Posted on Færðu inn athugasemd

Frá augliti til auglitis – eða augnliti til augnlitis

Í gær var hér spurt hvort það væri þekkt að bera fram lokhljóð („hart g“, eins og í sigla) í sambandinu augliti til auglitis en fyrirspyrjandi hafði heyrt þennan framburð hjá fréttaþul. Meginreglan er sú að g er borið fram sem lokhljóð og f borið fram sem b á undan l og n, eins og í sigla, rigna, tefla, nefna o.s.frv. Það gildir hins vegar yfirleitt ekki ef um samsett orð er að ræða og orðhlutaskil á milli g/f og l/n – þá er borið fram önghljóð eins og í t.d. dag-lega, hag-nýta, hóf-legur, of-nota o.s.frv. Stundum eru slík orð þó skynjuð og meðhöndluð eins og þau væru ósamsett, eins og t.d. nafnið Signý sem oftast er borið fram með lokhljóði (öfugt við Dagný) og ég hélt í fljótu bragði að það væri ástæðan fyrir þessum framburði.

En svo fékk ég bakþanka og fór að skoða málið nánar. Þá kom í ljós að slæðingur er til af dæmum um orðmyndina augnlit, með fyrri liðinn augn-, í stað auglit, með fyrri liðinn aug-. Þannig segir t.d. í Alþýðublaðinu 1961: „En þegar maður sér hann augnliti til augnlits og talar við hann virðist hann hafa til að bera virðuleik háskóla borgarans.“ Í Víkurfréttum 2016 segir: „Henni finnst vænlegri aðferð að fara og tala við kjósendur augnliti til augnlits.“ Dæmi (sem gætu verið villur) eru um að báðar myndir komi fram í sömu setningu, eins og í Alþýðublaðinu 1976: „Hann opnaði augun og stóð augnliti til auglitis við sjóðandi bullandi myrkur“ og í Morgunblaðinu 1912: „Heyrðu vel það sem vinur segir án þess að þið séuð augliti til augnlits.“

Myndin augnlit getur vel staðist – ýmsar samsetningar hafa augn- sem fyrri lið svo sem augndropi, augnlæknir, augnsamband, augntóft, og svo karlkynsorðið augnlitur sem fellur saman við hvorugkynsorðið augnlit í sumum beygingarmyndum. Það er ekkert einsdæmi að til séu tvímyndir orða, myndaðar á mismunandi hátt en þó báðar í fullu samræmi við reglur málsins. Í myndinni augnlit kemur g næst á undan n án þess að orðhlutaskil séu á milli – þau koma á eftir n-inu – og því er g borið þar fram sem lokhljóð, eins og í t.d. rigna. Framburðurinn sem spurt var um er því ekki óvenjulegur eða rangur framburður á venjulegu myndinni auglit, heldur eðlilegur framburður á óvenjulegu – en réttu – orðmyndinni augnlit.

En fleiri tilbrigði eru í þessu orðasambandi. Venjuleg ending sterkra hvorugkynsorða í eignarfalli eintölu er -s en Beygingarlýsingu íslensk nútímamáls segir: „Í orðasamböndum bregður fyrir eignarfallsmyndinni auglitis.“ Það er reyndar meira en þessu „bregði fyrir“ – á tímarit.is er augliti til auglitis hátt í tífalt algengara en augliti til auglits og í Málfarsbankanum segir „Ef. auglits eða auglitis“ þannig að hvort tveggja er viðurkennt. Væntanlega er þessi óvenjulega -is-ending tilkomin fyrir áhrif frá fyrra orðinu í sambandinu, þágufallsmyndinni augliti. En hvorugkynsorð geta líka endað á -i í nefnifalli, eins og kvæði, og hugsanlegt væri að gera ráð fyrir að til sé – eða hafi verið – myndin augliti sem yrði þá auglitis í eignarfalli.

Posted on Færðu inn athugasemd

Það sést hver drekka Kristal

Fyrir helgi birtist í Vísi frétt með fyrirsögninni „Ölgerðin breytir slagorðinu fyrir Kristal“. Þar er sagt frá því að í tengslum við vottun Samtakanna ´78 á Ölgerðinni sem hinseginvænum vinnustað hafi verið gerð smávægileg breyting á slagorðinu „sem þjóðin hefur þekkt sem „Það sést hverjir drekka Kristal.“ Kristall er hins vegar fyrir okkur öll og uppfært slagorð er því „Það sést hver drekka Kristal“ og þannig er gert ráð fyrir öllum kynjum“ segir forstjóri Ölgerðarinnar. Þarna er sem sé fleirtala hvorugkyns af spurnarfornafninu hver sett í stað karlkynsfleirtölunnar hverjir. Vitanlega er það sést hver drekka Kristal í fullu samræmi við málkerfið þótt það kunni að villa um fyrir einhverjum að fleirtala hvorugkyns af spurnarfornafninu hver er líka hver.

Þótt karlkynsmynd spurnarfornafnsins hafi fram til þessa verið notuð í slagorðinu hefur vitanlega ekki verið gert ráð fyrir því að eingöngu karlar drekki Kristal, heldur hefur hverjir verið þarna í kynhlutlausri merkingu sem sjálfgefið málfræðilegt karlkyn eins og hefð er fyrir í málinu. En samkvæmt minni máltilfinningu a.m.k. er það sést hver drekka Kristal ekki í neinu ósamræmi við málhefðina. Með því að nota sögnina sjá búum við til ímyndaðan hóp sem vísað er til í setningunni og þar með getum við notað vísandi hvorugkyn og sagt hver. Það er sem sé hægt að nota hvort heldur sjálfgefið málfræðilegt karlkyn og segja það sést hverjir drekka Kristal eða vísandi hvorugkyn og segja það sést hver drekka Kristal. Hvort tveggja stenst.

