Posted on Færðu inn athugasemd

Háir skaflar – eða djúpir?

Í Málvöndunarþættinum var vitnað í fyrirsögnina „Snjóskaflarnir allt að fjögurra metra djúpir“ á mbl.is og sagt „Hefði frekar notað hversu skaflarnir væru háir.“ Hér er við hæfi að vitna í greinina „Um þýðingarleysi“ sem Þorgeir Þorgeirson skrifaði í Tímariti Máls og menningar 1984: „Þó get ég ekki stilt mig um að nefna skemtilegt dæmi (sem einnig sannar hvað orðabókin getur verið tvíeggja vopn í þessu stríði). Frummál: (du) opsluges af en höj snedrive, verður í fyrsta uppkasti: (þú) ert gleyptur af háum snjóskafli. Þetta er lemstrað. Hvað er að? Vangaveltur og stunur, göngutúr niðrað Tjörn og loksins kemur það. Íslenskur snjóskafl er ekki hár heldur djúpur!!! Og setningin er flutt yfir svolátandi: (þú) sekkur í djúpan skafl sem gleypir þig.“

Þetta er samt ekki alveg svona einfalt. Á tímarit.is eru talsvert fleiri dæmi um hár (snjó)skafl en djúpur (snjó)skafl, og í Risamálheildinni eru dæmin með hár meira en þrisvar sinnum fleiri en dæmin með djúpur, þannig að hár virðist vera aðalorðið og sækja á í þessu sambandi öfugt við það sem Þorgeir sagði. En þótt merkingin virðist svipuð er ekki alltaf hægt að skipta öðru orðinu út fyrir hitt vegna þess að þau endurspegla oft mismunandi sjónarhorn. Skaflinn er djúpur ef horft er á hann lóðrétt, ofan frá, t.d. ef maður sekkur í hann eins og í dæmi Þorgeirs. En hann er hár ef horft er á hann lárétt, t.d. ef staðið er við hlið hans. Íslenskur snjóskafl getur þess vegna verið bæði hár og djúpur, eða ýmist hár eða djúpur, eftir því hvernig á það er litið.

Þessi mismunandi sjónarhorn má sjá í textum frá ýmsum tímum. Í Ársriti hins íslenzka kvenfélags 1899 segir: „piltarnir í skóla þessum höfðu fleygt skólastjóranum á höfuðið út um gluggann og ofan í djúpan snjóskafl.“ Í Dýravininum 1909 segir: „Hann gróf sig í fönn í djúpum skafli.“ Í Morgunblaðinu 1956 segir: „Í svo sem tuttugu metra fjarlægð frá þeim tók skíðamaðurinn heljarmikið stökk, stakkst á höfuðið í djúpan snjóskafla og hvarf sjónum þeirra.“ Í Norðanfara 1873 segir: „Snjórinn er sagður hafa fokið saman í 15 feta háa skafla eða meira.“ Í Morgunblaðinu 1914 segir: „Hér eru nú stiku háir snjóskaflar á aðalgötum miðbæjarins.“ Í Jólablaðinu 1930 segir: „Stormurinn hefur hlaðið snjónum í háa skafla hér og þar.“

Hitt er annað mál að óvíst er að málnotendur geri alltaf þennan mun eða átti sig á honum, og oft getur sjónarhornið líka verið á hvorn veginn sem er. Í umræddri frétt mbl.is segir: „Búið er að stinga í gegnum skaflana á heiðinni, sem margir hverjir eru allt að fjögurra metra djúpir, að því er fram kemur á heimasíðu Vegagerðarinnar“ – en þar segir hins vegar: „Búið er að stinga í gegnum skaflana sem margir hverjir eru allt að fjögurra metra háir“ (feitletrun mín). Hvort tveggja getur átt rétt á sér – það má segja að áður en farið er að moka séu skaflarnir djúpir því að þá er eingöngu horft á þá lóðrétt, en þegar búið er að moka göng í gegnum skaflana má tala um þá sem háa því að þá er hægt að vísa í stálið sitt hvoru megin við snjógöngin.

Posted on Færðu inn athugasemd

Fólk að fornu og nýju

Orðið fólk hefur verið algengt í málinu alla tíð. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'manneskjur' og 'fjölskylda, skyldmenni' (sbr. fólkið mitt) en upphafleg merking þess „er efalítið 'lýður, almenningur, mannfjöldi'“ segir í Íslenskri orðsifjabók. Orðið hefur einnig tekið þátt í fjölmörgum samsetningum – í safni Ordbog over det norrøne prosasprog (ONP) eru taldar um níutíu samsetningar með -fólk sem seinni lið. Margar þeirra eru algengar enn í dag, s.s. alþýðufólk, heimafólk, heimilisfólk, hirðfólk, kvenfólk, landsfólk, mannfólk, smáfólk, vinnufólk, þjónustufólk, ættfólk – en aðrar sjaldgæfar eða horfnar úr málinu, s.s. fátækisfólk, hoffólk, hreinlífisfólk, karlafólk, karlmannafólk, leiðangursfólk, leikfólk, staðarfólk, ölmusufólk o.fl.

