Posted on Færðu inn athugasemd

Hættur kynhlutleysis

Undanfarið hefur verið mikil umræða í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum um breytingar á íslensku í átt að kynhlutlausu máli. Það bitastæðasta í þessari umræðu eru tvær greinar sem Höskuldur Þráinsson fyrrverandi prófessor hefur nýlega skrifað í Vísi – „Kynhlutlaust mál, máltilfinning og forsetaframboð“ og „Bókaútgáfa, íslenskukennsla, þýðingar og máltilfinning“. Í þessum greinum, sem eru hófsamar og málefnalegar eins og vænta mátti, eru færð ýmis rök gegn breytingunum. Mér finnst þó ástæða til að ræða málið frá öðru sjónarhorni og það sem hér fer á eftir er að mestu leyti viðbrögð við greinum Höskuldar og þeim rökum sem þar eru sett fram, þótt margt af því sem hér er nefnt hafi einnig komið fram annars staðar.

1. Geta breytingarnar leitt til misskilnings í samskiptum fólks?

Í hefðbundinni íslensku er notað karlkyn ef kynjasamsetning hóps er ekki þekkt og sagt t.d. Fjórir slösuðust í árekstri. Hvorugkynið fjögur er því aðeins notað að mælandinn viti að um kynjablandaðan hóp er að ræða. Hjá þeim sem breytt hafa máli sínu er hvorugkynið hins vegar notað bæði um kynjablandaðan hóp og um hóp þar sem kynjasamsetningin er óþekkt. Setningin Fjögur slösuðust í árekstri er því einræð í hefðbundinni íslensku – vísar aðeins til kynjablandaðs hóps – en tvíræð í breyttri íslensku, vísar annaðhvort til kynjablandaðs hóps eða hóps þar sem kynjasamsetning er óþekkt. Því hefur verið haldið fram að þessi tvíræðni sé óæskileg og geti verið ruglandi, og í fljótu bragði mætti ætla að svo væri.

En nákvæmlega sams konar tvíræðni er nú þegar í hefðbundinni íslensku, nema þar er það karlkynið sem er tvírætt. Ef sagt er Fjórir slösuðust í árekstri vitum við ekki hvort vísað er til fjögurra karla eða hóps af óþekktri kynjasamsetningu. Ég get ekki séð að sú tvíræðni sem notkun hvorugkyns í kynhlutlausri merkingu skapar sé á einhvern hátt verri eða skaðlegri en sú sem notkun karlkynsins í kynhlutlausri merkingu skapar í hefðbundinni íslensku. Af hverju þurfum við að vita nákvæmlega hvað fjögur slösuðust merkir en ekki hvað fjórir slösuðust merkir? Yfirleitt skiptir engu máli hvort við skiljum fjórir slösuðust eða fjögur slösuðust sem einkynja eða kynjablandaðan hóp. Ef það skiptir máli kemur það fram í samhenginu.

2. Munu breytingarnar valda misskilningi á eldri textum og leiða til rofs í málinu?

Jafnvel þótt þróun í átt til kynhlutleysis haldi áfram – sem ómögulegt er að segja til um – er ljóst að notkun karlkyns í kynhlutlausri merkingu mun verða til í málinu í marga áratugi í viðbót og málnotendur þekkja bæði kerfin og átta sig á þeim. Ef kynhlutleysi karlkynsins hverfur alveg úr málinu einhvern tíma í framtíðinni og Allir eru velkomnir eða Fjórir slösuðust í árekstri hafa ekki lengur kynhlutlausa merkingu hjá neinum gæti það vissulega gerst að fólk færi að skilja karlkynsmyndir fornafna og töluorða svo að þær vísuðu eingöngu til karlmanna, og misskildi þannig eitthvað í eldri textum. En þess er langt að bíða og þar að auki sker samhengið langoftast úr um merkinguna – ef nákvæm merking skiptir máli á annað borð.