Vitanlega er það samt rétt að venjan hefur verið að nota karlkyn í dæmum á við þessu. En málvenjur geta breyst – og þurfa stundum að gera það til að svara kalli tímans. Auðvitað er Ölgerðin í fullum rétti að breyta slagorði sínu en það þýðir vitaskuld ekki að við þurfum að breyta máli okkar. Út frá umræðu á samfélagsmiðlum, ekki síst í Facebookhópunum Málvöndunarþátturinn og Skemmtileg íslensk orð, mætti þó ætla að verið væri vinna meiriháttar skemmdarverk á málinu í þágu fámenns en heimtufreks hóps sem „trúir því allt í einu að kynin séu fleiri en tvö“. Í þessum hópum eru komnar samtals hátt í 300 athugasemdir við innlegg um málið – allmargar jákvæðar en mikill meirihluti þó neikvæðar eins og eftirfarandi dæmi sýna:

„Þetta er kolruglað. Það er verið að stórskemma okkar fallega mál; Þetta er bara hallærislegt en það er kannski tískan í dag; Þessa bull málnotkun skal enginn maður fá mig til að nota; Alger fáviska; þetta er svo heimskulegt að engum tárum tekur, það á að nota óákveðna fornafnið rétt, annað er heimska; Glatað; Ömurlegt; Asnaleg breyting til hins verra; barnamál; Alveg einstaklega hálfvitalegt, og getur hreinlega ekki verið málfræðilega rétt; skelfileg rétthugsunarhandaflsmálþróun; Þeir sýna íslensku máli lítilsvirðingu; Rétt ein málvillan; þetta er meira ruglið; Fáránlegt; Málfarsleg fátækt, eymd og volæði villuráfandi málvillinga; Sorglegt metnaðarleysi; Algjört rugl; Hallærisleg aðför að tungumálinu; Asnalegt bara, smábarna mál.“

Mun fleiri dæmi mætti taka, og ég verð að segja að það er eitthvað annað en umhyggja fyrir tungumálinu og notendum þess sem býr á bak við athugasemdir af þessu tagi. Vitanlega er samt eðlilegt að skoðanir séu skiptar á þessari breytingu. En það liggur fyrir að ýmsum konum og kvárum finnst karlkynsmyndir fornafna og lýsingarorða ekki höfða til sín. Við getum auðvitað reynt að segja þeim að það sé misskilningur að karlkynsmyndirnar séu eitthvað útilokandi fyrir þau, en hæpið er að það breyti tilfinningu þeirra. Betra er, bæði fyrir málið og málnotendur, að sýna umburðarlyndi og taka tillit til tilfinninga fólks. Við þurfum ekki öll að tala eins, og við hljótum að geta unnt öðrum þess að nota málið svolítið öðruvísi en við gerum sjálf.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hætt

Í frétt á Vísi í gær undir fyrirsögninni „Hödd hætt hjá Sigríði Hrund forsetaframbjóðanda“ er spurt „hvort þetta hætt hennar hafi borið brátt að“. Þarna er orðið hætt notað sem nafnorð og ég hef séð ýmsar athugasemdir við það, bæði hér í hópnum og víðar. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem hætt er notað sem nafnorð – sami blaðamaður skrifaði á Facebook í fyrra: „Af hverju er Páll Vilhjálmsson ekki enn búinn að skrifa fréttaskýringu um þetta hætt Þóru.“ Elsta dæmi sem ég hef fundið um hætt sem nafnorð er þó á Bland.is 2007 þar sem segir: „Hún er að æfa sig fyrir hið fullkomna hætt.“ En hvað er um þessa orðmyndun að segja – er hætt ótækt orð eins og sumum finnst greinilega, eða er þetta góð og gild viðbót við orðaforðann?

Augljóslega er hætt myndað af sögninni hætta með því að sleppa nafnháttarendingunni -a. Slík orðmyndun er fjarri því að vera einsdæmi. Þannig er nafnorðið hrós leitt af sögninni hrósa, nafnorðið væl leitt af sögninni væla, nafnorðið brun leitt af sögninni bruna, o.s.frv. Þessi orðmyndun er frjó í málinu – í handboltalýsingu fyrir tveimur árum lýsti Einar Örn Jónsson aðförum leikmanns þannig að þær væru „stjak meira en ýt og alls ekki hrind“ – og fékk hrós fyrir myndrænt og auðugt orðaval. Orðin stjak, ýt og hrind eru augljóslega mynduð af sögnunum stjaka, ýta og hrindastjak kemur m.a. fyrir í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, dæmi er frá upphafi 20. aldar um ýt, en hrind virðist vera nýsmíði Einars Arnar.

Ég hef séð spurt að því hvort ekki væri þá eðlilegt að tala um *byrj, af sögninni byrja, í samræmi við hætt af hætta. En á þessu tvennu er grundvallarmunur. Í fyrsta lagi myndi slík orðmyndun brjóta hljóðskipunarreglur málsins – samhljóðaklasinn -rj stæði þá í enda orðs en engin íslensk orð enda á þann hátt. Í öðru lagi höfum við þegar nafnorðið byrjun, myndað með viðskeyti af sögninni byrja, og því engin þörf fyrir annað orð. Aftur á móti er ekki til neitt verknaðarnafnorð af sögninni hætta. Nú má auðvitað velta því fyrir sér hver þörfin sé fyrir slíkt orð. Í sumum tilvikum, eins og í fréttinni sem hér er til umræðu, hefði t.d. verið hægt að nota orðið starfslok, en það á ekki ávallt við – t.d. ekki ef málið snýst um að fólk sé að hætta að reykja eða drekka.

