfuð ekki þolmynd þótt henni var útskúfað sé það. Þolmyndin lýsir athöfn og hægt er að tilgreina geranda í forsetningarlið – henni var útskúfað af fjölskyldunni. Aftur á móti er hún var útskúfuð germynd, lýsir ástandi. Jón G. Friðjónsson segir: „Ég tel ekki efni til að telja fortakslaust að annað afbrigðið sé réttara en hitt“ og undir það má taka, enda er þetta hliðstætt við ýmsar fleiri sagnir sem hér hefur verið skrifað um, t.d. bjóða þar sem boðinn er lýsingarháttur þátíðar í mér var boðið í mat en lýsingarorðssagnfylling í ég var boðinn í mat.