Það er auðvitað fjölmargt sem hefur breyst í málinu á undanförnum áratugum og öldum án þess að nokkrum detti í hug að ástæða sé til að „þýða“ textana á samtímamál vegna þess. Í Íslendingasögum og öðrum fornum textum vísa fornöfnin við og þið t.d. aðeins til tveggja, en ef vísað er til fleiri eru notaðar myndirnar vér og þér. Ég efast um að venjulegir málnotendur átti sig á þessu þegar þeir lesa forna texta en það veldur samt engum misskilningi. Það er einfalt að skýra þessa breytingu út fyrir fólki í eitt skipti fyrir öll. Sama er með breytingu á hlutlausu kyni. Fólk sem les eitthvað af textum frá því fyrir þessa hugsanlegu framtíðarbreytingu mun fljótt átta sig á því að karlkynið getur haft kynhlutlausa merkingu í þeim.

3. Geta breytingarnar ruglað börn á máltökuskeiði í ríminu og truflað máltöku?

Það er vitanlega rétt að ef börn alast upp í málumhverfi þar sem sumt fólk notar Öll eru velkomin og Fjögur slösuðust í árekstri í sömu merkingu og annað fólk notar Allir eru velkomnir og Fjórir slösuðust í árekstri fá þau misvísandi skilaboð sem í fljótu bragði mætti ætla að gætu ruglað þau í ríminu og tafið eða torveldað máltökuna. En þetta er hins vegar fjarri því að vera einsdæmi. Börn fá brotakenndar og misvísandi upplýsingar um fjölmörg atriði úr málumhverfi sínu en eru ótrúlega glúrin í að nýta sér þetta til að koma sér upp heildstæðu málkerfi. Börn alast upp við það að sumt fólk í kringum þau segir mig langar og ég vil en annað mér langar og ég vill, sum þeirra heyra bæði norðlenskan framburð og sunnlenskan, o.s.frv.

Börnin vinna auðveldlega úr þessu og það er ekkert sem bendir til þess að tilbrigði í málumhverfinu valdi þeim vandkvæðum í máltökunni. Þótt notkun hvorugkyns í kynhlutlausri merkingu sé vissulega ekki móðurmál neins (enn sem komið er a.m.k.) eins og bent hefur verið á, heldur tillærð, get ég ekki séð að þau tilbrigði sem hún skapar horfi á annan hátt við börnum á máltökuskeiði en önnur tilbrigði. Engin ástæða er til að ætla annað en börnin átti sig fljótt á því að Öll eru velkomin hjá sumum hefur sama hlutverk og Allir eru velkomnir hjá öðrum, rétt eins og þau átta sig fljótt á því að mér langar hjá sumum merkir það sama og mig langar hjá öðrum. Börnin velja svo annað tilbrigðið, eða nota þau hugsanlega til skiptis. Ekkert að því.

4. Valda breytingarnar vandkvæðum í kennslu íslensku sem annars máls?

Þegar verið er að kenna erlend tungumál er venjulega eitt tilbrigði – það sem er algengast, eða það sem nýtur mestrar viðurkenningar – valið til kennslu en önnur hugsanlega nefnd í framhjáhlaupi. Í kennslu íslensku sem annars máls er yfirleitt kenndur „sunnlenskur“ framburður en ekki norðlenskur – ekki vegna þess að sá fyrrnefndi sé „réttari“ heldur vegna þess að það er framburður yfirgnæfandi meirihluta málnotenda. Ég þykist líka vita að yfirleitt sé kennt að segja mig langar og ég vil en ekki mér langar og ég vill vegna þess að fyrrnefndu afbrigðin eru viðurkennd sem „rétt“ mál en þau síðarnefndu ekki þótt þau séu mjög útbreidd. En auðvitað er hægt að segja nemendum frá öðrum tilbrigðum ef ástæða þykir til eða spurt er.