Vissulega er ekki nauðsynlegt að til hverrar sagnar sem felur í sér verknað eða athöfn svari verknaðarnafnorð – oft er hægt að haga máli sínu á annan hátt. Í áðurnefndri frétt hefði t.d. verið hægt að segja hvort það að hún lét af störfum hafi borið brátt að. Þetta getur stundum farið betur en oft fæst samt styttra og hnitmiðaðra mál með því að nota nafnorð – ekki síst ef þau eru lipur eins og hætt. Fyrir utan að vera myndað á eðlilegan hátt fellur það að hljóðskipunarreglum – þótt flest orð sem enda á -ætt séu reyndar kvenkynsorð er til í eldra máli hvorugkynsorðið vætt. Mér finnst sem sagt ekkert að því að taka upp hvorugkynsorðið hætt í merkingunni 'það að hætta' ef fólki sýnist svo, en auðvitað þarf að venjast því eins og öðrum nýjum orðum.

Posted on Færðu inn athugasemd

Þau eru áhugasamt

Sumt fólk skilgreinir sig utan kynjatvíhyggjunnar og vill því ekki láta nota um sig fornöfnin hann og hún. Hvorugkynsfornafnið það er óheppilegt í vísun til fólks og þess vegna var búið til fornafnið hán (og reyndar fleiri fornöfn) til að nota í staðinn. Í stað þess að nota hán eða eitthvert annað nýtt fornafn kjósa sum þó fremur að nota hvorugkynsmyndina þau um sig sjálf – láta fleirtölumyndina sem sé hafa eintöluvísun. Væntanlega er þetta að erlendri fyrirmynd – í ensku á notkun they í eintölumerkingu sér langa sögu, jafnvel allt aftur á 14. öld, og nýtur sífellt meiri viðurkenningar. Það er notað þegar kyn þeirra sem vísað er til er óþekkt, skiptir ekki máli, eða er ekki gefið upp og eins í vísun til þeirra sem skilgreina sig hvorki karlkyns né kvenkyns.

Einhverjum kann að finnast það fráleitt að nota fleirtölumyndina þau í eintölumerkingu á þennan hátt, og vissulega á það sér ekki hefð í málinu. En þó er rétt að hafa í huga að mjög sambærileg fornafnanotkun tíðkaðist til skamms tíma í formlegu og upphöfnu máli, og sést stöku sinnum enn. Hér á ég við þéringar, þar sem myndin þér er notuð bæði í eintölu og fleirtölu annarrar persónu – þér eruð vinur minn og þér eruð vinir mínir. Orðmyndin þér er upphaflega önnur persóna fleirtölu (þið var upphaflega aðeins tvítala) og hagar sér að sumu leyti þannig enn, jafnvel þegar hún hefur eintöluvísun – tekur ævinlega með sér sögn í annarri persónu fleirtölu. Við segjum þér er vinur minn en alls ekki *þér ert vinur minn.

Orðið vér sem einnig er upphaflega fleirtala í fyrstu persónu (við var upphaflega aðeins tvítala) var notað á svipaðan hátt í formlegu máli. Meðan Ísland hafði kóng hófust konunglegar tilskipanir eitthvað á þessa leið: „Vér Kristján konungur hinn tíundi af guðs náð konungur Íslands og Danmerkur.“ Kristján Eldjárn forseti Íslands 1968-1980 notaði líka yfirleitt vér – vissulega oftast í fleirtöluvísun. Eins og þér tók vér alltaf með sér fleirtölumynd sagnar hvort sem vísimiðið var í eintölu eða fleirtölu – vér erum en alls ekki *vér er. En ef orðin tóku með sér lýsingarorð eða lýsingarhátt sem sagnfyllingu var tala hennar á reiki. Það var ýmist sagt þér eruð kominn eða þér eruð komnir, vér erum viss um eða vér erum vissir um, o.s.frv.

Þegar fleirtölumyndin þau er notuð í eintöluvísun kemur upp sú spurning hvernig eigi að fara með sögn sem stendur með henni – og sagnfyllingu, ef því er að skipta. Á að hafa bæði sögn og sagnfyllingu í fleirtölu og segja t.d. þau eru áhugasöm, hafa sögnina í fleirtölu en sagnfyllinguna í eintölu og segja þau eru áhugasamt, eða hafa hvort tveggja í eintölu og segja þau er áhugasamt? Ég held að önnur leiðin sé heppilegust – vissulega felst málfræðilegt ósamræmi milli sagnar og sagnfyllingar í henni en það er þó ekkert einsdæmi, heldur hliðstætt því sem tíðkaðist í þéringum eins og áður segir. En meginatriðið er þó að þau sem nota þau á þennan hátt fái sjálf að ákveða hvernig þeim finnst heppilegast að hafa þetta.

Auðvitað getur fólk hneykslast á þessu eins og því sýnist og sagt að þau sé fleirtala og það sé ekkert hægt að gefa fleirtölumynd eintöluvísun á þennan hátt – það sé misþyrming á málinu. Þá má minna á hliðstæðuna við þéringar, þótt vissulega megi halda því fram að þrátt fyrir að þessi notkun þau sé formlega svipuð þéringum sé hún gerólík í eðli sínu vegna þess að þéringar hafi þróast af sjálfu sér í málinu en notkun þau í eintölumerkingu sé „handstýrð“ breyting. En þá er mikilvægt að hafa í huga að fyrir sumum er þetta hjartans mál – snýst um sjálfsmynd þeirra og stað þeirra í tungumálinu. Mér finnst æskilegast að bíða átekta, leyfa þessari notkun að hafa sinn gang og sjá hvernig hún þróast. Umburðarlyndi og tillitssemi er mikilvægt sem endranær.

