Við þurfum að ræða viðmið og kröfur
Umræðan um íslenskukennsku og mikilvægi íslenskukunnáttu heldur áfram. Í ágætu viðtali í Ríkissjónvarpinu í gær spurði Jasmina Vajzović Crnac: „Hver eru viðmiðin? Hve mörg orð þarf ég að kunna? Þarf ég að kunna málfræði? Hversu mikla kunnáttu þarf ég að vera með til að starfa í ferðaþjónustunni, hótelinu eða við að þrífa? Eða eins og ég, í stjórnunarstarfi? Hversu miklar kröfur eigum við að gera til þess? Og við þurfum að setja kröfur. Það er bara eðlilegt og almennt þurfum við að setja kröfur á allt í samfélaginu.“ Þetta rímar alveg við það sem ég skrifaði fyrir þremur árum um ensku á Íslandi og nauðsyn þess „að hefja öfluga og markvissa umræðu um það hvaða hlutverk og stöðu við ætlum henni í málsamfélaginu“:
„Við hvaða aðstæður er eðlilegt eða óhjákvæmilegt að nota ensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni fólks sem ekki kann íslensku? Hvernig tryggjum við hagsmuni fólks sem ekki kann ensku? Hvernig auðveldum við fólki með annað móðurmál að taka fullan þátt í samfélaginu? Hvernig eflum við íslenskuna þannig að hún verði nothæf á öllum sviðum þjóðlífsins? Hvernig gerum við íslenskuna áhugaverðari og eftirsóknarverðara að nota hana? Hvernig geta íslenska og enska átt friðsamlegt og gott sambýli í málsamfélaginu?“ Ég bætti við: „Þetta eru nokkur dæmi um það sem þarf að ræða á næstunni – og byrja strax.“ Því miður hefur skipuleg umræða um þetta enn ekki hafist – en verður sífellt brýnni.