Að hafast og hefjast

Í Málvöndunarþættinum sá ég bent á að í sjónvarpsfréttum í gær hefði sambandið „Þetta hófst“ verið notað í merkingunni 'þetta kláraðist, þetta tókst' eins og um væri að ræða sögnina hafast. Hefðbundin beyging þeirrar sagnar en hins vegar veik, þannig að þarna hefði mátt búast við myndinni hafðisthófst er hins vegar hefðbundin þátíð sagnarinnar hefjast sem merkir 'fara í gang, byrja'. Þarna var þessum tveim sögnum því slegið saman sem er ekkert einsdæmi. Skýringin er væntanlega sú að beyging þeirra fellur saman að hluta – (ég) hef, (þú) hefur, (hann/hún/hán) hefur er framsöguháttur nútíðar í eintölu af báðum sögnunum. Í umræddu tilviki var þetta samfall yfirfært á þátíðina og hófst notað sem þátíð af hafast.

Slæðing af hliðstæðum dæmum má finna frá síðasta aldarfjórðungi en vel má vera að eldri dæmi séu til. Í DV 2000 segir: „Ég fékk eiginlega of stóran skammt en þetta hófst allt saman á endanum.“ Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Þetta hófst allt að lokum og rúmlega það.“ Í blaðinu 2007 segir: „Það tók mig svolítinn tíma að sannfæra hann um að taka þátt í þessu, en það hófst á endanum.“ Í Fréttablaðinu 2007 segir: „Þetta var erfið fæðing hjá okkur en þetta hófst að lokum.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Það hófst að lokum og þá lá leiðin upp í brú.“ En þetta eru ekki einu dæmin um að beyging sagnanna hefjast og hafast blandist saman eins og Jón G. Friðjónsson benti á í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2005.

Jón segir að beyging sagnanna sé „mjög ólík og merking þeirra reyndar einnig“ en heldur áfram: „Samt er það svo að þessum sögnum (einkum vh.þt.) er stundum ruglað saman“ og nefnir dæmi um notkun hefðust í stað hæfust en segir síðan: „Hér er vafalaust um að ræða klaufaskap eða mismæli fremur en tilhneigingu til málbreytingar (þótt ruglingur sagnanna hefja og hafa í viðtengingarhætti þátíðar sé reyndar allgamall).“ Mér finnst hins vegar mun líklegra að um tilhneigingu til málbreytingar sé að ræða. Nútíð viðtengingarháttar af hefjast er (þótt ég) hefjist og ekki furða að málnotendum finnist eðlilegt að þátíð viðtengingarháttarins sé (þótt ég) hefðist frekar en (þótt ég) hæfist – það er hliðstætt t.d. (þótt ég) krefjist – (þótt ég) krefðist.

Dæmi eru allt frá 19. öld um hefðist í stað hæfist. Í Heimskringlu 1895 segir: „hjá því gat ekki farið að almenningur, svívirtur og þrælkaður, hefðist handa að lokum.“ Í Verkamanninum 1919 segir: „Reyndar væri eðlilegast að læknarnir hefðust handa í þessu máli.“ Í Alþýðublaðinu 1930 segir: „Setti þá Alþýðuflokkurinn á stefnuskrá sína, að þegar hvalveiðar hefðust á ný, þá ætti landið sjálft að reka þær veiðar.“ Í Landnemanum 1943 segir: „Honum var bersýnilega umhugað um, að umræðurnar hefðust aftur.“ Í Degi 1988 segir: „ekki bjóst hann við að viðræður hefðust á ný á næstunni.“ Í Morgunblaðinu 2003 segir: „Varaði fundurinn við hræðsluáróðri öfgasamtaka og hvatti til þess að hvalveiðar hefðust strax á nýju ári.“

Beyging sagnanna hafast og hefjast blandast því saman á tvennan hátt – annars vegar kemur framsöguháttur þátíðar af sterku sögninni hefjast í stað samsvarandi myndar af veiku sögninni hafast, þ.e. hófst í stað hafðist. Það er athyglisvert vegna þess að stefnan í málbreytingum er venjulega öfug, frá sterkum myndum í veikar. Þarna spilar e.t.v. inn í að hófst er styttri og einfaldari mynd en hafðist. Í hinu tilvikinu er stefnan öfug – þar kemur viðtengingarháttur þátíðar af veiku sögninni hafast í stað samsvarandi myndar af sterku sögninni hefjast. Þar er skýringin væntanlega einföldun eins og áður segir – hefðust liggur beinna við en hæfust. En þótt þessar breytingar séu eðlilegar væri æskilegt að halda sögnunum áfram aðgreindum.