Posted on Færðu inn athugasemd

Í gegnum tíðina

Stundum hefur verið amast við því að nota gegnum eða í gegnum í vísun til tíma. Í bæklingnum Gott mál eftir Ólaf Oddsson segir: Algengt er orðalagið „gegnum aldirnar,“ en betra er: um aldir.“ Gísli Jónsson er á sömu slóðum í Morgunblaðinu 1983: „Í staðinn fyrir að segja gegnum aldirnar er hægt að komast að orði á margan laglegri hátt: Öldum saman, öld eftir öld, í aldanna rás o.s.frv.“ Síðar sama ár sagði hann í Morgunblaðinu: „[M]ér þykir „gegnumtal“ í þessari merkingu ekki fallegt.“ Í Morgunblaðinu 1985 hnykkir Gísli á þessu og segist hafa verið hvattur til „að ítreka aðfinnslur vegna þess málfars, þegar (í) gegnum er haft til að tákna tímamerkingu, svo sem (í) gegnum tíðina, gegnum árin eða gegnum aldirnar. Ég geri þetta fús […].“

Gísli taldi þarna vera „um að ræða óholl áhrif frá ensku (through) og dönsku (igennem)“. Í Íslenskri orðabók er sambandið gegnum árin (aldirnar) skýrt 'í áranna (aldanna) rás' og merkt ?? sem táknar „framandorð sem vafi leikur á hvort talist getur íslenskt, sletta“. Vissulega er þetta líkt dönsku, gennem årene eða gennem tiden, og væntanlega er grunur um dönsk áhrif ástæðan fyrir því að þetta orðalag hefur iðulega sætt gagnrýni. En eins og Jón G. Friðjónsson hefur bent á kemur svipað orðalag fyrir í fornu máli, t.d. þeir berjast allan dag í gegnum sem merkir einfaldlega 'allan daginn' og kona hans sat hjá og grét alla nótt í gegnum sem merkir 'alla nóttina'. Báðar þessar setningar koma fyrir í handritum frá 13. öld.

Vissulega er merkingin eilítið önnur þarna og orðaröðin önnur en í nútímamáli – í gegnum kemur á eftir tímatilvísuninni en ekki á undan eins og nú. En það breytir því ekki að þarna er í gegnum notað í tilvísun til tíma og sambönd eins og gegnum aldirnar og gegnum árin hafa tíðkast í a.m.k. 150 ár. Alls eru tæp sex þúsund dæmi um gegnum aldirnar á tímarit.is, það elsta í Gefn 1873: „þær hafa varðveitt þjóðerni vort óraskað í gegnum aldirnar.“ Sambandið varð algengara eftir 1980. Dæmin um gegnum árin eru 38 þúsund, það elsta í kvæði eftir Gest Pálsson í Ísafold 1874: „einsog hetja stóðstu styrk / straumhörð gegnum árin myrk.“ Sambandið var sjaldgæft fram um miðja 20. öld en tíðni þess jókst mjög upp úr 1970 og einkum eftir 1980.

Sambandið (í) gegnum tíðina er dálítið sér á báti. Það er mun yngra í málinu en hin samböndin en þó langalgengast þeirra, hátt í 50 þúsund dæmi á tímarit.is, það elsta í Skemmtiblaðinu 1921: „En Róbert synnti gegnum tíðina í rólegheitum, án þess að láta sig nokkru skifta listamannsstörfin.“ Næst kemur sambandið fyrir í tilvitnun í Halldór Laxness í Alþýðublaðinu 1967 og svo í grein eftir Halldór í Tímariti Máls og menningar 1968: „Mart hefur verið ritað og rætt um málið gegnum tíðina.“ En árið 1972 kom út viðtalsbók Matthíasar Johannessen við Halldór, Skeggræður gegnum tíðina, og árið 1977 gaf hljómsveitin Mannakorn út plötuna Í gegnum tíðina. Upp úr þessu og einkum eftir 1980 jókst notkun sambandsins gífurlega.

Posted on Færðu inn athugasemd

Vöplur

Vöfflur hafa lengi verið vinsælt kaffibrauð á Íslandi og eru enn. Elsta dæmi um orðið er í Einföldu matreiðslu-vasakveri fyrir heldri manna húsfreyjur sem gefið var út árið 1800 og eignað Mörtu Maríu Stephensen en almennt talið eftir Magnús Stephensen mág hennar: „Vøfflur eru tilbúnar af Hveitimjøli.“ Elsta dæmið á tímarit.is er frá 1892 en orðið virðist ekki sérlega þekkt um aldamótin og þarfnast skýringar – í ritdómi í Nýju öldinni 1899 segir, í upptalningu á villum: „„vafla“ á líklega að vera „vaffla“ (útl. nafn á köku).“ Orðið er væntanlega komið af vaffel í dönsku en á upphaflega rætur í hollensku eins og Haraldur Bernharðsson hefur rakið skilmerkilega í grein í afmælisriti Guðrúnar Ingólfsdóttur, 38 vöplur.

Í titli þess rits er notuð myndin vöplur, einnig oft skrifuð vöpplur, enda er enginn framburðarmunur á pl og ppl. Rithátturinn vapla er mun eldri – elsta dæmi um hann er í Þjóðólfi 1910: „Nýar kleinur, vöplur og pönnukökur fást keyptar á Klapparstíg 4.“ Dæmi um samsetninguna vöplujárn er þó heldur eldra – úr Auglýsingablaðinu 1903. Rithátturinn vappla sést fyrst í Vísi 1945: „sem skafinn var yfir lummurnar, pönnukökurnar og vöpplurnar.“ Á seinustu áratugum virðist sá ritháttur hins vegar nær einhafður og hinn sést varla nema í áðurnefndum titli. Ég mæli með rithættinum vapla vegna þess að hann er eldri og pl er mun algengara en ppl, auk þess sem mér finnst almennt rétt að nota frekar færri bókstafi en fleiri.