Í meirihluta tilvika eru einnig til samsvarandi samsetningar með seinni hlutann -maður og slíkar samsetningar eru vissulega margfalt fleiri – hátt í 1300 taldar í ONP. Oft kemur sami fyrri liður fyrir bæði með -fólk og -menn án þess að skýr merkingarmunur sé á orðunum og stöku sinnum eru lesbrigði í handritum þannig að -fólk er notað í einu handriti en -menn á sama stað í öðru handriti sama texta. Þó er hugsanlegt að -fólk sé fremur notað þegar ljóst á að vera að vísað sé til bæði karla og kvenna. Þannig eru fleiri dæmi um land(s)fólk en landsmenn, og einnig eru allmörg dæmi um hoffólk, staðarfólk, sóknarfólk o.fl. Einnig koma fyrir nokkur þjóðaheiti með -fólk Noregsfólk, Danalandsfólk, Frankaríkisfólk, Ísraelsfólk, Egyptalandsfólk og Afríkafólk.

Engin þessara þjóðaheita eru notuð í nútímamáli – meirihluti þjóða- og íbúaheita í málinu endar á -maður/-menn en á seinustu árum er farið að nota orð eins og Palestínufólk (sem reyndar kemur fyrst fyrir 1958) og Úkraínufólk við hliðina á Palestínumenn og Úkraínumenn. Þetta tengist sennilega persónulegri reynslu af fólkinu. Árið 2008 kom hingað hópur flóttafólks frá Palestínu, einkum konur og börn, og mörgum virðist hafa fundist óeðlilegt að tala um það fólk sem Palestínumenn. Sama er að segja um Úkraínufólk en það orð kom upp þegar flóttafólk fór að koma frá Úkraínu 2022. Orðið Rómafólk var nýlega tekið upp um þjóðflokk sem áður var kallaður Sígaunar – nær aldrei er talað um Rómamenn, en eintalan Rómamaður er notuð.

Ástæðan fyrir aukinni notkun samsetninga með -fólk á seinni árum er án efa sú að notkun orðsins -maður og samsetninga af því í vísun til allra kynja samræmist illa máltilfinningu mjög margra. Þetta er engin „misskilin jafnréttisbarátta“ heldur er hægt að sýna fram á það með skoðun á textum frá síðustu öld og fram á þennan dag að mjög oft eru notaðar aðrar leiðir en samsetningar með -maður til að vísa til kvenna. Í stað Bandaríkjamaðurinn X er stundum notað Bandaríkjakonan X en þó miklu fremur bandaríska konan X eða hin bandaríska X – í samsvarandi vísun til karlmanna er í yfirgnæfandi meirihluta tilvika notað Bandaríkjamaðurinn X. Þetta er tæpast hægt að túlka öðruvísi en svo að fólki finnist Bandaríkjamaður vísa til karls.

Þótt samsetningar með -fólk hafi tíðkast síðan í fornu máli eru þær vissulega oft nýrri eða sjaldgæfari en orð með -maður og það þarf að venjast þeim – en það þýðir ekki að þær séu verri íslenska, eða tilvist slíkra orða við hlið samsetninga með -maður sé einhver ógn við íslenskuna. Þvert á móti – það auðgar málið og getur gert texta líflegri ef völ er á fleiri en einu orði í sömu merkingu. Því hefur verið haldið fram að til samræmis við Palestínufólk og Úkraínufólk hljóti að verða að tala um Bandaríkjafólk, Kanadafólk, Norðfólk o.s.frv. En ekkert kallar á samræmi í þessu, enda fullt af ósamræmi fyrir í slíkum orðum. Orðin Bandaríkjamaður, Kanadamaður og Norðmaður eru miklu rótgrónari í málinu og erfiðara að koma nýjum orðum á framfæri.

Eins og hér hefur verið rökstutt er andstaða við samsetningar með -fólk ekki byggð á málfræðilegum forsendum og í henni gætir alls konar misskilnings. Ég sá því t.d. haldið fram á Facebook um daginn að orðið mannfólk væri dönskusletta. En Heimskringla Snorra Sturlusonar hefst á orðunum „Kringla heimsins, sú er mannfólkið byggir, er mjög vogskorin“ og þótt mál okkar væri kallað dönsk tunga á sínum tíma, og mandfolk sé vissulega til í dönsku – reyndar í merkingunni 'karlmenn' – er hæpið að saka Snorra um að hafa verið að sletta dönsku. Mér finnst sjálfsagt að nota tiltækar samsetningar með -fólk við hlið orða með -menn, og búa til nýjar – jafnvel Norðfólk ef því er að skipta þótt sennilega ætti það erfitt uppdráttar.