Sama máli gegnir um kynjanotkun í kynhlutlausri merkingu. Þar er eðlilegt að kennarar í íslensku sem öðru máli velji algengasta tilbrigðið til kennslu, og það er ótvírætt karlkynið enn sem komið er – og væntanlega um allnokkra framtíð. Ef nemendur spyrja er vitanlega hægt að útskýra fyrir þeim að til sé fólk sem fremur kýs að nota hvorugkynið í þessu hlutverki. Ég sé ekki hvernig þetta ætti að skapa meiri vanda en önnur tilbrigði. Reyndar sagði Kjartan Jónsson frá því í grein í Heimildinni fyrr í vikunni að í skóla sem hann rekur hefði hvorugkynið undanfarin ár verið kennt sem hlutlaust kyn og útskýrt fyrir nemendum að þeir hafi val í þessu efni. Ekki kom fram hjá honum að það hefði valdið nokkrum sérstökum vandræðum.

5. Kljúfa breytingarnar málsamfélagið og skapa málfarslega stéttaskiptingu?

Það er vitanlega rétt að breyting í átt til kynhlutleysis hefur valdið klofningi í málsamfélaginu eins og umræðan undanfarið ber glöggt vitni um. En klofningurinn er ekki fyrst og fremst í málinu, heldur í umræðunni, og spurningin er hver beri meginábyrgð á honum – þau sem breyta máli sínu eða þau sem amast við breytingunum. Ef fólk sýnir umburðarlyndi, áttar sig á að breytingarnar eru sumum hjartans mál en stafa ekki af einhverri misskilinni jafnréttisbaráttu eða skilningsleysi á mismun málfræðilegs og líffræðilegs kyns, þá verður enginn klofningur. Þá halda sum áfram að segja Allir eru velkomnir og Fjórir slösuðust í árekstri en önnur segja Öll eru velkomin og Fjögur slösuðust í árekstri án þess að annar hópurinn amist við máli hins.

Því hefur líka verið haldið fram að með breytingunum sé hætta á að alið sé á skömm hjá þeim sem ekki hafa breytt máli sínu – skömm yfir því að tala „karllægt“ mál í stað þess að tileinka sér mál „góða fólksins“ sem geri öllum kynjum jafnhátt undir höfði. Það er vitanlega ótækt ef fólk er gagnrýnt eða litið niður á það á einhvern hátt fyrir að tala þá hefðbundnu íslensku sem það hefur alist upp við, en vissulega er það ekki óhugsandi og ég hef séð einhver dæmi sem mætti túlka á þann veg. Það er þó ekki nema örlítið brot af þeirri gagnrýni sem fólk sem hefur breytt máli sínu í átt til kynhlutleysis hefur fengið á sig. Bæði þau sem tala hefðbundna íslensku og þau sem breyta máli sínu verða að sýna viðhorfi hins hópsins skilning og umburðarlyndi.

Breytingar í átt til kynhlutleysis eru hættulausar

Vitanlega er eðlilegt að fólk hafi mismunandi skoðanir á breytingum í átt til kynhlutleysis – allar breytingar mæta andstöðu og við viljum helst hafa málið eins og við tileinkuðum okkur það á máltökuskeiði. En þessar breytingar eyðileggja ekki íslenskuna. Þær valda ekki alvarlegum misskilningi, þær rjúfa ekki samhengi málsins, þær trufla ekki máltöku barna, og þær torvelda ekki kennslu íslensku sem annars máls. Þær kljúfa ekki heldur málsamfélagið eða valda málfarslegri stéttaskiptingu – nema við viljum hafa það þannig. Sameinumst þess í stað um að leyfa íslenskunni að blómstra í öllum kynjum og snúum okkur að því sem máli skiptir – að bæta og styrkja stöðu íslenskunnar gagnvart þeim ytri þrýstingi sem hún verður fyrir.