Heimildir um myndina vapla eru fáskrúðugar. Í áðurnefndri grein Haraldar Bernharðssonar kemur fram að nokkur dæmi séu um hana í talmálssafni Orðabókar Háskólans frá því um 1980. Haraldur segir þau benda til að þessi mynd hafi verið nokkuð útbreidd en e.t.v. verið algengust í máli Norðlendinga, og hafi líklega „hopað nokkuð í seinni tíð“. Á tímarit.is eru um 30 dæmi um þessa mynd, ýmist með pl eða ppl. Í Norðurslóð 2006 eru birt nokkur orð og orðasambönd „sem Kristján Eldjárn heyrði í æsku og skráði hjá sér“. Meðal þess er „Vappla, vöpplur – vöfflur, ætíð borið þannig fram“. Á annan tug dæma frá þessari öld er um myndina vöpplur á tímarit.is en það er athyglisvert að nær öll dæmin eru úr minningargreinum.

Þar er orðið vöpplur oftast haft innan gæsalappa og stundum skýrt sérstaklega. Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Á meðan heilsan leyfði bauðstu oftast upp á eitthvert bakkelsi og oftar en ekki „vöpplur“, ekki vöfflur.“ Í Morgunblaðinu 2011 segir: „Aldrei fór neinn maður þaðan svangur, því ávallt voru „vöpplur“ eins og þú sagðir alltaf, smurbrauð og annað fínerí lagt á borð.“ Í Morgunblaðinu 2012 segir: „„Fáið ykkur vöpplur krakkar mínir,“ sagðir þú í hvert skipti sem við komum til þín.“ Í sama blaði sama ár segir: „Hún elskaði súkkulaði og önnur sætindi, bakaði dýrindis smákökur, pönnukökur og „vöpplur“ meðan hún gat.“ Meirihluti þeirra sem um er skrifað er frá Norðurlandi, en einnig er þar fólk úr Borgarfirði og af höfuðborgarsvæðinu.

Oftast eru það barnabörn sem skrifa þessar minningargreinar og augljóst að þeim hefur fundist þessi framburður sérkennilegur og gamaldags og nefna hann þess vegna. Þetta sýnir glöggt að þessi framburður er að hverfa – sem er skaði. Haraldur Bernharðsson bendir á að með því að breyta vaffla í vapla sé orðið lagað betur að íslensku hljóðkerfi og segir að „myndin vaffla, ft. vöfflur sýni erlendan uppruna sinn í hljóðastrengnum [fl] sem annars er sjaldgæfur í íslensku. […] Á hinn bóginn er myndin vap(p)la, ft. vöp(p)lur betur löguð að hljóðkerfi íslenskunnar […] Frá sjónarhóli íslenskrar tungu má því ef til vill segja að vöp(p)lur fari betur í munni en vöfflur.“ Ég ólst upp við vöplur í Skagafirði en lagði þann framburð af – en hef nú tekið hann upp aftur.

Posted on Færðu inn athugasemd

Í persónu

Ýmis nútímatækni hefur gert það að verkum að merking algengra hugtaka og orða sem varða mannleg samskipti er ekki jafn ljós og áður – orða eins og sjá(st), hitta(st), halda fund o.s.frv. Áður fyrr voru þessi orð bundin stund og stað – fólk þurfti að vera samtímis í sama rými. En með tilkomu síma, útvarps, sjónvarps og sérstaklega netsins og snjallsíma hefur þetta breyst. Nú tölum við um að sjást, hittast, halda fundi o.s.frv. með hjálp tækninnar og þurfum ekki að vera í sama rými – og jafnvel ekki endilega á sama tíma. Mörgum finnst samt nauðsynlegt að greina þarna á milli – taka t.d. fram hvort við ætlum að koma saman á tilteknum stað til að halda fund, eða vera hvort/hvert á sínum stað og halda netfund. Hvernig gerum við þann mun?

Í ensku er sambandið in person notað í þessum tilgangi – það vísar þá til þess að fólk kemur saman í raunheimum. Í íslensku hefur samsvörunin í persónu verið tekin upp í sama tilgangi. Enska sambandið merkir raunar líka 'persónulega' og sú er merkingin í elstu dæmum sem ég finn um í persónu. Í viðtali við Björk Guðmundsdóttur í Helgarpóstinum 1995 segir: „Á Íslandi þekkja mig allir í persónu.“ Sama merking er í „þegar maður hittir hann í persónu er hann ósköp venjulegur gaur“ í Morgunblaðinu 2000, og oft í minningargreinum – „þó að þú sért ekki hjá mér í persónu“ í Morgunblaðinu 1997, „þó að þú verðir ekki hér í persónu“ í Morgunblaðinu 1999, „Ég fékk ekki að kynnast þér í persónu“ í Morgunblaðinu 2000, o.fl.

En svo fara að koma dæmi þar sem í persónu er andstæða við með stafrænum hætti eða eitthvað slíkt. Í Monitor 2011 segir: „Hvort er hún skemmtilegri á netspjallinu eða í persónu?“ Í Fréttablaðinu 2012 segir: „Jingjun Xu setti nemendunum það fyrir að reyna að selja hlutabréf með mismunandi hætti, í persónu, í síma, með myndspjalli eða með því að senda textaskilaboð.“ Í Morgunblaðinu 2019 segir: „Er tölvan tekin fram yfir að hitta vini í persónu?“ Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Að öðrum kosti þurfi fólk að mæta í persónu til að endurnýja.“ Stundum mætti setja persónulega í stað í persónu en þó ekki alltaf, t.d. varla í setningunni „Hann segist bæði spila á vefnum og í persónu“ í Morgunblaðinu 2010.

