Undanlátssemi, undanhald og uppgjöf
Nýlega var mér brugðið hér um „undanlátssemi“ vegna þess að ég lýsti þeirri skoðun minni að ekki væri rétt að stugga við tökuorði sem hefur verið notað í málinu áratugum saman og er væntanlega flestum kunnugt en innleiða þess í stað nýyrði – sem vissulega er til og í sjálfu sér ekki slæmt en hefur ekki slegið í gegn og er ekki líklegt til að ná fótfestu. Umrædd ásökun kom mér svo sem ekkert á óvart og fékk ekki á mig – ég veit ekki hversu oft ég hef verið sakaður um „undanlátssemi“, „undanhald“, „uppgjöf“ og annað slíkt og nýlega sá ég því haldið fram að ég vildi íslenskuna feiga. Yfirleitt er þetta vegna þess að ég hef talað fyrir því að við tökum ýmsar útbreiddar málbreytingar í sátt og veitum algengum tökuorðum þegnrétt í málinu.
Þessar ásakanir virðast byggjast á þeirri afstöðu að við eigum að „frysta“ málið í tiltekinni stöðu – væntanlega þeirri stöðu sem það var í á þriðja fjórðungi tuttugustu aldar, þegar flest þeirra sem bera þær fram voru að alast upp. Þetta var t.d. afstaða Helga Hálfdanarsonar sem taldi tvö boðorð skipta mestu máli í íslenskri málrækt: „Hið fyrra er íhaldsemi; og hið síðara er gífurleg íhaldsemi.“ En þessi afstaða er ávísun á stöðnun málsins, og stöðnun leiðir til hægfara dauða vegna þess að hún kemur í veg fyrir að málið geti þjónað þörfum notendanna. Málið verður að hafa svigrúm til að taka inn nýjungar og breytast í takt við þarfir málsamfélagsins svo framarlega sem breytingar rýra ekki hlutverk þess sem samskiptatækis og menningarmiðlara.
Vissulega má halda því fram að flestar málbreytingar séu „óþarfar“ og málið þjóni hlutverki sínu jafnvel án þeirra. „Ég er frekar á móti því að breyta málinu nema þörf sé á því. Það er engin þörf á að segja frekar „mér langar“ en „mig langar“. Breytingin er þess vegna óþörf“ sagði Halldór Halldórsson prófessor fyrir fjörutíu árum. Það er alveg rétt að ekkert bendir til þess að mér langar sé í einhverjum skilningi „betra“ eða „skýrara“ en mig langar. En þessi breyting er komin upp fyrir löngu, hefur breiðst út, og er meinlaus – spillir málinu ekki á nokkurn hátt og torveldar ekki skilning milli kynslóða eða á eldri textum. Það myndi hins vegar kosta mikinn tíma og orku að berja hana niður – og hefur svo sem verið reynt lengi, með litlum árangri.
Málsamfélagið – eða talsverður hluti þess – virðist því hafa komist að þeirri niðurstöðu að mér langar þjóni þörfum þess a.m.k. jafnvel og mig langar. Þeim tíma og orku sem fer í að berjast gegn þessari breytingu, og fjölmörgum öðrum sambærilegum, væri betur varið í annað – til dæmis í að vinna með texta, bæði í greiningu og ritun. Í erindi mennta- og barnamálaráðherra á Menntaþingi fyrr í vikunni kom fram að samkvæmt nýrri rannsókn á gæðum kennslu á Norðurlöndum væri vinna með texta mun fátíðari í íslenskum skólum en á hinum Norðurlöndunum. Ekki kom fram í hvað tímanum væri þá varið í staðinn, en mig grunar að þar sé oft um að ræða ófrjóa málfræðigreiningu, eyðufyllingar og leiðréttingar á „röngu“ máli.
Fyrst og fremst þurfum við þó að verja tíma og orku í að koma íslenskunni til allra – gera öllum íbúum landsins kleift og eftirsóknarvert að nota hana á öllum sviðum. Við þurfum að leggja margfalt meiri áherslu á að kenna innflytjendum á öllum aldri íslensku og það felur líka í sér að við þurfum að breyta viðhorfum okkar til þess hvernig íslenska sé eða eigi að vera – viðurkenna að íslenska með hreim, ófullkomnum beygingum og óvenjulegri orðaröð sé líka íslenska. Við þurfum líka að taka þá íslensku sem unga fólkið talar í sátt, þótt ýmislegt í henni sé frábrugðið því sem við ólumst upp við á síðustu öld. Það þýðir ekki að við þessi eldri þurfum að breyta okkar máli. En athugasemdir sem gera lítið úr málfari ungs fólks eru ekki líklegar til árangurs.
Þeirri afstöðu að neita að viðurkenna nokkrar breytingar á málinu og halda að við getum „fryst“ það eins og það var um miðja síðustu öld hef ég stundum líkt við Maginot-línuna sem Frakkar komu upp á millistríðsárunum og átti að verja þá fyrir innrás Þjóðverja. En þýski herinn fór einfaldlega ýmist fyrir endann á línunni gegnum Belgíu, í gegnum hana þar sem hún var veikust, eða flaug yfir hana. Línan byggðist nefnilega á gamaldags heimsmynd og úreltri tækni. Þannig er það líka með þá hugmynd að hægt sé eða nauðsynlegt að halda íslenskunni óbreyttri, og það er engin „undanlátssemi“ eða „undanhald“, hvað þá „uppgjöf“ að hverfa frá og andmæla þeirri hugmynd. Þvert á móti er það raunsæ afstaða sem er nauðsynleg til að íslenskan lifi góðu lífi.