Posted on Færðu inn athugasemd

– eða þar

Fyrir nokkru skrifaði ég hér um orðasambandið eða þannig sem oft er notað í enda segðar „þegar við treystum okkur ekki til eða viljum ekki eða nennum ekki að útskýra nákvæmlega það sem um var rætt eða lýsa því, og treystum á að viðmælendur eða lesendur þurfi ekki eða hafi ekki áhuga á að vita öll smáatriði“. En annað ekki ósvipað samband sem oft er notað í hliðstæðri merkingu er eða þar. Það er mjög algengt í óformlegu talmáli en kemst mjög sjaldan á prent og þess vegna er erfitt að átta sig á hversu gamalt það er í málinu. Ég hef ekki fundið nein dæmi um það á tímarit.is en þau gætu þó vissulega leynst þar – vegna tíðni sambandsins eða þar í annarri notkun (ekki síst hér eða þar) er erfitt að leita af sér allan grun.

Eitt dæmi er að finna í héraðsdómi frá 2018: „Þeir hafi ekið „sveitaleiðina“ sunnan megin við Selfoss og komið inn rétt hjá Ljónsstöðum eða þar.“ Annað dæmi er á vef Ríkisútvarpsins 2014: „Það er ekkert sem stoppar Jökulsána að fara yfir í Kreppu, innan við Upptyppinga eða þar.“ En auk þess eru í Risamálheildinni um 50 dæmi af samfélagsmiðlum, það elsta á Bland.is 2002: „Þær voru keyptar í Kringlunni í búðinni á móti Auganu eða þar.“ Á Hugi.is 2004 segir: „þetta er svona ljósrofi, þarna litli hvíti kassinn í miðjunni eða þar.“ Á Bland.is 2005 segir: „Ég er nefnilega búin að vera með verk hægramegin í mjöðminni eða þar.“ Á Bland.is 2006 segir: „Skómarkaðnum úti á Fiskislóð minnir mig, æ þarna hjá Granda eða þar.“

Eins og þarna sést er elsta dæmið frá 2002, en það sýnir aðeins að þessi notkun er a.m.k. meira en 20 ára gömul – gögn af samfélagsmiðlum ná ekki lengra aftur í tímann. Þetta samband gæti þess vegna verið mun eldra. Eins og dæmin sýna er eða þar notað þegar mælandinn er ekki viss á staðsetningu eða getur ekki tilgreint hana nánar – eða óþarfi er að nefna nákvæma staðsetningu. Þetta getur vísað til hvers kyns staðsetningar – bæði utanhúss og innan, og einnig á líkamanum. Það er freistandi að tengja þetta við sambandið eða þannig sem oft er notað á mjög svipaðan hátt eins og nefnt er í upphafi. Það samband er frá því um 1980 þannig að mér þykir líklegt að þessi notkun sé a.m.k. ekki eldri, án þess að hægt sé að fullyrða nokkuð um það.

Posted on Færðu inn athugasemd

Reykneskur

Ég var spurður hvort hægt væri að nota lýsingarorðið reykneskur, af Reykjanes – hliðstætt reykvískur, af Reykjavík. Svarið við því er ekki alveg einfalt. Yfirleitt er hægt að búa til lýsingarorð af staðaheitum með viðskeytinu -sk(ur), en oft þarf að gera ákveðnar breytingar á grunnorðinu, bæði hljóðbreytingar og styttingar. Af staðaheitum sem enda á -fjörður eru leidd lýsingarorð sem enda á -firskur,  svo sem hafnfirskur, súgfirskur; af -vík kemur -vískur, svo sem reykvískur, húsvískur; , af -dalur kemur -dælskur, svo sem bárðdælskur, svarfdælskur; af -ey kemur -eyskur, svo sem færeyskur, grímseyskur; o.fl. Yfirleitt er fyrri hluti grunnorðsins styttur í eitt atkvæði – Hafnar- > hafn-, Súganda- > súg-, Reykja- > reyk-, Svarfaðar- > svarf-, o.s.frv.