En með tilkomu covid-19 snemma árs 2020 dró mjög úr beinum samskiptum fólks augliti til auglitis og netsamskipti jukust að sama skapi, og við það margfaldaðist notkun sambandsins í persónu. Jafnframt virðist merkingarsvið þess hafa víkkað og þó að ég sé farinn að venjast því hnykkti mér við í morgun þegar ég sá frétt á vef Ríkisútvarpsins þar sem fjallað var um breytt útlit EM-stofunnar og birtar tvær myndir, önnur með textanum „Svona lítur stofan út í útsendingu“ en undir hinni stóð „Svona lítur stofan út í persónu.“ Þarna er ljóst að sambandið í persónu hefur rofið tengslin við orðið persóna og er farið að merkja 'í raun' – nema hugmyndin hafi verið að persónugera stofuna þarna sem mér finnst ekki líklegt.

En þótt sambandið í persónu eigi sér ekki langa sögu í íslensku gegnir öðru máli um sambandið í eigin persónu. Það hefur tíðkast a.m.k. síðan á seinni hluta 19. aldar og er væntanlega komiðúr dönsku, i egen person. Það stendur iðulega með sjálfur og gegnir oft því hlutverki að leggja áherslu á að um viðkomandi sjálfan / sjálfa / sjálft er að ræða en ekki fulltrúa hans / hennar / háns. Í Eimreiðinni 1902 segir: „Þetta barst prófastinum til eyrna og kom hann sjálfur í eigin persónu til að vera við prófið.“ Í Morgunblaðinu 1990 segir: „Wynette afhendir verðlaunin í eigin persónu í samkvæmi, sem haldið verður henni til heiðurs.“ Í Morgunblaðinu 2010 segir: „Þakið rifnar svo af Háskólabíói þegar Maxímús birtist loks á sviðinu í eigin persónu.“

Þótt orðið persóna sé upphaflega tökuorð í íslensku kemur það fyrir þegar í fornu máli og er vitanlega fyrir löngu orðið fullgilt íslenskt orð. En sambandið í persónu í þeirri merkingu sem hér hefur verið lýst er tekið úr ensku og á sér ekki hefð í málinu. Það er hins vegar ekki hægt að benda á eitthvert eitt orðalag sem hægt væri að nota í staðinn. Eins og áður segir væri oft hægt að nota persónulega, en stundum jafnvel sjálfur / sjálf / sjálft. Einnig mætti oft segja í raunheimi / raunheimum, í raunveruleikanum eða í raun. En svo kemur líka til greina að leita ekki að neinum staðgenglum heldur taka bara sambandinu í persónu fegins hendi og reyna að venjast því þrátt fyrir upprunann. Það verðum við bara að meta hvert fyrir sig.

Posted on Færðu inn athugasemd

Fóru þau vill vega eða villur vega?

Orðasambandið fara villur vega(r) í merkingunni 'vera villtur' eða 'hafa rangt fyrir sér, skjátlast' kemur fyrir þegar í fornu máli – „sný ég þessu níði á landvættir […] svo að allar fari þær villar vega“ segir í Egils sögu. Oft er sambandið sagt notað ranglega. Í Málfarsbankanum segir t.d.: „Lýsingarorðið villur (vill, villt) hefur sömu merkinu og lýsingarorðið villtur. Hann fer villur vegar. Þeir fara villir vegar. Hún fer vill vegar. Ekki: „þeir fara villur vegar“, „hún fer villur vegar“ enda er það ekki nafnorðið villa sem hér um ræðir.“ Og Jón G. Friðjónsson segir í Morgunblaðinu 2007: „Í nútímamáli (reyndar frá fyrri hluta 20. aldar) er villur stundum skilið sem þf.flt. af villa […]. Slík notkun samræmist hvorki uppruna né málvenju.“

Í nútímamáli kemur lýsingarorðið villur tæpast fyrir nema í sambandinu fara villur vega(r). Nafnorðið villa er hins vegar mjög algengt og þess vegna er engin furða að málnotendur telji að um það orð sé að ræða í þessu sambandi. Reyndar er sú notkun eldri en frá fyrri hluta 20, aldar – frá því fyrir aldamótin 1900. Í Heimskringlu 1891 segir: „þeir hafa farið villur vegar.“ Í Lísingu 1899 segir: „Vér sjáum það, að samviskan getur farið villur vegar.“ Í Þjóðviljanum 1899 segir: „Það er að vísu raunalegt, að sjá góða, og í raun og veru skynsama, menn fara villur vegar.“ Dæmum fjölgar svo þegar kemur fram yfir aldamót og alla 20. öldina má finna á tímarit.is fjölda dæma sem sýna glöggt að villur er skilið sem nafnorð en ekki lýsingarorð.

Nokkur dæmi: Í Frækorni 1908 segir: „Að sönnu er höfundurinn svo vægur, að hann ætlast ekki til, að neinn fari að álasa fornkirkjunni eða kirkjunni yfirleitt, að hún hefir farið villur vegar.“ Í Unga hermanninum 1909 segir: „Og þeir, sem hugsa, að Guð vilji ekki, að börn hans umgangist hann þannig, þeir fara villur vegar.“ Í Vísi 1937 segir: „Flugurnar fara villur vegar stundum.“ Í Skinfaxa 1939 segir: „Þau fara villur vegar í hríð og náttmyrkri.“ Í Íslendingi 1955 segir: „Báðir aðilar fara villur vegar.“ Í Skagablaðinu 1986 segir: „Það er ekki oft sem fréttist af fólki sem fer villur vegar á eða við Akranes.“ Í Morgunblaðinu 1992 segir: „Ég held að megnið af þessu unga fólki hafi nú gert sér grein fyrir því að það fór villur vegar.“

Vissulega er enginn vafi á því að villur er upphaflega lýsingarorð í sambandinu fara villur vega(r). En það þýðir ekki endilega að við séum bundin við þann skilning og annar skilningur sé sjálfkrafa rangur – það eru fjölmörg dæmi um að orð og orðasambönd hafi nú aðra merkingu eða séu skilin á annan hátt en í fornu máli. Það er enginn vafi á því að löng og mikil notkun orðsins villur sem nafnorðs í þessu sambandi hefur skapað nýja málvenju – til hliðar við þá gömlu sem auðvitað er enn í fullu gildi. Það er nefnilega ekkert að því að tvær mismunandi málvenjur séu í gangi – við þurfum ekkert öll að tala eins. Tilbrigði sýna að það er líf í málinu. Bæði blaðið fór villt vega og blaðið fór villur vega hlýtur að teljast rétt mál.

