Pólitískt orðaval

Ég fékk þá athugasemd við pistil minn um orðið vindmylla í gær að þetta orð væri ónothæft í þeirri merkingu sem um var rætt vegna þess að það væri „fegrunarhugtak í þessu samhengi“ og „notað gagngert af vindorkugróðapungum til að krúttgera ferlíkin“. Ég hef séð sams konar athugasemdir nokkrum sinnum áður. Í umræddri athugasemd var einnig sagt: „Tungumál er ekki bara samansafn af málvenjum. Það er hápólitískt og hefur alltaf verið.“ Þessu er ég hjartanlega sammála og hef oft skrifað um það. En þarna er mikilvægt að finna einhvern milliveg. Þótt okkur mislíki eitthvert orð eða einhver málnotkun og teljum pólitík vera þar á bak við er ekki þar með sagt að alltaf sé nauðsynlegt eða mögulegt að hafna ríkjandi málhefð.

Ég hef vissulega varað við tilraunum og tilhneigingum stjórnvalda og annarra valdamikilla afla til að hagræða tungumálinu sér í hag, svo sem með því að innleiða ný orð um hugtök sem þegar eiga sér orð sem hafa unnið sér hefð. Þetta eru dæmi eins og rafvarnarvopn í stað rafbyssa, afbrotavarnir í staðinn fyrir forvirkar rannsóknarheimildir, lokað búsetuúrræði í staðinn fyrir fangelsi eða flóttamannabúðir. En vindmylla er allt annars eðlis. Þar er ekki verið að búa til nýtt orð, heldur hefur þetta orð getað haft þessa merkingu í málinu síðan í lok nítjándu aldar eins og ég sýndi í pistli mínum í gær. Fyrir utan tilvitnun í Don Kíkóta held ég meira að segja að þetta hafi verið algengasta merking orðsins í málinu alla tíð síðan, ef marka má tímarit.is.

Um þetta má rekja fjölmörg dæmi frá allri síðustu öld. Í frétt í Morgunblaðinu 1950 segir t.d.: „Í aldaraðir hafa vindmyllur Evrópu verið helstu tækin til að nýta orku náttúruaflanna. Á síðari árum hafa menn samt farið að líta á vindmyllurnar sem úrelt orkuvinnslutæki. Lítið hefur verið hirt um þær og allur áhuginn hefur snúist um að virkja fallvötn. Nú er mönnum samt aftur að skiljast hvílíka óhemju orku er hægt að vinna úr loftstraumum og getur verið að vindmyllur af stærri og fullkomnari tegundum en áður hafa þekkst verði á næstunni reistar víða um Evrópu.“ Í frétt í Vísi sama ár segir: „Þess verður kannske ekki langt að bíða, að gríðarstór vindmylla sjái öllum Orkneyjum fyrir þeirri raforku, sem eyjaskeggjar þarfnast.“

Þess vegna er ekki um það að ræða að áróðursfólk fyrir virkjun vindorku sé þarna að misnota gamalgróið orð – það er einfaldlega verið að nota hefðbundið orð málsins um þetta fyrirbæri. Hitt getur auðvitað verið að orðið vindmylla veki hugrenningatengsl „við eitthvað lítið og sætt“ hjá sumum málnotendum eins og sagt var í áðurnefndri athugasemd. En við það verðum við að búa. Málsamfélagið verður að koma sér saman um orð – það er ekki heppilegt að við notum mismunandi orð um ýmis áþreifanleg fyrirbæri eftir því hvaða skoðun við höfum á þessum fyrirbærum. Það gæti endað með ósköpum, t.d. í heitri umræðu um skógrækt eða lúpínu, og er ekki til þess fallið að efla málefnalega umræðu ef fólk notar ekki sömu orð um fyrirbærin.

Það breytir því ekki að ýmis dulin (og oft ómeðvituð) skilaboð eða bjögun felst iðulega í tilteknum orðum eða málnotkun. Ég hef t.d. sýnt fram á að við notum ýmsar samsetningar sem enda á -maður miklu síður um konur en karla, og íslensk íbúaheiti sem öll eru karlkyns (Íslendingur, Dani o.s.frv.) eru líka fjarri því að vera kynhlutlaus í almennri málnotkun. Það þýðir ekki að ég vilji skipta þessum orðum út fyrir hvorugkynsorð, eða búa til kvenkyns samsvaranir þeirra – það væri hvorki skynsamlegt né raunhæft. En þetta sýnir hins vegar að við þurfum að vera vakandi fyrir því hvernig og í hvaða tilgangi tungumálið er notað, og þess vegna var gott að fá áðurnefnda athugasemd við vindmyllu þótt ég væri henni ekki sammála.