Vissulega eru til í málinu fjölmörg orð sem enda á -neskur en þau eru ekki komin af staðheitum sem enda á -nes eins og ætla mætti, heldur er um að ræða viðskeytið -nesk(ur) sem er komið af germanska viðskeytinu *-iskaeins og -sk(ur). Afbrigðið -nesk(ur) varð til í orðum eins og himinn þar sem stofninn endar á -nhimin+isk verður himn-isk sem verður himnesk, og síðan er farið að skilja orðið á þann hátt að n-ið úr stofninum tilheyri viðskeytinu – himn-esk > him-nesk. Þannig verður í raun og veru til sjálfstætt viðskeyti með sömu merkingu og -sk(ur) sem síðan er notað í fjölmörgum lýsingarorðum dregnum af erlendum staða- eða þjóðflokkaheitum – baskneskur, keltneskur, lettneskur, rússneskur, slavneskur, svissneskur, tyrkneskur o.s.frv.

En þótt viðskeytið -sk(ur) sé mjög virkt í myndun lýsingarorða af margs konar staðaheitum eins og áður segir eru lýsingarorð af einhverjum ástæðum yfirleitt ekki mynduð á þennan hátt af staðaheitum sem enda á -nes. Við höfum ekki *álftneskur, *borgneskur, *drangsneskur, *langneskur – og ekki heldur *reykneskur. Samt ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að mynda slík orð – það verður ekki betur séð en þau séu í fullu samræmi við önnur orð mynduð með -sk(ur). Hugsanlegt er að málnotendur forðist (ómeðvitað) slíka orðmyndun af því að þessi orð myndu líta út eins og þau væru mynduð með -nesk(ur). Það viðskeyti er aðeins notað á erlend heiti, og e.t.v. höfum við tilfinningu fyrir því að það eigi ekki við á íslensk staðaheiti.

Posted on Færðu inn athugasemd

Misnotkun stjórnvalda á tungumálinu

Undanfarið hálft annað ár hafa ráðherrar hvað eftir annað orðið berir að því að misnota tungumálið gróflega í pólitískum tilgangi. Í árslok 2022 tók þáverandi dómsmálaráðherra upp á því að nota orðið rafvarnarvopn í stað rafbyssa sem lengi hafði verið notað. Nokkru síðar lagði sami ráðherra fram frumvarp þar sem talað er um afbrotavarnir í stað þess sem fram að því hafði verið kallað forvirkar rannsóknarheimildir. Í vetur lagði nýr dómsmálaráðherra svo fram frumvarp um lokað búsetuúrræði sem ekki varð séð annað en væri í raun fangelsi eða fangabúðir. Nú skilgreinir sami ráðherra lýsingarorðið friðsamlegur upp á nýtt og segir að um leið og fyrirmælum lögreglu sé ekki hlýtt hætti mótmæli að vera friðsamleg.

Í öllum þessum tilvikum er augljóslega verið að reyna að slá ryki í augu almennings, hafa áhrif á almenningsálitið með notkun orða sem hafa á sér annað yfirbragð en orð sem fyrir eru, eða með því að nota orð í annarri merkingu en hefðbundið er. Þetta eru mörg dæmi á stuttum tíma og það vekur ugg, og sýnir hvað það er mikilvægt að almenningur fylgist með orðræðu stjórnvalda og gjaldi varhug við því þegar þau hagræða tungumálinu í lýsingu á athöfnum sínum – reyna að dulbúa þær með orðskrúði eða með því að breyta hefðbundinni merkingu orða. Það er merki um hugleysi og ber vott um annaðhvort vonda samvisku eða hræðslu – hræðslu við almenningsálitið. Látum stjórnvöld ekki komast upp með slíka misnotkun tungumálsins.