Posted on Færðu inn athugasemd

Niður til Afríku

Málfarsbankinn segir: „Athuga ber að tala fremur um norður og suður í heiminum en „upp“ eða „uppi“ og „niður“ eða „niðri“. Sagt er: suður til Afríku, suður í Afríku, norður til Kanada, norður í Kanada (ekki „niður til Afríku“, „niðri í Afríku“, „upp til Kanada“, „uppi í Kanada“).“ Í kverinu Gætum tungunnar er notað afdráttarlausara orðalag: „Sagt var: Hann fór niður til Afríku. Rétt væri: Hann fór suður til Afríku.“ Ólafur Oddsson tekur undir þetta í kverinu Gott mál og segir: „Sumir menn tala um að fara „niður“ til sólarlanda og þaðan fara þeir svo „upp“ til Íslands. Þessar áttaviðmiðanir eru dæmi um erlend máláhrif. Danir tala um að ferðast „ned til Hamborg“ en þetta er ekki málvenja hér.“ Þetta þarf þó að skoða nánar.

Vel má vera að það megi kalla þessa notkun atviksorðanna upp og niður „erlend máláhrif“, en hitt er fráleitt að segja að hún sé „ekki málvenja hér“ því að það hefur hún verið lengi. Allt frá því fyrir miðja 19. öld var alvanalegt að nota niður til um ferðir frá Íslandi til Danmerkur. Í Nýjum félagsritum 1842 segir: „Thórarensen amtmaður sendi mikið af kaupverði Hólajarðanna […] beinlínis niður til Kaupmannahafnar.“ Í Undirbúningsblaði undir þjóðfundinn 1850 segir: „Sjer í lagi þótti fundarmönnum, að það mundi verða nauðsynlegt, að senda menn niður til Danmerkur.“ Í Sunnanfara 1896 segir: „Nú þykir það nóg fyrir menntamenn okkar ef þeir drattast niður til Hafnarháskólans og drekka þar bjór í nokkur missiri.“

Enn algengara var þó að nota upp til um ferðir til Íslands, og það virðist raunar hafa verið hið venjulega orðalag – um það eru rúm 460 dæmi á tímarit.is, en tæp 270 um norður til Íslands. Í Skírni 1838 segir: „hún skyldi nú til vorsins senda 2 landmælara upp til Íslands.“ Í Þjóðólfi 1863 segir: „það var svo handhægt fyrir hann að fara sjálfr upp til Íslands til að læra íslenzkuna.“ Í Ísafold 1875 segir: „Í fyrra sendi bókmennta-fjelags deildin í Höfn bókapakka upp til Íslands í gegnum póstinn.“ Í Þjóðólfi 1875 segir: „Hún kemur út í Bretlandi um leið og hjer, og þaðan má ná henni upp til Íslands.“ Í Fréttum frá Íslandi 1879 segir: „Sömuleiðis lagði alþingi það til, að stjórnin hlutaðist til um, að seglskip yrði sent upp til Íslands.“

En þótt langalgengast væri að nota niður til um Danmörku og upp til um Ísland er þetta orðalag notað um fleira. Í Norðanfara 1879 segir: „áður en skólinn byrjaði fór jeg niður til Sljesvíkur að finna nokkra menn.“ Í Bjarka 1900 segir: „Fótatak þeirra á marmaratröppunum […] heyrðist út til kvenmans, sem gekk ein eftir veginum niður til Sevillu.“ Í Skírni 1841 segir: „Eptir þetta hörfaði Ibrahim undan upp til Damascusborgar.“ Í Dagfara 1906 segir: „Ritsímann upp til Færeyja var búið að leggja í lok júlí.“ Í Austra 1896 segir: „Að í stað þess feykimikla vatns, er streymir norðan frá Heimsskautinu niður til Grænlands og þaðan suður í höf, hljóti að streyma jafn stríður straumur frá Norður-Siberíu, upp að Heimsskautinu.“

Þegar kemur fram á 20. öldina og ferðalög aukast fara að koma dæmi um fleiri og fleiri staðaheiti með þessum orðum, einkum niður. Í Morgunblaðinu 1915 segir: „Eftir skipan Viihjálms keisara, voru þeir allir sendir niður til Miklagarðs.“ Í Alþýðublaðinu 1922 segir: „Væri það maklegt, að J.M. fengi að velta niður til Spánar með tillögur sínar í fanginu.“  Í Siglfirðingi 1924 segir: „Veiða togararnir, sem kunnugt er, í ís og fara svo með aflann niður til Englands og selja hann þar.“ Í Alþýðublaðinu 1928 segir: „Á annan jóladag s.l. sendi ég niður til Þýzkalands landslagsmynd af mér í fornbúningnum.“ Í Ljósberanum 1934 segir: „hann átti að flytja móður með lítið barn alla leið niður til Egyptalands.“

Það er sem sé ljóst að það er hátt í 200 ára gömul málvenja að nota upp og niður með staðaheitum í merkingunni 'norður' og 'suður'. Vissulega eru orðin upp og niður ekki notuð í grunnmerkingu sinni þarna – þetta er myndlíking út frá landakorti eða hnattlíkani. En myndlíkingar þykja yfirleitt fremur skraut á máli en málspjöll og hliðstæðar myndlíkingar eru vitanlega algengar í málinu og alveg eðlilegar. Vissulega er trúlegt að þessi myndlíking sé upphaflega fengin að láni úr dönsku. En hún miðast ekkert fremur við danskar aðstæður en íslenskar og gæti því eins verið íslensk að uppruna. Að amast við þessu er þess vegna della sem hver hafa étið upp eftir öðrum – það er nákvæmlega ekkert að því að fara niður til Afríku.

