Alls konar -skælingar
Í innleggi í Málvöndunarþættinum í dag voru nefnd orðin leikskælingar, grunnskælingar og háskælingar og sagt að þetta væru „nýjustu orðin“. Ég veit ekki alveg hvað átt er við með því – þótt öllum þessum orðum hafi vissulega brugðið fyrir hefur ekkert þeirra hefur komist í notkun sem heitið geti. Örfá dæmi eru þó um grunnskælingar – í skólaslitaræðu árið 1977 þegar fyrstu nemendurnir útskrifuðust með grunnskólapróf sagði skólastjóri Laugalækjarskóla: „Eftir áratug eða svo verðið þið stolt af því að vera í hópi seinustu gagnfræðinga á Íslandi, eða fyrstu „grunnskælinga“. En á tímarit.is eru ekki nema fimm dæmi eða svo um orðið, og sjö dæmi af samfélagsmiðlum í Risamálheildinni. Öðru máli gegnir um orðið menntskælingur.
Í lesendabréfi í Morgunblaðinu 1956 segir: „Mér finnst tími til kominn, að gerð sé athugasemd við orðskrípi eitt, sem virðist á góðri leið með að festast í íslenzku máli. Það er orðið „menntskælingur“ – sama og menntaskólanemi. Fyrst í stað mun orðið hafa verið notað meðal skólafólksins aðeins – í nokkurs konar glensi, en nú er gengið svo langt, að við sjáum það og heyrum í dagblöðum og útvarpi. […] Það er anzi hart, að ein æðsta menntastofnun landsins skuli ganga á undan í að vanskapa móðurmálið – eða hvernig fyndist ykkur, ef hinir kæmu á eftir: háskælingar, iðnskælingar o.s.frv.? […] [O]rðið á bókstaflega engan rétt á sér. […] „[M]enntskælingur“ er ekki annað en leiðinleg „skæling“, sem ætti að hverfa með öllu.“
En orðið menntskælingur var ekki nýtt þegar þetta var skrifað. Elsta dæmi um orðið á prenti er í Speglinum 1928 og fáein dæmi eru um það á tímarit.is frá næstu tveimur áratugum, en árið 1948 var stofnað skólablað undir heitinu Menntskælingur í Menntaskólanum á Akureyri, og upp úr því verður orðið algengt og er enn. Í Viðbæti Íslensk-danskrar orðabókar frá 1963 er það merkt „pop.“, þ.e. óformlegt (tal)mál, en er væntanlega löngu komið inn í formlegt mál. Orðið er myndað af menntaskóli með viðskeytinu -ing(ur) sem hefur sömu áhrif á grunnorðið og venjulega – styttir það í tvö atkvæði með brottfalli innan úr því (menntaskól- > menntskól-) og breytir stofnsérhljóði ef það getur tekið i-hljóðvarpi (menntskól- > menntskæl-).
Það hefði e.t.v. mátt búast við því að önnur orð yrðu mynduð á sama hátt og menntskælingur en ekki hefur farið mikið fyrir því. Orðin sem nefnd voru í Morgunblaðinu 1956, háskælingur og iðnskælingur, eru bæði lipur en hafa ekki farið á flug – háskælingur væntanlega vegna augljósra hugrenningatengsla við sögnina háskæla, og iðnskælingur líklega vegna þess að fyrir var í málinu styttra og liprara orð sömu merkingar, iðnnemi. Ekki er heldur að sjá að notuð hafi verið orð mynduð á þennan hátt af heitum skólategunda sem áður voru algeng, barnaskóli og gagnfræðaskóli. Í seinna tilvikinu gæti það skipt máli að ekki er augljóst hvernig ætti að stytta gagnfræðaskól- niður í tvö atkvæði – *gagnskælingur er hæpið en gagnfræðingur merkti annað.
Þó má nefna að auk menntskælinga koma orðin Háskælingar, iðnskælingar og barnskælingar koma fyrir í Speglinum 1928, og einnig Kvenskælingar, Samskælingar, Verslskælingar, lýðskælingar, vélskælingar og kennaraskælingar. En Spegillinn var gamanblað og þessi orð eru þarna notuð í spaugi en ekkert sem bendir til þess að nokkurt þeirra nema menntskælingar hafi komist í notkun. Kven(n)skælingar kom þó til löngu síðar, en á seinni árum hefur verið eitthvað um að orð af þessu tagi væru mynduð af sérnöfnum – heitum einstakra skóla (reyndar má líta svo á að orðið menntskælingur hafi í upphafi verið leitt af heiti Menntaskólans (í Reykjavík og á Akureyri). Ekki er þó að sjá að neitt þeirra hafi náð útbreiðslu nema helst Hagskælingar.
Ástæðan fyrir því að menntskælingur hefur orðið algengt, öfugt við önnur (hugsanleg) orð mynduð á sama hátt, er e.t.v. að einhverju leyti sú að það er tveimur atkvæðum styttra en hitt orðið sem helst kæmi til greina í sömu merkingu, menntaskólanemi (sem er eldra og mun algengara) og þremur atkvæðum styttra en menntaskólanemandi (sem er enn eldra). Svipað er að segja um Kven(n)skælingur, en aftur á móti er grunnskælingur aðeins einu atkvæði styttra en grunnskólanemi, og leikskælingur einu atkvæði styttra en leikskólanemi – og jafnlangt og leikskólabarn. Til að stytta Verslunarskólanemi er hins vegar stundum farin önnur leið – skóla sleppt og sagt Verslingur (væntanlega að einhverju leyti fyrir áhrif frá nafnorðinu veslingur).