Hér er við hæfi að rifja upp brot úr ræðu Sigurðar heitins Pálssonar á fundi á Austurvelli fyrir tíu árum, 1. mars 2014: „Mér finnst grafalvarlegt hvernig ráðamenn hafa í svörum sínum og útskýringum stöðugt afvegaleitt tungumálið, ráðist inn í samband orðs og merkingar á skítugum skónum, reynt að rjúfa og brengla samband orðs og merkingar. […] Framkoma ráðamanna við tungumálið er kannski það alversta og hættulegasta í þessu máli öllu. […] Við höfum fylgst allnokkra hríð með árásum ráðamanna á tungumálið. Þær eru stórhættulegar vegna þess að með því að eyðileggja orð og hugtök í anda newspeak Georges Orwell í skáldsögunni 1984, með því er verið að ráðast gegn DNA þjóðarlíkamans, þjóðarsálarinnar.“ Og Sigurður hélt áfram:

„Tungumálið er grundvöllur mannlegs samfélags alls staðar, það er skemmtilega augljóst í tilfelli okkar Íslendinga. Hið ritaða orð er grundvöllur sjálfsmyndar okkar sem þjóðar, við trúum á ritaðan texta. […] Vísvitandi afvegaleiðing orða og hugtaka jafngildir spillingu tungumálsins sem síðan spillir samskiptum manna og siðferði samskiptanna. Á endanum blasir við siðrof, fyrst manna í millum, síðan siðrof þjóðfélagsins. Það felst alvarleg hætta í því þegar ráðamenn svara kröfum um að þeir standi við orð sín með útúrsnúningum. [Þ]að er fyrsta skrefið í afvegaleiðingu og spillingu tungumálsins, fyrsta skrefið til newspeak Orwells. Viljum við ganga þann veg? Þar var tungumálið notað til þess að kæfa sjálfstæða hugsun einstaklinganna.“

Posted on Færðu inn athugasemd

Hvað merkir friðsamleg mótmæli?

Í frétt Ríkisútvarpsins af mótmælum vegna ástandsins á Gaza fyrir utan ríkisstjórnarfund í gær sagði: „Lögregla beitti piparúða á mótmælendur sem lagst höfðu í götuna til að hindra umferð í kringum ríkisstjórnarfund í Skuggasundi á bak við Þjóðleikhúsið í dag.“ Aðalvarðstjóri hjá lögreglunni sagði einnig í viðtali við Ríkisútvarpið: „fólk hlýddi engum fyrirmælum“ og piparúða var því beitt „til þess að geta rýmt götuna“. Í viðtali um aðgerðir lögreglunnar á vef Ríkisútvarpsins í dag segir dómsmálaráðherra: „Ísland er lýðræðisríki og í lýðræðisríkjum virðum við rétt fólks til að tjá skoðanir sínar með friðsælum hætti. En um leið og farið er gegn skýrum fyrirmælum lögreglu þá eru mótmæli ekki lengur friðsamleg.“

Hvorki réttmæti mótmælaaðgerða né aðgerðir lögreglu eru viðfangsefni þessa hóps. Hins vegar er mikilvægt að hafa augun opin fyrir því þegar stjórnvöld misbeita tungumálinu og snúa merkingu orða á hvolf. Lýsingarorðið friðsamlegur merkir 'sem einkennist af friði' samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók eða 'sem fer fram í friði, hefur frið að forsendu' samkvæmt Íslenskri orðabók. Ekkert bendir til þess að mótmælendur hafi beitt valdi, hvað þá ofbeldi, eða ógnað einhverjum. Engin hætta skapaðist af aðgerðum þeirra og þær trufluðu ekki einu sinni ríkisstjórnarfund. Enda reynir ráðherrann ekki að halda því fram, heldur réttlætir aðgerðirnar með því að mótmæli sem fari gegn fyrirmælum lögreglu séu „ekki lengur friðsamleg“.