Posted on Færðu inn athugasemd

Fláð og sláð

Í Málvöndunarþættinum var nýlega vitnað í þáttagerðarmann á K100 sem hefði sagt „Ég get sláð á þráðinn“ og spurt hvort einhverjum fyndist þetta í lagi. Væntanlega finnst fæstum það því að sögnin slá beygist sterkt – er slæ í nútíð, sló í þátíð og slegið í lýsingarhætti þátíðar eins og í umræddu dæmi. Það þarf samt ekki að koma á óvart að mynd eins og sláð bregði fyrir. Sögnin slá beygðist nefnilega alveg eins og flá og löng hefð er fyrir veikum myndum af þeirri sögn – flái í nútíð, fláði í þátíð og flegið í lýsingarhætti þátíðar. Það er samt ekki svo að veika beygingin hafi alveg tekið við af þeirri sterku, heldur tíðkast báðar að einhverju leyti í nútímamáli og hafa að hluta til með sér verkaskiptingu eins og fram kemur hér á eftir.

Veikar þátíðarmyndir sagnarinnar flá eru gamlar og koma fyrir þegar á 17. öld enda eru þær yfirleitt viðurkenndar – í Málfarsbankanum segir: „Kennimyndir: flá, fláði, flegið. Til var sterk þátíðarbeyging, fló sem vikið hefur fyrir veiku þátíðinni fláði.“ Skiptar skoðanir eru hins vegar um lýsingarháttinn fláður sem þó er einnig gamall og kemur  fyrir í kvæðinu „Kvölddrykkjan“ eftir Jónas Hallgrímsson: „skal það bændum / af baki fláð.“ Í Morgunblaðinu 1980 svaraði Gísli Jónsson spurningunni „Er rétt að segja að refirnir hafi verið fláðir?“ með „Nei, mér finnst það ekki rétt og því síður fallegt“ og Jón Aðalsteinn Jónsson segir í Morgunblaðinu 2000: „Ég hygg, að enn sé almennt talað um, að kindin hafi verið flegin, en ekki fláð.“

Í skýringum við beygingu sagnarinnar flá í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir: „Sögnin hefur tvær merkingar: 1. 'spretta eða fletta e-u af, t.d. húð af líkama; féfletta, …': Hann flær dýrið. Í þessari merkingu er beygingin yfirleitt sterk nema í þátíð. Sjá Íslenska orðsifjabók. 2. 'flaka frá, vera fleginn' (o.fl.): Hálsmálið fláir. Í þessari merkingu er beygingin yfirleitt veik. Sjá Íslenska orðsifjabók. Í þátíð er beygingin nánast alltaf veik í báðum merkingum: Hann fláði dýrið. Hálsmálið fláði áður en það var lagað. Í lýsingarhætti þátíðar er fláður haft um fláningu en fleginn haft um fláa, t.d. flegið hálsmál. (Sterk beyging, t.d. framsöguháttur í nútíð: hann flær, þt. hann fló; veik beyging, t.d. framsöguháttur í nútíð: e-ð fláir, þt. e-ð fláði.)“

Þótt ákveðin verkaskipting sé milli veiku og sterku myndanna er valið líka oft smekksatriði: „Mér finnst rétt að halda í gömlu beyginguna af flá, eins og hægt er. Hún er fallegri, þykir mér“ sagði Gísli Jónsson í Morgunblaðinu 1982, og í pistli frá 1980 sagði hann að fláðir væri „nákvæmlega eins og sagt væri: Mennirnir voru sláðir, ekki slegnir“. Þetta er alveg rétt og þess vegna hefði mátt búast við því að slá fylgdi í kjölfar flá og fengi veika beygingu til hliðar við þá sterku, en engin dæmi um slíkt er að finna á tímarit.is nema í vísu eftir Ísleif Gíslason (1873-1960) þar sem er gantast með sagnbeygingu Guddu nokkurrar: „Í deig ég náði og brauðin bók, / Bjarni fláði og skinn af tók, / litli snáðinn lesti í bók, / Loftur sláði, en Gunna rók.“

Í Risamálheildinni eru þó um 100 dæmi um veikar myndir af slá, nær öll af samfélagsmiðlum. Í héraðsdómi frá 2019 segir þó: „já ég sláði hann … með hendinni“. Í Kjarnanum 2018 segir: „Þingmenn fá 181.050 í persónuuppbót sem er orlofs- og desemberuppbót sláð saman í eina tölu.“ Í Skessuhorni 2007 segir: „Hann hlaut að hafa sláð inn vitlaust númer.“ Ef eingöngu er litið á formið er það vitanlega rétt hjá Gísla Jónssyni að sláðir er „nákvæmlega eins“ og fláðir. En munurinn er sá að af einhverjum ástæðum hefur fólk farið að nota veikar myndir af flá og gert það svo lengi að hefð er komin á þær. Hið sama gildir ekki um slá – engin hefð er komin á veikar myndir af þeirri sögn og þess vegna rétt að halda í sterku beyginguna meðan kostur er.