Elsku vinur

Um daginn var hér spurt hvaða orðflokkur elsku væri þegar orðið stendur með nafnorði, eins og elsku vinur, elsku Gunna o.s.frv. Í fljótu bragði mætti ætla að það væri lýsingarorð vegna þess að það hefur sömu setningarstöðu og ýmis ótvíræð lýsingarorð – góði vinur, kæra Gunna o.s.frv. Lýsingarorðið elskur er vissulega til, í merkingunni 'vinveittur, kær', en vandinn er sá að það ætti að beygjast og standa þarna í veikri beygingu – vera *elski vinur eins og góði vinur, *elska Gunna eins og kæra Gunna, o.s.frv. Í aukaföllum kæmi svo *elska vin eins og góða vin í karlkyni, en í kvenkyni kæmi rétt mynd – elsku Gunnu eins og kæru Gunnu. En það er tilviljun – elsku er alltaf í þeirri mynd, óháð kyni, tölu og falli orðsins sem það stendur með.

Afskrifum því lýsingarorð í bili og hugum að öðrum möguleikum. Til er nafnorðið elska sem í Íslenskri nútímamálsorðabók er skýrt 'ást, kærleikur' og 'sá eða sú sem er elskaður; ávarpsorð' – undir þeirri skýringu er dæmið elsku systir þar sem litið væri á elsku sem eignarfall. Vissulega taka nafnorð oft á undan sér annað nafnorð í eignarfalli á þennan hátt, og dæmi eru um hliðstæð ávarpsorð – hjartans vinur, vesalings sóley, aumingja skinnið o.s.frv. Það er engin ástæða til að efast um að elsku sé upprunalega eignarfall af nafnorðinu elska en spurningin hvort rétt sé að greina það þannig samtímalega. Það er t.d. ekki hægt að setja samheitið ást í staðinn og segja *ástar vinur, *ástar Gunna eða eitthvað slíkt – merkingarlega gengur það illa upp.

Snúum okkur þá aftur að þeim möguleika að þrátt fyrir beygingarleysið sé þetta lýsingarorð, eins og setningarstaðan bendir til. Í 3. útgáfu Íslenskrar orðabókar er elsku sjálfstætt flettiorð, sagt óbeygjanlegt lýsingarorð og skýrt 'gæluorð í ávarpi eða umtali (oftast hliðstætt)'. Í Ritmálssafni Árnastofnunar er elsku einnig sjálfstætt flettiorð og greint sem lýsingarorð, og undir það felld tvö dæmi frá 20. öld. Hins vegar eru nokkur hliðstæð dæmi frá fyrri öldum felld undir nafnorðið elska. E.t.v. má túlka þetta þannig litið sé svo á að eðli orðsins hafi breyst – í eldri textum sé eðlilegt að líta á það sem nafnorð, en í nútímamáli sé það orðið að lýsingarorði. En vissulega gæti þetta líka stafað af ósamræmi í greiningu án þess að hafa nokkra merkingu.

Í umræðum um þetta var bent á að oft er elsku notað eitt og sér, án þess að nokkurt nafnorð fari á eftir. „Elsku, fáið ykkur köku“ segir í Sagan öll eftir Pétur Gunnarsson frá 1985. Í Tímaþjófnum eftir Steinunni Sigurðardóttur frá 1986 segir: „ef þetta er eitthvað svipað með þig þá elsku láttu mig vita bréflega, símlega eða persónulega.“ Þetta eru frekari rök fyrir því að greina elsku sem lýsingarorð vegna þess að svona er einmitt hægt að nota ýmis lýsingarorð. „Góði flýttu þér nú á fætur“ segir í Manndómi eftir Andrés Indriðason frá 1982. „Gamli komdu að mótmæla“ segir á Twitter 2014. Aftur á móti er útilokað að nota nafnorð í eignarfalli á þennan hátt – *hjartans vertu kyrr, *veslings láttu ekki svona, *aumingja farðu heim, o.s.frv.

Þetta er því áhugavert dæmi um að greiningarviðmið rekist á, eins og stundum vill verða og ég hef skrifað um – í þessu tilviki bendir uppruni og beyging í eina átt, en setningarstaða í aðra. Ef við viljum endilega að hægt sé að setja öll orð í einhvern ákveðinn orðflokk verðum við að velja okkur viðmið, og ég myndi í þessu tilviki fara eftir setningarstöðunni og segja að elsku sé lýsingarorð. En ég held hins vegar að það sé vont að þurfa að velja einn flokk. Eins og ég hef áður sagt er ég „sannfærður um að kennsla […] þar sem nemendur væru látnir skoða einstök orð og hegðun þeirra frá ýmsum sjónarhornum – beygingu, setningarstöðu, og merkingu – væri bæði margfalt gagnlegri og óendanlega miklu skemmtilegri en steindauð flokkunarfræði.“