Ég veit ekki hvort fólk áttar sig almennt á því hvað þessi orðskýring ráðherrans er hættuleg. Með þessu móti væri hægt að stöðva öll mótmæli, hvers eðlis sem þau væru, með geðþóttaákvörðun lögreglu. Að neita að hlýða fyrirmælum lögreglu felur vissulega í sér borgaralega óhlýðni, en það er skilgreiningaratriði á borgaralegri óhlýðni að hún er friðsamleg. Ef stjórnvöld komast upp með það að misþyrma merkingu orða á þennan hátt erum við komin út á mjög hættulega braut. Þess vegna er það skylda okkar við samfélagið, og við tungumálið, að vekja athygli á því þegar orð sem við vitum öll hvað þýða eru gerð merkingarlaus á þennan hátt. Það ber að fordæma harðlega.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að samþyggja

Nýlega sá ég í Málvöndunarþættinum að verið var að gera athugasemdir við orðmyndina samþyggja á einhverri vefsíðu – fólk átti varla nógu stór orð til að lýsa furðu sinni og hneykslun á henni. Vitanlega er það rétt að venjuleg stafsetning sagnarinnar er samþykkja en þessi ritun er samt fjarri því að vera einsdæmi. Á tímarit.is eru milli tíu og tuttugu dæmi um samþyggja, en í Risamálheildinni eru 635 dæmi sem byrja á samþygg-, sem getur verið ýmist sögnin samþyggja (þ.e. samþykkja) eða nafnorðið samþyggi (þ.e. samþykki). Af þessum dæmum eru öll nema átta af samfélagsmiðlum. Það er því ljóst að í óyfirlesnum textum er þessi ritháttur mjög algengur. Þess vegna er ómaksins vert að velta því fyrir sér hvers vegna svo sé.

Venjulega er auðvitað framburðarmunur á orðum sem eru skrifuð með kk og þeim sem eru skrifuð með gg. Þar sem skrifað er kk kemur venjulega fram svokallaður aðblástur, sem er eins og h sé skotið inn á undan kk, en gg er borið fram sem langt g. Sögnin þykkja (í merkingunni 'gera þykkri') er því borin fram öðruvísi en sögnin þiggja ([θɪhca] á móti [θɪcːa] fyrir þau sem geta lesið hljóðritun). En öðru máli gegnir í áhersluleysi, eins og seinni lið samsetningar – þá kemur aðblásturinn sjaldnast fram, lokhljóðið verður stutt, og samþykkja er því venjulega borið fram alveg eins og skrifað væri samþyggja ([samθɪca]). Slíkt samfall í framburði opnar vitaskuld möguleikana á því að röng ritmynd – sem passar þó við framburðinn – sé valin.

Við þetta bætist að seinni liður sagnarinnar, -þykkja, er ógagnsær fyrir nútíma málnotendur – þeir tengja hann varla við nokkuð annað. Þetta er í raun sögnin þykja sem var þykkja í fornu máli, en ekki er við því að búast að almennir málnotendur viti það eða tengi þar á milli og þess vegna er ekki óvænt að leitað sé annað að tengingu. Ekki er ólíklegt að fólk tengi samþykkja sem skýrð er 'segja já (við e-u), fallast á (e-ð)' í Íslenskri nútímamálsorðabók við sögnina þiggja sem skýrð er 'taka við (e-u), taka (e-u) játandi' – merkingarlegur skyldleiki er augljós. Vissulega er þiggja skrifuð með i en ekki y en ritmyndin þyggja er líka mjög algeng – nærri fjögur þúsund dæmi í Risamálheildinni, þar af rúm tvö hundruð úr öðru en samfélagsmiðlum.

Það er sem sé bæði samfall í framburði og (misskilin) merkingartengsl sem geta stuðlað að því að fólk skrifi samþyggja í stað hins viðurkennda samþykkja. Hliðstæð dæmi eru ýmis í málinu – ég hef t.d. skrifað um myndir eins og reiðbrennandi og afbrigði(s)samur. Það má samt ekki skilja þennan pistil svo að ég sé að mæla með rithættinum samþyggja eða leggja blessun mína yfir hann á einhvern hátt – þótt ég sé hlynntur tilbrigðum í máli er ég almennt séð fylgjandi samræmdri stafsetningu af praktískum ástæðum. Hins vegar finnst mér mikilvægt að við reynum að átta okkur á því hvers vegna algeng frávik af þessu tagi koma upp, í stað þess að láta okkur nægja að hneykslast á þeim. Það er bæði miklu skemmtilegra og gagnlegra á allan hátt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að liggja á tungu

