Posted on Færðu inn athugasemd

Hópun

Í dag var hér spurt hvað fólki fyndist um orði hópun sem notað var í íþróttafréttum í Ríkisútvarpinu í hádeginu – sagt var „UEFA vill með þessu minnka hópun að dómurum“ – þ.e. þegar leikmenn hópast að dómara meðan á leik stendur, yfirleitt til að koma á framfæri mótmælum við einhverjar ákvarðanir hans. Nafnorðið hópun er hvorki að finna í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók en er hins vegar í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og skýrt þar 'Opdyngen, Sammenhoben' – dynge op merkir 'hrúga upp, safna saman' og Sammenhobning merkir 'samsöfnun'. Auk þess er orðið að finna í Tölvuorðasafninu og íðorðasafninu Hugbúnaðarþýðingar í Íðorðabankanum sem þýðingu á enska orðinu grouping.

Elsta dæmi um orðið hópun er í Frey 1931: „Hópun fólksins í kaupstaðina hefir orðið of ör.“ Annað dæmi frá sama ári er í Lögréttu: „Að hætta að lána út á fiskinn í sjónum, svo að það þurfi ekki lengur að stuðla að hópun fólks við sjávarsíðuna.“ Í Skutli 1941 segir: „Um hópun þurra staðreynda hefir höfundurinn sýnt smekkvísi og hófsemi.“ Í Morgunblaðinu 1964 segir: „Þetta verður auðveldast að útskýra með því að taka sem dæmi hin nánu tengsl milli mikillar hópunar síldarinnar og mikils sjávarshita.“ Í Náttúrufræðingnum 1988 segir: „Árið 1983 benti Kristján á að þessi hópun sprungna og gosstöðva í ákveðnar reinar hefði komið fram á korti Guðmundar G. Bárðarsonar.“ Á tímarit.is má finna tæplega tuttugu dæmi um orðið, þar af eitt frá þessri öld.

Notkun orðsins virðist ekki fara vaxandi – dæmin um það í Risamálheildinni eru aðeins fjögur, öll af samfélagsmiðlum. Dæmin eru svo fá, dreifð yfir svo langan tíma, og svo fjölbreytt, að litlar líkur eru á að einn notandi hafi orðið eftir öðrum. Mun líklegra er að það hafi í raun verið „búið til“ margsinnis – notendur hafi þurft á orði með ákveðna merkingu að halda og búið slíkt orð til á staðnum. Viðskeytið -un sem bætt er við stofn sagnar og táknar 'það að gera' það sem í sögninni felst er eitt frjóasta viðskeyti málsins. Það er jafnframt yfirleitt fullkomlega gangsætt, þannig að ef við heyrum eða sjáum nýtt orð myndað með því erum við yfirleitt ekki í neinum vafa um merkingu þess, svo framarlega sem við þekkjum sögnina sem það er myndað af.

Þess vegna geri ég ráð fyrir að öllum sem heyrðu íþróttafréttirnar í hádeginu hafi strax verið ljóst hvað hópun merkti þar, enda þótt fæst hafi sennilega þekkt orðið áður. Það er hins vegar athyglisvert að í skrifaðri gerð fréttarinnar á vef Ríkisútvarpsins er orðið hópun ekki notað –  samsvarandi setning er þar: „UEFA ætlar að gera tilraun til að taka á hópamyndum og mótmælum við dómara á EM í Þýskalandi í sumar.“ Nú er svo sem algengt að skrifuð gerð fréttar sé frábrugðin þeirri sem er lesin upp, en hugsanlega hefur yfirlesari komist í skrifuðu gerðina og fundist hópun of framandi orð. Mér finnst hópamyndun raunar ekki merkja alveg það sama og hópun sem mér finnst ágætis orð sem sjálfsagt er að nota þegar við á – t.d. þarna.

Posted on Færðu inn athugasemd

Þúsund pistlar

Eins og sjá má á heimasíðu minni er þetta þúsundasti pistill minn síðan ég fór að skrifa reglulega um íslenskt mál á Facebook fyrir tæpum fimm árum, í byrjun ágúst 2019. Fyrsta árið birtust pistlarnir í Málvöndunarþættinum en í byrjun ágúst 2020 stofnaði ég hópinn Málspjall og þar hafa pistlarnir flestir birst síðan – og eldri pistlar úr Málvöndunarþættinum hafa verið endurbirtir þar. Þeir eru einnig allir birtir á heimasíðu minni, eirikur.hi.is. Hver pistill er frá 250 til þúsund orð að lengd, en langflestir eru á bilinu 500-750 orð. Samtals eru þeir núna orðnir um 540 þúsund orð, sem jafngildir u.þ.b. átta bókum af svipaðri lengd og bók mín Alls konar íslenska sem kom út vorið 2022 og er unnin upp úr pistlum frá fyrstu tveimur árunum.

