Breytum viðhorfi og framkomu
Í Vísi í dag er mjög fróðlegt viðtal við Randi Stebbins, konu frá Bandaríkjunum sem býr á Íslandi og margt í því sem við þurfum að taka eftir – og taka til okkar. Hún er lögfræðingur en hefur ekki leyfi til að starfa sem slík á Íslandi, þrátt fyrir að vera sérfræðingur á sviði þar sem okkur vantar sárlega fólk – málefni innflytjenda. Hún segir: „Ég er bara alls ekki sammála því að allar konur af erlendu bergi brotnu þurfi að byrja á því að vinna á leikskóla. Því okkur er endalaust sagt að það sé svo gott fyrir okkur að læra íslenskuna þar. […] Það er bara alls ekki rétt. Ég lærði íslenskuna í Háskóla Íslands. Það er bara alls ekki réttlátt að því sé endalaust haldið að konum sem flytja til Íslands, að þær þurfi að vinna á leikskóla.“
Þetta er athyglisvert. Ég hef oft heyrt því haldið fram að leikskóli sé góður staður til að læra íslensku en ég hef aldrei heyrt áður að því sé beinlínis haldið að fólki að það þurfi að vinna á leikskóla til að læra málið. Sjálfsagt er það sagt af góðum hug, og vissulega getur fólk lært talsvert í málinu af samskiptum við börn og skiljanlegt að innflytjendur séu ráðnir á leikskóla í því starfsfólkshallæri sem ríkir. En þótt þeir geti vitanlega verið frábært starfsfólk verður ekki litið fram hjá því að notkun leikskóla til íslenskukennslu fer ekki vel saman við það mikilvæga hlutverk leikskólans að efla málþroska barnanna, eins og hér hefur oft verið bent á. Hátt hlutfall starfsfólks sem talar litla íslensku dregur úr íslensku í málumhverfi barnanna.
En Randi var ekki bara nemandi í Háskóla Íslands, heldur starfaði þar líka í átta ár, m.a. sem forstöðumaður Ritvers Háskólans og það reyndi oft á: „Starfið þar var erfitt því til viðbótar við það að sinna því sem starfsmaður, fór jafn mikill tími í að vera að sanna mig. Því gagnrýnin var svo oft á að ég væri ekki að skilja fræðiskrif á íslensku, væri ekki að skrifa nógu góða íslensku sjálf og svo framvegis. […] Þarna þurfa Íslendingar aðeins að fara að hugsa sinn gang. Samfélagið er að breytast og ef ætlunin er að nýta mannauð fólks sem kemur erlendis frá, getum við ekki verið föst í að hér geti enginn gert neitt eða kunnað 100% nema hann eða hún eigi ömmu sem fæddist á Íslandi. Það er bara alls ekki þannig.“
Þetta er grundvallaratriði – við þurfum að breyta viðhorfi okkar til „ófullkominnar“ íslensku og framkomu okkar við fólk sem hefur ekki náð fullkomnu valdi á málinu. Randi hefur gert sitt til að stuðla að því og stofnað „ÓS Pressuna, sem ætlað er sem vettvangur fyrir fólk erlendis frá til skapandi skrifa. […] ÓS gengur út á skapandi skrif og það er mjög mikilvægt fyrir fólk sem talar annað tungumál að móðurmáli að hafa vettvang til skapandi skrifa.“ Þetta er hárrétt og skáldverk innflytjenda hafa sannarlega auðgað íslenskuna að undanförnu. Íslenskan þarf nefnilega að endurspegla það samfélag sem býr í landinu og það gerir hún ekki nema við veitum fólki sem á hana ekki að móðurmáli fullan aðgang að íslensku málsamfélagi.