Þegar vísað er til fólks sem búið er að nefna til sögunnar en ætla má að sé lesendum ókunnugt er oft notað þessi á eftir nafninu – „Ein ströndin heitir Jon Gislason Beach en Jón þessi var einn fyrsti íslenski landneminn á eyjunni“ segir í DV 2003. Í Morgunblaðinu 2003 segir: „Jón Ásbjarnarson […] varð ráðherra í Alsír. Jón þessi hefur að líkindum verið seldur austur á firði.“ Í Reykjanesi 2013 segir: „þar bjuggu hjónin Guðrún Klængsdóttir og Magnús Einarsson. Guðrún þessi var ömmusystir Halldórs.“ Í Feyki 2020 segir: „Höfundur að henni er sagður vera Jón Þorgeirsson. […] Segir nú í dóti mínu að Jón þessi hafi búið á Hjaltabakka við Blönduós.“ Þetta er eðlilegt, til að gera skýrt að um sömu manneskju sé að ræða og áður hefur verið nefnd.
En stundum er þessi líka notað á þennan hátt með nöfnum fólks sem er alþekkt. Í Degi 1992 segir: „það var staðfastur ásetningur minn að fjalla að þessu sinni um ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. […] Davíð þessi, sem er susum ekki hátt skrifaður hjá okkur framsóknarmönnum.“ Í DV 2010 segir: „Um daginn las ég grein í LÍÚ-tíðindum, eftir hinn ágæta galgopa Jón Gunnarsson, sjálfstæðismann. […] Núna fer Jón þessi allajafna mikinn.“ Í Morgunblaðinu 2011 segir: „Steingrímur gaf út yfirlýsingu […]. Steingrímur þessi er með lengra nef en Gosi.“ Í Morgunblaðinu 2012 segir: „Geir H. Haarde […] hefði svarað fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um málið […]. Öðrum þremur árum síðar var Jóhanna þessi komin í ríkisstjórn.“
Á yfirborðinu gegnir þessi þarna sama hlutverki og í dæmunum sem áður voru nefnd, þ.e. að kynna fólk fyrir lesendum – en þetta fólk þarf ekki að kynna. Þarna er þessi augljóslega notað til að gera lítið úr fólki, oftast pólitískum andstæðingum – láta líta svo út sem um sé að ræða fólk sem engin ástæða sé til að ætla að lesendur þekki. Ég fór að hugsa um þetta þegar ég sá orðalagið „Úrsúla þessi“ á bloggsíðu þar sem Ursula von der Leyen var til umræðu. Þarna er líka notuð önnur nafnmynd en umrædd kona notar sjálf en eins og ég hef skrifað um er það líka aðferð til að tala niður til fólks. Hvaða skoðanir sem við höfum á fólki er það misnotkun á tungumálinu og ber vott um málefnafátækt að nota málið á þennan hátt til að gera lítið úr því.