Í gær skrifaði ég hér um orðasambandið leggja (einhverjum eitthvað) á tungu. Í framhaldi af því fór ég að skoða annað samband, mjög skylt – liggja (einhverjum) á tungu, sem er ekki heldur í orðabókum. Saga og þróun þessara sambanda er svipuð þótt elsta dæmi sem ég finni um það síðarnefnda sé rúmlega hálfri öld yngra en hitt, í kvæði eftir Sigurð Jónsson frá Arnarvatni í Sunnanfara 1902: „Mér lágu ungum svo oft á tungu / þau orð, sem féllu í stuðla’ og söng.“ Í Morgunblaðinu 1914 segir: „Og það er áreiðanlegt að honum lágu stór orð á tungu, en samt sem áður var hann fyrirmyndar stýrimaður, eins og öll framkoma hans ber vott um.“ Í Morgunblaðinu 1917 segir: „Cottet gleypti þau blótsyrði, sem lágu honum á tungu.“

Í Nýjum kvöldvökum 1940 segir: „að hann loksins bar fram spurningu, sem lengi hafði legið honum á tungu.“ Í Skírni 1941 segir: „Honum lágu örvar á tungu, sem hittu í markið, þegar honum rann í skap.“ Í Tímanum 1950 segir: „Æðruorð lá ekki á tungu hans.“ Í Tímaritið Þjóðræknisfélags Íslendinga 1951 segir: „Oss grunar það jafnvel að orð eins og föðurlandsást hafi æði sjaldan legið þeim mönnum á tungu.“ Í Tímanum 1960 segir: „Þegar fjármálaráðh. mælti fyrir fjárlagafrv. í október sl., lá honum sparnaður mjög á tungu sem fyrr.“ Í Vikunni 1960 segir: „Mick þagnaði við, og lét ósögð þau orð, sem bersýnilega lágu honum á tungu.“ Í Morgunblaðinu 1980 segir: „því að svörin við öllu liggja honum tamt á tungu.“

Mjög oft fylgir atviksorðið létt með sambandinu. Elsta dæmi um það er í Suðurlandi 1914: „Fáum íslenskum skáldum hefir legið ljóðið svo létt á tungu sem Þorsteini.“ Í Dagblaði 1925 segir: „Eru það blótsyrðin, sem mest ber á og virðast þau liggja flestum létt á tungu.“ Í Tímanum 1930 segir: „Öllum liggur þeim skáldamálið með allri fjölbreytni sinni létt á tungu.“ Í Heimskringlu 1940 segir: „Páll byrjaði ungur að yrkja […] og liggur auðsjáanlega stuðlað mál mjög létt á tungu.“ Í Morgunblaðinu 1958 segir: „En þótt meir en vafasamt sé, að þeim hafi legið orðið lífsbarátta jafn létt á tungu og yngstu kynslóð okkar, þá er hitt jafnvíst: Þau unnu hana.“ Í Tímanum 1959 segir: „Höfundi liggja náttúrulýsingar mjög létt á tungu.“

Merking sambandsins liggja (einhverjum) á tungu er ekki alltaf nákvæmlega sú sama en er oftast auðráðin af samhengi. Það merkir 'vera hugleikið', 'verða tíðrætt um', 'vera að því kominn að segja', 'eiga auðvelt með að tala/yrkja' eða eitthvað slíkt. Sambandið var töluvert notað langt fram eftir síðustu öld en dæmum um það hefur farið fækkandi undanfarið. Í Risamálheildinni eru um fimmtíu dæmi frá þessari öld, langflest um liggja létt á tungu, ekki síst í minningargreinum – „Hann var einstakt ljúfmenni og græskulaus gamanyrði lágu honum létt á tungu“ segir í Morgunblaðinu 2001, „Danskan lá henni létt á tungu“ segir í Morgunblaðinu 2018. Eins og leggja á tungu er þetta samband sem gjarna mætti blása lífi í.