Undir viðfangsefni hópsins Málspjall fellur hvaðeina sem varðar íslenskt mál, málfræði, málfar og málnotkun, og í samræmi við það er efni pistlanna mjög fjölbreytt. Þeir fjalla um stöðu íslenskunnar, íslenska málstefnu, aðgerðir stjórnvalda í málefnum íslenskunnar, „rétt“ mál og „rangt“, enskunotkun á Íslandi, íslensku sem annað mál, kynhlutleysi í máli, kynsegin mál, orðræðugreiningu, lesskilning og ýmislegt fleira. Langflestir fjalla þó um málfarsleg atriði – uppruna, aldur, eðli, útbreiðslu og tíðni ýmissa atriða og tilbrigða í íslenskum framburði, beygingum, setningagerð, merkingu, orðfæri, orðasamböndum o.fl. Þótt ég leggi vissulega oft mat á þau málfarsatriði sem um ræðir er meginmarkmið pistlanna að fræða, ekki dæma.

Samfélagsmiðill eins og Facebook er vissulega ekki að öllu leyti heppilegur vettvangur fyrir langa og stundum strembna pistla af þessu tagi sem tekur nokkurn tíma að lesa og átta sig á, og ég veit svo sem ekkert hversu mikið pistlarnir eru lesnir þótt ég fái vissulega stundum ýmis viðbrögð við þeim. Ef pistlarnir verða einhverjum öðrum til gagns eða skemmtunar er það auðvitað ánægjulegt, og ég fæ stundum þakkir og hvatningu sem mér þykir mjög vænt um. En þetta er ekkert aðalatriði fyrir mér – ég er fyrst og fremst að þessu sjálfum mér til skemmtunar og fróðleiks og finnst ég hafa lært gífurlega mikið síðan ég byrjaði á pistlaskrifunum. Ég stefni allavega að því að halda áfram enn um hríð – engar líkur eru á því að viðfangsefni þrjóti í bráð.

Posted on Færðu inn athugasemd

Spikk og span

Orðasambandið spikk og span í merkingunni 'tandurhreint' er þekkt í íslensku en virðist ekki vera mjög gamalt í málinu. Í morgun sagðist hópverji hafa heyrt spick and span í amerískum þætti og hefði komið það á óvart þar sem hann hefði alltaf talið að það væri gömul dönskusletta. Elsta dæmi sem ég finn um það á prenti er þrjátíu ára gamalt, í DV 1993: „Ofræstikonurnar sjá um að halda býtibúrunum spikk og span.“ Annað dæmi er úr Morgunblaðinu sama ár: „Það gengur allt svo vel hjá honum og stelpunum; allt „spikk og span“ og fullt af aga.“ Um aldamótin fara svo að sjást fleiri dæmi, og þá var líka stofnuð bílaþvottastöð undir heitinu Spikk & Span. Notkunin fer vaxandi – alls eru rúm 90 dæmi um orði á tímarit.is en rúm 300 í Risamálheildinni.

Það er ekki vafi á því að spikk og span er komið af enska sambandinu spick and span sem merkir í nútímamáli 'mjög snyrtilegt, hreint og vel hirt' og er komið af spick-and-span-new í 16. aldar ensku. Orðið spick er það sama og spike í nútímaensku, 'nagli', og span-new er komið af spánnýr í norrænu sem merkir upphaflega 'nýr eins og viðarspónn, rjúkandi, angandi eins og hefilspónn'. Sambandið spick-and-span-new sem kann að hafa orðið til fyrir áhrif frá spiksplinter nieuw í hollensku merkti því bókstaflega 'eins og nýsmíðað skip úr nöglum og timbri' en styttist síðan í spick-and-span og fékk merkinguna 'tandurhreint'. Líkingin er skiljanleg – ný tréskip voru ljós, hrein og snyrtileg en dökknuðu fljótt og létu á sjá.

En ekki er ólíklegt að notkun sambandsins spikk og span í íslensku megi m.a. rekja til ræstidufts með nafninu Spic and Span sem var framleitt í Bandaríkjunum frá 1933 og selt á Íslandi a.m.k. frá 1959. Í auglýsingu í Íslendingi það ár segir: „Ameríska hreinsiefnið SPIC AND SPAN til gólfþvotta og hreingerninga. Ekkert skrúbb. Ekkert skol. Engin þurrkun. Þér þurfið aðeins að blautvinda klútinn eða þvegilinn og strjúka einu sinni yfir og öll óhreinindi strjúkast af á svipstundu.“ Í auglýsingu í Morgunblaðinu 1960 segir: „Húsmóðirin hefir ávallt kviðið fyrir vorhreingerningunum en nú verða þær léttur leikur með Spic and Span.“ Þetta töfraefni var mikið auglýst fram til 1964 en virðist þá hafa horfið af markaðnum en orðið eftir í tungumálinu.